Karl Einarsson eða Dunganon var skáld og myndlistamaður, tónlistarmaður og heimspekingur, dulspekingur og lífskúnstner. Hann var flökkukind sem lítið til spurðist hér á landi en fékkst við ólíklegustu hluti víðs vegar um Evrópu. Hann titlaði sig sjálfan hertoga af Sankti Kildu þó að fæstir viðurkenndu þá tign eða kærðu sig um að vita hvar sá staður er á landakortinu. En í kringum þann stað bjó hann til draumaheim sem öll hans list byggðist á.
Seyðisfjörður, Færeyjar og heimurinn
Karl Kjerúlf Einarsson fæddist þann 6. maí árið 1897 í þorpinu Vestsdalseyri við Seyðisfjörð sem síðar lagðist í eyði. Foreldrar hans voru Magnús Einarsson úrsmiður og Kristjana Guðmundsdóttir sem ráku verslun á staðnum. Um aldamótin þegar Karl var aðeins þriggja ára gamall fluttu þau til Kaupmannahafnar um skamma stund og síðan til Þórshafnar í Færeyjum þar sem þau ráku matvöruverslun í 20 ár.
Á æskuárum sínum hreifst Karl af listum og umgekkst unga menn sem voru eins þenkjandi og hann. Hann fór að yrkja og tók upp listamannanafnið Dunganon eftir húsinu sem fjölskylda hans bjó í, Dunga. Honum fannst nafnið svolítið geilískt og því nokkuð sérstakt en einnig þannig að allir gætu borið það fram.
Eftir veruna í Færeyjum ákvað fjölskyldan að flytja aftur til Kaupmannahafnar og Karl skyldi sendur í verslunarnám. En hann strauk úr því námi og hélt til Spánar þar sem flökkulíf hans hófst. Á næstu 30 árum bjó hann m.a. í Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi, Belgíu, Póllandi og á Norðurlöndum og sjaldast lengi á hverjum stað. Hann ferðaðist um með járnbrautarlestum og skipum sem laumufarþegi því honum var meinilla við að borga fyrir samgöngurnar. Hefðbundin vinna var eitthvað sem hann hafði megna óbeit á en hann vildi heldur ekki lifa á kerfinu. Dunganon þurfti því að beita óvenjulegum aðferðum til að hafa í sig og á.
Hertogi sjófuglanna
Dunganon var ekki eina viðurnefnið sem Karl Einarsson gekk undir. Hann kallaði sig stundum Lord of Hecla, Prófessor Emarson eða Carolus Africanus gandakallur. Á fjórða áratugnum fór hann að kalla sig Cormorant XII Imperator av Atlantis, hertoga af Sankti Kildu. Sankti Kilda er klasi sjö eyja vestur af Suðureyjum í Skotlandi sem þá höfðu nýlega verið rýmdar af öllu fólki. Íbúarnir voru þá einungis 36 talsins en höfðu mest verið um 200 í um 2000 ára byggðarsögu eyjanna. Enn þá standa þar hús eyjaskeggja og sum nokkuð heilleg en enginn dvelur þar nú allt árið um kring og erfitt er að komast þangað.
Dunganon dáðist að harðgerðum íbúum eyjanna sem höfðu lifað í mikilli einangrun, utan við skatta og skyldur, og dregið fram lífið með því að borða lunda og fýl. Þegar þeir fóru upp á land sló hann eign sinni á eyjarnar og titlaði sig sem aðalsmann. En fólkið var farið frá eynni og með því sauðféð og öll önnur húsdýr, meira að segja mýsnar dóu út. Einu þegnar hertogans voru því sjávarfuglarnir og aldrei gerðist hann svo frægur að ferðast til eyjanna og hitta þá.
En það hindraði hann ekki í því að skapa umgjörð um ríkidæmi sitt og koma því til vegs og virðingar. Hann teiknaði upp skjaldarmerki eyjanna að fyrirmynd merkja Oddaverja á Rangárvöllum. Sjálfur sagðist hann vera beinn afkomandi Jóns Loftssonar, höfðingja þeirra á 12. öld, sem er sennilega rétt (eins og allir aðrir Íslendingar). Dunganon kunni einnig sitt fyrir sér í tónsmíð og samdi því þjóðsöng eyjanna sem hann söng sjálfur inn á band. Textinn var á tungumáli Atlantis, A-Máhla Máhnu, sem hann bjó sjálfur til og er merkilegasta framlag hertogans til eyjanna.
Dunganon orti mikið á þeirri tungu en hún var þó ekki viðurkennd nema af mjög þröngum hópi fólks og sjálfsagt hefur enginn skilið hana nema Dunganon sjálfur. En hertogadæmið var ekki aðeins til í höfðinu á honum sjálfum því í nokkur skipti fékk hann viðurkenningu frá opinberum stofnunum og aðilum. Dunganon gekk um með vegabréf frá Sankti Kildu sem hann fékk nokkrum sinnum stimplað af landamæravörðum. Hann teiknaði frímerki með skjaldarmerkinu og gat sent bréf milli staða. Hann fékk meira að segja viðurkenningu sína á hertogadæminu staðfesta af yfirvöldum þegar hann bjó í Berlín á fimmta áratugnum. Það er þó ekki hægt að útiloka að slæm landafræðikunnátta sumra opinberra starfsmanna hafi valdið því að hann komst upp með þetta.
Adolf Hitler og Halldór Laxness
Saga Dunganon er full af goðsögnum og hálfkveðnum vísum og því ekki alltaf gott að segja hvað sé satt og hvað logið, eða a.m.k. ýkt. Þegar hann bjó í Brussel átti hann að hafa rekið hóruhús. En þar lét hann sér ekki veraldlega heiminn duga því að hann rak einnig andlega hjúskaparmiðlun, eða eins og hann kallaði það „astró-erótískan ektaskapskontór“.
Hann kallaði sig þá Doktor Anakananda og leiddi unga menn á miðlisfundum til að finna sálarmaka til trúlofunar. Ósagt er hversu margir þáðu þessa hjálp eða hversu vel hún gekk. Hann seldi á einhverjum tímapunkti dropa sem hann kenndi við Sankti Kildu en óvíst er hvað var í þeim elixír og hvaða tilgangi hann átti að þjóna. Hann stundaði einnig húsnæðismiðlun, bæði í Danmörku og í Þýskalandi á stríðsárunum.
Samband Dunganon við nasistana er hvað mest á huldu. Vitað er að hann fékk staðfestingu sína á hertogatigninni á þessum tíma en einnig sagðist hann hafa persónulega beðið Adolf Hitler um einkaflugvél til að komast til eyjanna. Vitað er að Dunganon starfaði fyrir nasistana í útvarpi, nauðugur eða viljugur, við það að lesa áróður á færeysku. Hann sjálfur sagðist þó einungis hafa lesið upp ljóð á Atlantis-tungu sinni sem enginn Færeyingur ku hafa skilið og því ekki komið neinum áróðri til skila. Ljóð sín kallaði Dunganon reyndar galdra og það var það sem hann var þekktastur fyrir framan af. Hann gaf út tvær ljóðabækur á dönsku í Kaupmannahöfn, Vartegn (1931) og Enemod (1935), að hans sögn til þess að kenna dönskum skáldum að yrkja. Þessum bókum var vel tekið af gagnrýnendum en umstangið í kringum útgáfuna og skattgreiðslurnar fóru í skapið á Dunganon svo hann hætti að gefa út hjá forlögum.
Eftir það prentaði hann sjálfur ljóð undir merkjum Sankti Kilda og gaf vinum sínum. Í krafti aðalstignarinnar sló hann einnig marga þeirra til riddara og veitti þeim skreytt og stimpluð bréf því til staðfestingar. Einn af vinum hans var Halldór Laxness sem hann kynntist í Kaupmannahöfn. Laxness hreifst af visku, sérvisku og kænsku Dunganon og gerði hann að fyrirmynd sögupersónunnar Karls Einfer í smásögunni Völuspá á hebresku (1942). Líkt og Einfer í sögunni sagðist Dunganon geta útvegað Halldóri nóbelsverðlaunin en þó gegn gjaldi. Halldór neitaði þjónustunni en fékk verðlaunin þó eins og allir vita árið 1955, án hjálpar Dunganons.
Myndir af Sankti Kildu
Tveimur árum eftir seinni heimsstyrjöld flutti Dunganon til Kaupmannahafnar þar sem hann festi loks rætur, fimmtugur að aldri. Þá hóf hann fyrst þá iðju sem hann átti eftir að verða langþekktastur fyrir, þ.e. listaverkamálun. Myndir hans eru flestar gerðar með olíukrít í naívískum og draumkenndum stíl. Sjálfur kallaði hann myndir sínar „draumveraldar dimensjón“ og eru þær að miklu leyti byggðar á hugmynd hans sjálfs um hina sokknu borg Atlantis og Sankti Kildu sem var alla tíð miðstöð draumaheims hans.
Myndirnar eru af ýmsum toga t.d. af fólki og landslagi en þekktastar eru myndir hans af dýrum. Dunganon bjó rétt hjá dýragarðinum í Kaupmannahöfn og dvaldi þar löngum stundum við að skoða dýrin. Dýrin sem hann málaði voru nokkurs konar fantasíu-útfærslur af þeim og veröldin í kring einnig. Þekktustu verk hans eru myndaröð sem hann nefndi Véfréttir og er einnig kölluð Véfréttir frá Sankti Kildu. En þó að Dunganon hafi fundið sér nýja útrás fyrir sköpunargáfunni þá hætti hann ekki að yrkja. Þvert á móti þá tvinnaði hann saman myndlist og ljóðlist, þ.e. hann málaði margar af sínum myndum eftir ljóðum.
Dunganon orti á ótal tungumálum, s.s. færeysku, dönsku, frönsku, forn-frönsku, hebresku, hindústani, maórí og auðvitað Atlantshafstungunni. Erfitt reyndist hins vegar að nálgast ljóð hans, ef frá eru talin nokkur ljóð sem birtust í dönskum sjérrí og vindlaauglýsingum. Á þessu var gerð bragarbót árið 1961 þegar Ásbjörn Ólafsson stórkaupmaður styrkti Dunganon til Íslandsfarar en það var í fyrsta og eina skiptið sem hann heimsótti Ísland eftir að hann flutti út árið 1900. Með í för voru málverk sem voru sýnd í einkahúsi í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg og þá var einnig hafist handa við útgáfu ljóðasafns að undirlagi Ásbjörns. Corda Atlantica: Poesias peregrinas St. Kilda kom út árið 1962 og innihélt ljóð á 20 tungumálum, þ.á.m. Atlantshafs-tungunni. Dunganon naut verunnar hér á landi. Sagt er að hann hafi gengið um stræti eins og vitringur og rætt austræna dulspeki og jóga við þá sem hann hitti.
Erfitt að vera ekkert
Síðustu 10 ár ævinnar bjó hann í Danmörku í sárri en jafnframt sjálfsskipaðri fátækt líkt og fyrr. Hann vildi helst ekki láta málverkin frá sér og ekki selja þau í hlutum. Einstaka mynd var þó seld eða gefin og eru þau nú til í einkasöfnum. En bróðurpartinum af verkunum, ríflega 250 talsins, vildi hann halda saman og verðlagði þau því viljandi allt of hátt. Hann stóð lengi vel í stappi við dönsk skattayfirvöld sem skildu ekki á hverju hann lifði. Fyrstu föstu tekjurnar sem hann hafði voru ellilífeyririnn. En þessi afstaða hans að standa utan við kerfið var lykilþáttur í að skilgreina persónu hans. Hann sagði:
„Ég hef alla ævina leitazt við að verða að engu og vera ekkert, og það er miklu erfiðara heldur en að vera eitthvað“.
Hann var mikið upp á aðra kominn, t.d. systur sína sem bjó í Svíþjóð. Hann var mjög félagslyndur og naut mikillar kvenhylli en þau mál eru að miklu leyti á huldu. Sjálfur sagðist hann hafa kvænst nokkrum sinnum og átti a.m.k. eina dóttur í Danmörku.
Hann reykti og drakk fín vín en stundum liðu heilu dagarnir án þess að hann borðaði nokkuð. Um tíma var hann heimilislaus og hélt til í grafhýsi. En hann stundaði mikið jóga og hélt líkamlegri og andlegri heilsu að mestu leyti út lífið. Dunganon lést 24. febrúar árið 1972 í Kaupmannahöfn, 74 ára að aldri. Hann arfleiddi Listasafn Íslands að málverkunum 250 og Þjóðskjalasafnið að öllum pappírum og skjölum sem hann átti.
Hann leit fyrst og fremst á sig sem Íslending og var enn íslenskur ríkisborgari þó að hann hafi dvalið nánast alla sína ævi erlendis. Verk hans hafa verið sýnd nokkrum sinnum hér á landi og einnig í Danmörku. Árið 1992 var sett upp leikrit um listamanninn í Borgarleikhúsinu sem bar heitið Dunganon. Leikritið skrifaði vinur hans Björn Th. Björnsson og gerist það í Berlín á árunum 1942-1947. Nafn hans heyrist enn í dag því að elektróníska rokkhljómsveitin Dunganon nefnd eftir listamanninum.