Hinn 17. desember árið 1995 var fimm hundruð rifflum og ýmis konar öðrum vopnabúnaði, samtals tæpum fimm tonnum kastað, í fallhlífum, úr rússnesk/úkraínskri flutningavél yfir Vestur- Bengal á Indlandi. Vopnin voru ætluð uppreisnarmönnum. Í flugvélinni var breskur vopnasali, Peter Bleach að nafni, ásamt fimm Lettum (sem síðar urðu rússneskir ríkisborgarar) og einum manni til viðbótar. Eftir að vopnunum hafði verið varpað niður hélt flugvélin áfram til Taílands en indverskar herþotur neyddu vélina síðar til að lenda á indverskum flugvelli. Breski vopnasalinn og Lettarnir fimm voru handteknir en sjöunda manninum tókst að komast undan. Þessi sjöundi maður var Daninn Niels Holck.
Holck tókst með einhverjum hætti að komast til Nepal og, nokkrum vikum síðar, áfram til Danmerkur. Breski vopnasalinn og Lettarnir fimm voru dæmdir í ævilangt fangelsi á Indlandi, en voru átta árum síðar náðaðir, eftir mikinn þrýsting rússneskra og breskra stjórnvalda. Lengi vel vissu indversk stjórnvöld ekki hver sjöundi maðurinn um borð í flugvélinni var, vissu einungis að hann gekk undir nafninu Kim Davy.
Það að Kim Davy héti í rauninni Niels Holck kom ekki ljós fyrr en árið 2002 þegar sjónvarpsstöðin TV2 sendi út sjónvarpsþátt, sem rakti sögu hans. Þá hafði Niels Holck búið í Danmörku, undir fölsku nafni, frá árinu 1996. Þótt indversk stjórnvöld hefðu komist að því að maðurinn Kim Davy, sem gekk þeim úr greipum í desember 1995 væri Dani, héti Niels Holck og byggi í Danmörku, gátu þau lítið aðhafst, enginn samningur um framsal var í gildi milli Danmerkur og Indlands.
Berfætti ræninginn
Niels Holck er fæddur árið 1961 í Aars á Jótlandi en ólst upp á Norður-Sjálandi. Hann fékk ungur mikinn áhuga á Indlandi og dvalist þar langdvölum frá árinu 1981. En fleira kom til. Niels Holck var handtekinn í Danmörku árið 1980, grunaður um að hafa tekið þátt í að ræna tveimur peningaflutningabílum í Nivå, norðan við Kaupmannahöfn. Hann hélt því síðar fram að félagi sinn hefði logið þessu upp á sig.
Eftir að Niels Holck var handtekinn gaf hann við yfirheyrslur í skyn að hann vissi hvar peningarnir úr ráninu væru faldir. Þeir væru grafnir í Rungsted-skógi fyrir norðan Kaupmannahöfn. Lögreglan fór með hann þangað og til að tryggja að Niels Holck reyndi ekki að stinga af var honum skipað að fara úr skóm og sokkum. Sú fyrirbyggjandi aðgerð reyndist ekki fullnægjandi og Niels Holck komst undan á hlaupum. Fjölmiðlar gáfu honum nafnið „berfætti ræninginn“ og lögreglan varð að athlægi. Niels Holck varð sér úti um falsað vegabréf og fimm þúsund danskar krónur (og væntanlega sokka og skó) og flýði land.
Breytt löggjöf, beiðni um framsal
Í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001 var danskri löggjöf um framsal danskra ríkisborgara til landa utan Evrópusambandsins breytt. Samkvæmt þeim varð heimilt að framselja danska ríkisborgara væru þeir grunaðir um hryðjuverk eða afbrot. Það var þó ekki fyrr en árið 2007 að Indverjar fóru fram á að Niels Holck yrði handtekinn og sendur til Indlands þar sem hægt yrði að rétta í „vopnamálinu“ eins og það var nefnt. Niels Holck fór í felur en var handtekinn árið 2010, eftir að dönsk stjórnvöld höfðu samið um framsalið við stjórnvöld á Indlandi.
Tveimur árum fyrr, árið 2008 hafði þáverandi forsætisráðherra Dana, Anders Fogh Rasmussen, sagt í viðtali við indverska sjónvarpið að dönsk stjórnvöld væru tilbúin að framselja Niels Holck, með ákveðnum skilyrðum. Í nóvember 2010 úrskurðaði Bæjarréttur í Hilleröd (þar sem Niels Holck bjó) að ekki bæri að framselja hann. Dönsk stjórnvöld áfrýjuðu til Eystri-Landsréttar og meðan málið var þar til meðferðar varð Niels Holck að gefa sig fram við lögreglu tvisvar í viku og vegabréf hans var gert upptækt. Eystri-Landsréttur staðfesti í júní 2011 dóm Bæjarréttarins í Hilleröd og ríkissaksóknari ákvað að málið færi ekki fyrir Hæstarétt. Niels Holck fékk vegabréfið og var frjáls maður. Meginrök dómstólanna voru þau að ekki væri hægt að ábyrgjast öryggi Niels Holck á Indlandi og að mál hans fengi réttláta meðferð í indversku dómskerfi.
Indverjar hótuðu öllu illu
Indverjar urðu æfir þegar þeir fréttu af niðurstöðum danskra dómstóla. Tilkynntu um alls kyns hótanir, viðskiptasamningum yrði rift, vegabréfaumsóknum Dana yrði hafnað og fyrirhugaðri heimsókn forseta Indlands til Danmerkur var aflýst. Niels Holck tilkynnti árið 2012 að hann væri tilbúinn að mæta til yfirheyrslu indverskra stjórnvalda ef slíkar yfirheyrslur færu fram utan Indlands. Dönsk stjórnvöld reyndu að semja um þessa leið við stjórnvöld á Indlandi, án árangurs. Yfirheyrslur og hugsanleg réttarhöld yfir Niels Holck skyldu fara fram á Indlandi. Punktur og basta.
Ný framsalsbeiðni 2016
Í desember 2016 sendu Indverjar dönskum stjórnvöldum enn á ný kröfu um framsal Niels Holck. Søren Pape Poulsen dómsmálaráðherra og formaður danska íhaldsflokksins fyrirskipaði ríkislögmanni að leita leiða til að taka málið upp að nýju og kanna möguleika á að verða við kröfum Indverja. Þegar fjölmiðlar gengu á ráðherrann og vildu fá að vita hverju þetta sætti var fátt um svör. Fréttamenn sökuðu ráðherrann um undirlægjuhátt og að hann væri fyrst og fremst að hugsa um viðskiptahagsmuni. Danskir fjölmiðlar hafa einnig rannsakað hvort Holck málið, eins og það er kallað, hafi haft áhrif á viðskipti Danmerkur og Indlands. Niðurstaðan er sú að áhrifin séu lítil sem engin.
Að hafa ömmu sem lífvörð
Niels Holck hefur neitað að láta yfirheyra sig í tengslum við þessa nýju kröfu Indverja. Hann og lögfræðingur hans segja það með ólíkindum að ráðherrann skuli láta sér detta í hug að reyna að ganga gegn niðurstöðum dómstóla.
Yfirlögfræðingur mannréttindasamtakanna Amnesy International segir yfirlýsingar ráðherrans um breytt og bætt mannréttindi á Indlandi lýsa barnaskap og kunnáttuleysi manns sem greinilega þekki lítið til mála.
Við vitum mörg dæmi þess að menn sem verið er að flytja í handjárnum milli staða hafi „dottið“ út úr lögreglubílum beint á andlitið niður í götuna. „Að trúa því, sem ráðherrann heldur fram, að danska sendiráðið geti gætt öryggis Niels Holck er álíka gáfulegt og að hafa ömmu sem lífvörð“.