Það er fátt sem slúðurpressan elskar jafn heitt og hressilegar rimmur milli poppstjarna. Tónlist er mikill samkeppnisbransi og sjálfsálit stjarnanna á pari við hnefaleikamenn. Því blossa reglulega upp illdeilur milli þeirra og gildir þá einu hvort um sé að ræða popp, rokk, rapp eða jafnvel klassíska tónlist. Þessar deilur geta staðið yfir áratugum saman og klofið aðdáendur í fylkingar. Eftir á að hyggja virðast þær þó flestar afar hjákátlegar.
10. The Cure vs The Smiths
Ein sorglegasta deila tónlistarsögunnar hófst milli bresku popphljómsveitanna The Smiths og The Cure á níunda áratugnum, eða nánar tiltekið milli forsprakka þeirra Morrissey og Robert Smith. Bæði bönd voru þekkt fyrir að spila upplífgandi tónlist við niðurdrepandi texta og forsprakkarnir báðir heimsþekktir fýlupúkar. En þeir höfðu einnig munninn fyrir neðan nefið og voru óhræddir við að láta vaða gagnvart öðrum tónlistarmönnum, sérstaklega Morrissey. Það var einmitt hann sem byrjaði deiluna með því að segja (úr hörðustu átt) að Robert Smith væri vælukjói og að The Cure hefðu fundið upp nýja vídd á hugtakinu skít. Eftir nokkur álíka skot til viðbótar gat Smith ekki hamið sig og svaraði en þó á frekar aumkunnarverðan hátt. Hann sagði að þó að þeir hefðu fundið upp nýja vídd á skít þá væri tónlistin þeirra ekki byggð á skít……eins og væntanlega tónlist Morrissey. Einnig sagðist Smith borða kjöt eingöngu vegna þess að Morrissey væri á móti því. Þessi vandræðalega keppni um að vera konungur fýlupúkanna blossar reglulega upp og mun sennilega gera það þar til yfir lýkur.
9. Michael Jackson vs Prince
Deila Jackson og Prince hófst á níunda áratugnum þegar báðir voru að ryðja sér til rúms sem stærstu poppstjörnur heims. Deilan var knúin áfram af öfund á báða bóga. Jackson öfundaði Prince af því að vera talinn frábær lagahöfundur og framúrskarandi tónlistarmaður af flestum gagnrýnendum. Prince öfundaði Jackson af frægðinni og sölutölunum. Þeir brugðust þó við þessari öfund sinni á mismunandi hátt. Jackson reyndi ítrekað að fá Prince með sér í verkefni eins og t.d. Bad og We Are the World en Prince hafnaði því ávallt. Prince hafði mikið keppnisskap og baunaði reglulega á Jackson t.d. í laginu Life ´O´ the Party. Þá breytti hann einnig tónlistinni á plötunni Purple Rain til að gera hana söluvænlegri, gagngert til að reyna að skáka Jackson. Undarlegasta sena deilunnar átti sér stað á tónleikum Prince í Las Vegas árið 2006. Jackson var boðið á tónleikana og Prince gekk að honum með bassagítar og spilaði fyrir framan hann á mjög ágengan hátt. Jackson sárnaði þetta allt saman og sagði Prince vera bæði andstyggilegan og dónalegan.
8. Elton John vs Madonna
Poppgoðsagnirnar tvær hafa starfað í marga áratugi en deila þeirra hófst árið 2002 þegar Elton John sagði að lag Madonnu úr kvikmyndinni Die Another Day væri versta Bond-lag allra tíma. En hann lét ekki þar við sitja og næstu 10 árin eða svo sendi hann söngkonunni reglulega svæsin skot bæði í fjölmiðlum og á sviði. Hann sakaði hana um að syngja ekki á tónleikum heldur einungis hreyfa varnirnar, sem að hans mati er glæpur sem ætti að refsa með aftöku. Einnig kallaði hann hana hæfileikalausa, ömurlega kú og tívolí-fatafellu. Þá hjálpaði eiginmaður hans, David Furnish, honum við að ausa svívirðingum yfir hana. Madonnu sárnaði þetta vitaskuld en hún lagðist hins vegar aldrei niður á sama plan og Elton John. Hún sagðist hins vegar vorkenna honum og vonast til þess að hann jafnaði sig í framtíðinni. Margir töldu hana hafa haft sigur á Elton John þegar hún sigraði hann í baráttu um Gullhnöttinn árið 2012. Hún tileinkaði sigurlagið, Masterpiece, Elton og gremja hans duldist engum.
7. Dixie Chicks vs Toby Keith
Vorið 2002 gaf country tónlistarmaðurinn Toby Keith út lagið Courtesy of the Red, White and Blue (The Angry American) sem viðbragð við áráunum á tvíburaturnana 11. september árið áður. Í textanum segir hann að Sámur frændi ætti að hefna sín og sparka í rassinn á óvinum sínum. Natalie Maines, söngkona hljómsveitarinnar Dixie Chicks, sagði lagið heimskulegt og léti country-tónlist líta heimskulega út. Upphófst nú mikil rimma milli þeirra tveggja þar sem Keith sagði Maines ömurlegan lagahöfund og á tónleikum sýndi hann risastóra samskeytta mynd af söngkonunni og einræðisherranum Saddam Hussain. Maines svaraði með að klæðasta stuttermabol með áletrunninni F.U.T.K., sem fólk mátti síðan túlka að vild. Dixie Chicks urðu um tíma útskúfaðar úr hinu íhaldssama country-samfélagi eftir að hafa sagst skammast sín fyrir það að koma frá sama fylki og forsetinn George W. Bush og baráttu þeirra var gerð skil í heimildarmyndinni Dixie Chicks: Shut Up and Sing. Um tíma lá hljómsveitin í dvala en nú hafa þær komið fram á sjónarsviðið á ný og tekið upp þráðinn sem stærsta country-band veraldar.
6. Johannes Brahms vs Richard Wagner
Brahms og Wagner voru tveir af lykilmönnum rómantísku bylgjunnar um miðja 19. öld en komu þó úr sitt hvorri áttinni. Wagner var 20 árum eldri en fylgjandi hinnar nýstárlegu stefnu Franz Liszt, þ.e. að tónlist ætti að vera tengd ljóðlist og segja sögu. Ópera væri æðsta form tónlistar. Brahms fylgdi gamla skóla sinfóníutónlistar þar sem tónlist þurfti ekki að vera neitt annað en fallegir tónar. Fólk skiptist í fylkingar og sýndi fyrirlitningu sína í verki t.a.m. í blöðum, ritgerðum og tónverkum. Sumir mættu á uppfærslur gagngert til þess að flissa upphátt. Þjóðverjarnir tveir hittust aðeins einu sinni, árið 1863 og var sá fundur ekki óvingjarnlegur. En eftir það var kalt á milli þeirra, sérstaklega hjá Wagner sem réðst ítrekað á Brahms í greinaskrifum sínum. Þrátt fyrir að vera andstæðir pólar í tónlist sagði Wagner að frægð Brahms væri honum að þakka fyrir að hafa rutt veginn. Brahms var vitaskuld sár og neitaði að láta af hendi dýrmætt handrit af Tannhauser, óperu Wagners, þegar höfundurinn bað um það fyrir uppfærslu í Munchen. Deilan hefur verið kölluð stríð rómantíkeranna.
5. Nirvana vs Guns n´ Roses
Ein orðljótasta hljómsveitadeila síðustu aldar átti sér stað milli Guns n´ Roses og Nirvana í upphafi tíunda áratugarins. G.N.R. voru þá stærsta rokkhljómsveit heims en Nirvana á leiðinni að verða það. G.N.R.-liðar voru miklir aðdáendur Nirvana og þá sérstaklega bassaleikarinn Duff McKagan sem kom frá Seattle líkt og Nirvana. Axl Rose þrábað Kurt Cobain að hita upp fyrir G.N.R. á tónleikaferðalagi og að spila á þrítugs afmælinu sínu snemma árs 1992. En Cobain neitaði og sagði að G.N.R væru þýðingarlaust band og hluti af kerfinu. Rose fékk loks nóg og reif Nirvana í sig á sviði. Hann sagði Nirvana vera fíklaband og að nýfædd dóttir Cobain og söngkonunnar Courtney Love væri vansköpuð vegna eiturlyfjanotkunar móðurinnar. Hápunkti deilunnar var náð á MTV tónlistarhátíðinni árið 1992 þegar Love stríddi Rose með því að segja að hann væri guðfaðir dótturinnar. Rose sagði Cobain þá að halda konu sinni á mottunni. Það var þó ekki endir deilunnar því að Cobain hélt áfram að senda Rose pillur í fjölmiðlum og kallaði hann m.a. kynþáttahatara og karlrembu. Eftir að Cobain féll frá vorið 1994 hefur sambandið milli meðlima hljómsveitanna verið mjög gott og hafa þeir t.a.m. spilað saman á tónleikum.
4. Metallica vs Megadeth
Árið 1981 gekk gítarleikarinn Dave Mustaine til liðs við hina nýstofnuðu þungarokkshljómsveit Metallica í Los Angeles. Hann stóð sig vel bæði á tónleikum og í lagasmíð. En tveimur árum seinna, rétt áður en fyrsta platan Kill ´em All kom í búðir, var hann rekinn úr hljómsveitinni eftir tónleika í New York. Opinbera ástæðan var óhófleg drykkja og notkun eiturlyfja en raunverulega ástæðan var sú að Mustaine var hrokafullur og erfiður í samskiptum við flest alla. Niðurbrotinn var hann sendur heim til Kaliforníu með rútu. Í þessari 4 daga rútuferð lagði hann á ráðin um stofnun sinnar eigin hljómsveitar, Megadeth. Báðar hljómsveitirnar urðu risar í þungarokkinu á níunda áratugnum en frægð Metallica var þó alltaf langt um meiri en Megadeth. Þetta sárnaði Mustaine augljóslega og hann sendi sínum gömlu félögum ítrekað pillur í fjölmiðlum. Metallica liðar reyndu að láta þetta sem vind um eyru þjóta eða þá lýsa vorkunn sinni á Mustaine og stöðu hans. Á síðustu árum hefur sambandið lagast umtalsvert og Mustaine spilaði meira að segja á sviði með Metallica árið 2011. Það er þó alls ekki um heilt gróið á milli þeirra.
3. Kanye West vs Taylor Swift
Haustið 2009 steig country-söngkonan Taylor Swift á svið á MTV tónlistarhátíðinni til að taka á móti verðlaunum fyrir besta tónlistarmyndband í kvennaflokki. Í miðri ræðu stökk rapparinn Kanye West inn á sviðið, reif af henni hljóðnemann og tilkynnti að Beyonce, sem einnig var tilnefnd, hefði átt eitt besta myndband allra tíma. West var rekinn út úr húsinu og fékk holskeflu af gagnrýni næstu daga á eftir, m.a. frá Obama forseta sem kallaði hann asna. West baðst afsökunar og málinu virtist lokið. En ári seinna gaf Swift út lagið Innocent sem var gagnrýni á framferði West á verðlaunaafhendingunni. Þá dró West afsökunarbeiðni sína til baka og sagðist ekki sjá eftir neinu, Swift hafi ekki átt verðlaunin skilið og hún hefði nýtt sér athyglina eftir atvikið. Nokkrum árum seinna virtist allt leika í lyndi milli þeirra og meira að segja var farið að tala um samstarf stjarnanna. En árið 2016 gaf hann út hið alræmda lag Famous þar sem hann sagðist “hafa gert tíkina (Swift) fræga”. Í myndbandi lagsins mátti sjá naktar vaxstyttur af frægu fólki, þar á meðal Swift. Swift svaraði svo fyrir sig á Grammy-verðlaunaathöfninni þar sem hún tók við verðlaunum fyrir plötu ársins í annað skiptið á ferlinum. Þessari rimmu er hvergi nærri lokið.
2. Oasis vs Blur
Um miðjan tíunda áratuginn reið Britpop bylgjan yfir og Blur urðu vinsælasta hljómsveit Bretlands, með Damon Albarn í fararbroddi. En þá ruddust Oasis, með bræðurna Liam og Noel Gallagher innanborðs, inn á sjónarsviðið og skoruðu Blur á hólm. Þann 12. ágúst árið 1995 gáfu báðar sveitirnar út smáskífur og fjallað var um atburðinn eins og heimsmeistarabardaga í hnefaleikum og sölutölur myndu ráða úrslitum. Blur lagið Country House vann Oasis lagið Roll With It og Gallagher bræður tóku því afar illa. Skömmu síðar kom hins vegar (What´s the Story) Morning Glory, önnur plata Oasis, út og þar með var tekinn af allur vafi hver hefði unnið stríðið. Albarn reyndi að standa í lappirnar en gífuryrði Gallagher bræðra í fjölmiðlum voru slík að aurinn slettist á alla viðkomandi. Deilan risti einnig djúpt í breska þjóðarsál í ljósi þess að Blur voru háskólastrákar frá London en Oasis úr verkamannastétt í Manchester. Að lokum fennti yfir deiluna og Gallagher bræðrur fóru að bítast sín á milli uns Oasis hættu árið 2009. Albarn fór að einbeita sér meira að tölvupoppgrúppunni sinni Gorillaz og nýverið kom út lagið We Got The Power í samstarfi við Noel Gallagher. Liam hraunaði vitaskuld yfir það.
1. Tupac Shakur vs Biggie Smalls
Tupac og Biggie kynntust í Los Angeles árið 1993 og urðu strax mestu mátar. Tupac var þá rísandi stjarna í rappheiminum en Biggie að stíga sín fyrstu skref í Brooklyn. Í hvert sinn sem þeir hittust grilluðu þeir, reyktu dóp og höfðu gaman. Tupac kenndi Biggie fáein trix, fékk hann á svið með sér og kom honum á framfæri. Biggie bað þá Tupac um að gerast umboðsmaður sinn en Tupac hafnaði því. Í nóvember árið 1994 var Tupac rændur og skotinn af þremur mönnum í upptökuveri við Times-torg í New York. Tupac komst á snoðir um að Biggie hefði vitað af árásinni og fannst hann svikinn en Biggie þvertók fyrir það. Á þeim tíma var Tupac auralaus og í fangelsi fyrir kynferðisbrot en Biggie á leiðinni upp. Upphófst þá stríð í rappheiminum. Austur vs vestur, Biggie vs Tupac, Bad Boy Records vs Death Row Records. Í upphafi var stríðið háð með ljóðum, þ.e. skotin gengu á víxl í textum rapparanna. Biggie hleypti af fyrsta skotinu með laginu Who Shot Ya? og illindin mögnuðust svo með hverju laginu. En deilur rappara eru yfirleitt alvarlegri en í öðrum geirum tónlistar. Þann 7. september árið 1996 var Tupac skotinn í Las Vegas og hann lést skömmu síðar. Hálfu ári síðar var Biggie myrtur í Los Angeles. Morðin eru enn óleyst.