Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir að þær 450-500 milljónir króna sem fóru í að greiða meðferðarheimilinu Háholti fyrir þjónustusamning á árunum 2014 til 2017 hafi verið skelfileg meðferð á opinberu fé. Þjónustusamningurinn var rökstuddur með því að finna þyrfti stað til að vista fanga undir aldri sem dæmdir höfðu verið til óskilorðsbundinnar refsingar. Frá því að samningurinn var gerður hefur einn slíkur fangi verið vistaður í Háholti, sem er staðsett í Skagafirði. Allt í allt hafa að jafnaði 1-3 einstaklingar verið vistaði í Háholti að jafnaði.
Ákvörðun um að gera þjónustusamninginn var tekin af Eygló Harðardóttur, fyrrverandi félags- og húsnæðismála í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að setja upp nýtt meðferðarúrræði nær höfuðborgarsvæðinu með það að markmiðið að tryggja börnum nauðsynleg meðferðarúrræði og auka vægi gagnreyndra aðferða í stofnanameðferð og stuðla þannig að framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna.
Rekstraraðilar Háholts sendu því nýverið velferðarráðuneytinu bréf þar sem þeir óskuðu ekki eftir því að endurnýja þjónustusamninginn sem gerður var í tíð síðustu ríkisstjórnar, og rennur út 1. september næstkomandi. Rekstur heimilisins hættir í lok júní.
Finna þurfti stað fyrir unga fanga
Árið 2011 lagði Barnaverndarstofa fram mjög ítarlega greinargerð til þáverandi velferðarráðherra þar sem lagt var til að komið yrði á fót stofnun á höfuðborgarsvæðinu sem yrði sérstaklega hönnuð fyrir ungmenni sem ættu við mjög alvarlegan vímuefna- og/eða afbrotavanda að stríða og fyrir þá sem þyrftu að afplána óskilorðsbundna dóma. Þessi tillaga rataði inn í framkvæmdaáætlun stjórnvalda í barnaverndarmálum sem Alþingi samþykkti árið 2012. Eins og oft vill verða með samþykkt íslensk vilyrði voru hins vegar aldrei neinir peningar settir í að byggja þessa stofnun.
Haustið 2012 gerðist það síðan, nokkuð skyndilega, að þingmenn úr öllum flokkum á þingi lögðu fram þingmannafrumvarp um að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í íslensk lög. Það var þarft verk, en frekar seint í rassinn gripið, enda hafði hann verið samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1989.
Innleiðingin var mjög illa undirbúin. Þegar sáttmálinn var síðan loks lögfestur hinn 20. febrúar 2013 stóð Barnaverndarstofa frammi fyrir því að þurfa að framfylgja lagaákvæði um vistun ungra afbrotamanna án þess að til væri stofnun hérlendis sem hægt væri að nýta til þess.
Með innleiðingu Barnasáttmálans vofandi yfir sér stóð Barnaverndarstofa frammi fyrir því að þurfa að finna einhverja aðra stofnun sem gæti leyst hlutverkið, að minnsta kosti til bráðabirgða. Eftir yfirlegu lagði hún til í mars 2013 að Háholti í Skagafirði yrði falið þetta hlutverk. Innanríkisráðuneytið, sem þá var undir stjórn Ögmundar Jónassonar, lagðist hins vegar gegn þessu. Helstu rökin voru þau að lausnin væri úti á landi, langt frá allri nauðsynlegri stoðþjónustu.
Ný ríkisstjórn skiptir um skoðun
Háholt hafði starfað sem meðferðarheimili í 15 ár á þessum tíma. Reksturinn var einkarekstur sem hvíldi á þjónustusamningi við Barnaverndarstofu. Samningurinn átti að renna út í lok árs 2013 og í ljósi þess að eftirspurnin eftir plássi þar var nær engin var einingin ekki talin rekstrarhæf. Starfsfólkinu var því öllu sagt upp í lok árs 2013 og við blasti að rekstrarsögu þessa meðferðarheimilis væri lokið.
Áður en að því kom tók ný ríkisstjórn við í landinu, ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Og þann 8. nóvember 2013 fól velferðarráðuneytið, sem nú var stýrt af Eygló Harðardóttur, Barnaverndarstofu að ganga til viðræðna um nýjan samning um rekstur meðferðarheimilis í Háholti þar sem gert yrði ráð fyrir að heimilið fengi það tímabundna hlutverk að vista fanga undir 18 ára aldri sem dæmdir væru til óskilorðsbundinnar refsingar.
Samkomulagið sem um ræðir var fyrst og fremst rökstutt með því að vista ætti fanga undir aldri sem dæmdir höfðu verið til óskilorðsbundinnar refsingar á Háholti. Það yrði nokkurs konar fangelsi fyrir unga glæpamenn, enda kveði Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna á um að börn megi ekki afplána með fullorðnum. Samkomulagið var undirritað 6. desember 2013 og í kjölfarið var gerður þjónustusamningur sem gildir til 1. september 2017.
Samkvæmt upplýsingum frá Barnaverndarstofu hefur einn einstaklingur verið vistaður á Háholti í kjölfar dóms frá því að þjónustusamningurinn var gerður. Sú vist stóð yfir í nokkra mánuði.
Þjónustusamningurinn við Háholt kostaði um og yfir 150 milljónir króna á ári, samkvæmt upplýsingum frá Barnaverndarstofu. Samanlagt kostuðu árin þrjú sem hann náði yfir því á milli 450-500 milljónir króna.
Á þeim tíma hafa að jafnaði 1-3 einstaklingar verið vistaðir á Háholti að jafnaði. Innritaðir einstaklingar voru sex á árinu 2014, þrír árið 2015 og sex á árinu 2016. Til samanburðar má nefna að 112 einstaklingar voru innritaðir í meðferðarúrræði Barnaverndarstofu á árinu 2016 til viðbótar við 47 sem nutu meðferðar á árinu, en höfðu innritast 2015.
Enginn sérfræðingur taldi Háholt hentugan stað
Kjarninn skrifaði töluvert um þjónustusamninginn sem gerður var við Háholt snemma árs 2014. Þá var rætt við fjölda sérfræðinga sem starfa með hópi ungra brotamanna og barna sem lenda á glapstigum. Enginn þeirra taldi Háholt hentugan stað til að vista slík börn á. Meðferðarheimilið þótti of fjarri þeirri stoðþjónustu sem börnin þurftu á að halda, þjónustu sálfræðinga og geðlækna sem langflestir eru staðsettir á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess eru fjölskyldur og rætur brotamanna nánast undantekningarlaust einnig þar.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir að gerð þjónustusamningsins hafi ekki verið góð aðgerð. „Þetta er skelfileg meðferð á opinberu fé,“ segir Bragi aðspurður um hvort það væri réttlætanlegt að eyða nálægt hálfum milljarði króna í þjónustu fyrir þá fáu einstaklinga sem vistaðir voru á Háholti.
Hann segir enn fremur að Háholt hafi verið komið á tíma 2013. Eftirspurn eftir meðferðarrýmum á borð við þau sem eru í boði í Skagafirði hafi verið arfaslök árum saman. „Áherslan er nú á svonefnda Fjölkerfameðferð, MST, og samhliða hefur dregið úr þörf á stofnanameðferð. Þeir sem vistaðir eru á stofnunum nú eru að takast á við fjölþættan og flókin vanda sem krefst aðkomu sérfræðinga sem er fyrst og síðast að finna á höfuðborgarsvæðinu.“