Íbúum í miðborg Reykjavíkur hefur fækkað á hverju ári frá árinu 2011, samkvæmt tölum frá Reykjavíkurborg. Í lok árs 2011 voru íbúar miðborgarinnar 8.611 talsins en í lok síðasta árs voru þeir 7.842. Það er fækkun um 769 íbúa á sex árum.
Miðborgin er eina hverfi borgarinnar þar sem færri búa nú en í lok ársins 2011.
Flestir greiningaraðilar eru sammála um að útleiga íbúða til ferðamanna, mest í gegnum Airbnb, hafi talsverð ruðningsáhrif og það sé mest í miðborginni enda eru þar flestar íbúðir í útleigu. Í greiningu Arion banka frá því í janúar sagði að allt að 3.200 íbúðir eða herbergi væru til leigu á Airbnb eða annarri heimagistingu.
Í öllum öðrum hverfum borgarinnar eru fleiri íbúar nú en árið 2011, og íbúum í Reykjavík hefur fjölgað um 4.432 á þessum tíma.
Fækkað í Vesturbæ síðustu ár
Í Vesturbæ Reykjavíkur hefur íbúum fækkað lítillega síðustu tvö ár, en íbúar eru engu að síður um 500 fleiri nú en þeir voru fyrir sex árum síðan. Nú búa rétt rúmlega sextán þúsund manns í vesturbænum, sem er fjórða stærsta hverfi borgarinnar.
Langfjölmennasta hverfi borgarinnar er Breiðholt, þar sem nú búa yfir 21.300 manns. Íbúum þar hefur fjölgað hægt og bítandi undanfarin ár, líkt og sjá má hér að neðan.
Næstfjölmennasta hverfið í Reykjavík er Grafarvogur, en íbúafjöldi þar hefur haldist mjög stöðugur undanfarin ár. Í lok ársins 2011 bjuggu þar 17.869 einstaklingar en í lok síðasta árs voru þeir 17.944. Fjölgunin nemur 75 manns.
Þriðja stærsta hverfið er nú Laugardalur, þar sem 16.135 íbúar búa, miðað við 15.357 fyrir sex árum síðan. Þar hefur einnig fjölgað á hverju einasta ári frá 2011. Það ár var Laugardalur örlítið fámennari en Vesturbærinn en hverfin hafa nú haft sætaskipti og Vesturbærinn er orðinn fjórða stærsta hverfi borgarinnar.
Íbúum í Grafarholti og Úlfarsfelli hefur fjölgað mest á þessum sex árum sem tölfræðin nær yfir. Úlfarsárdalur er nýjasta hverfi borgarinnar svo fjölgunin kemur ekki á óvart. 928 fleiri bjuggu í Grafarholti og Úlfarsárdal í lok síðasta árs en árið 2011. Íbúum í Árbæ hefur fjölgað um 854 á sama tímabili og í Breiðholti búa nú 839 fleiri en gerðu fyrir sex árum.
Hér að neðan má sjá íbúafjölda í hverfum borgarinnar, en taflan er fengin af tölfræðivef Reykjavíkurborgar.