Baráttan um tryggingafélögin og milljarðana þeirra

VÍS leikur á reiðiskjálfi vegna þess að ásakanir eru uppi um að hópur einkafjárfesta vilji stýra fjárfestingaákvörðunum félagsins í krafti um fimmtungs eignarhlutar. VÍS er þegar búið að kaupa stóran hlut í banka sem hluti hópsins á sjálfur í. TM keypti nýverið stóran hlut í gamla FL Group með nokkrum af stærstu hluthöfum, og stjórnarmönnum, sínum.

Fyrir rúmu ári síð­an, í mars 2016, nötr­aði íslenskt sam­fé­lag vegna fyr­ir­hug­aðra arð­greiðslna þriggja stærstu trygg­inga­fé­laga lands­ins, VÍS, Trygg­ing­­ar­mið­­stöðv­ar­innar (TM) og Sjó­vá. Stjórnir félag­anna höfðu ákveðið að greiða eig­endum sínum sam­an­lagt 9,6 millj­­arða króna í arð og kaupa af þeim hluta­bréf upp á 3,5 millj­­arða króna. Þetta mæld­ist veru­lega illa fyr­ir, sér­­stak­­lega þar sem hagn­aður tveggja þeirra, VÍS og Sjó­vár, er mun lægri en fyr­ir­huguð arð­greiðsla. VÍS hagn­að­ist ­nefn­i­­lega um 2,1 millj­­arð króna á árinu 2015 en ætl­aði samt að greiða hlut­höfum sínum út fimm millj­­arða króna í arð. Sjóvá hagn­að­ist um 657 millj­­ónir króna en ætl­aði að greiða út 3,1 millj­­arð króna í arð. TM hagn­að­ist hins vegar um 2,5 millj­­arða króna og ætl­aði að greiða hlut­höfum sínum út 1,5 millj­­arð króna.

Ástæða hinna miklu ætl­uðu arð­greiðslna var að finna í breytt­u­m ­reikniskila­regl­um, sem lækk­uðu vátrygg­ing­ar­skuld félag­anna, sem oft er kölluð ­bóta­­sjóður í almennu tali, en jók eigið fé þeirra. Það fé sem „verður til“ vegna þess er því ekki raun­veru­­legur hagn­aður heldur til­­komið vegna talnakúnstna sem færa fé úr ­vá­trygg­inga­skuld­inni í eigið fé trygg­inga­­fé­lag­anna, og þar af leið­andi til hlut­haf­anna. Í til­­­felli VÍS var vátrygg­inga­skuld­in/­­bóta­­sjóð­­ur­inn til að mynda lækk­aður um fimm millj­­arða króna en eigið féð aukið um 3,7 millj­­arða króna vegna þess­­ara breyttu reikniskila­að­­ferða.

Á end­anum virk­aði þrýst­ing­ur­inn. VÍS og Sjóvá drógu bæði úr ætl­uðum arð­greiðsl­um. En fjár­fest­ar, sem komið höfðu inn í hlut­hafa­hóp VÍS skömmu áður í skuld­settum hluta­bréfa­kaup­um, voru ekki ánægð­ir. 

Kerf­is­lega mik­il­væg fyr­ir­tæki

Ástæða þess að fylgst er afar vel með íslenskum trygg­inga­fé­lögum eru fjór­þætt. Í fyrsta lagi eru flestir lands­menn bundnir sam­kvæmt lögum til að vera með ein­hvers konar trygg­ingar hjá þeim, t.d. bif­reiða­trygg­ing­ar. Það er því ekki hægt að kom­ast hjá því að vera í við­skiptum við trygg­inga­fé­lög með góðu móti og því skiptir máli hvernig ágóð­anum af starf­sem­inni er skipt milli fjár­magns­eig­end­anna sem fjár­festa í þeim og við­skipta­vin­anna, í formi lægri iðgjalda.

Í öðru lagi eru líf­eyr­is­sjóðir lands­ins saman stórir eig­endur í öllum þremur skráðu trygg­inga­fé­lög­un­um. Í þeim eru pen­ingar lands­manna sem not­ast eiga til að greiða fyrir fram­færslu á efri árum og því skiptir máli að þeir séu fjár­festir af ábyrgð.

Í þriðja lagi eru trygg­inga­fé­lög troð­full af pen­ing­um. Eignir þeirra hlaupa á tugum millj­arða króna og þau hafa mikið svig­rúm til að stunda umfangs­mikla fjár­fest­inga­starf­semi með það fé sem við­skipta­vinir þeirra greiða inn til þeirra. Slíku svig­rúmi fylgja mikil völd og það er eft­ir­sókn­ar­vert í huga margra einka­fjár­festa að kom­ast í þessa sjóði.

Í fjórða lagi er lands­mönn­um, og stjórn­völd­um, í fersku minni að það er ekki lið­inn ára­tugur síðan að íslenska ríkið þurfti að grípa trygg­inga­fé­lag sem glæfra­legir fjár­festir höfðu blóð­mjólkað svo það myndi ekki fara í þrot með til­heyr­andi flækju­stigi fyrir alla sem voru með trygg­ingar hjá því. Þá var um að ræða Sjó­vá. Og eig­endur þess höfðu greitt sér út 19,4 millj­­arða króna í arð ­síð­­­ustu þrjú árin áður en það féll.

Hópur kaupir í VÍS

Átök innan VÍS hafa vart farið fram hjá mörg­um. Upp­haf þeirra má rekja til þess að á árinu 2015 fór hópur einka­fjár­festa að gera sig mjög gild­andi innan félags­ins og sækj­ast eftir áhrif­um. Í for­grunni hóps­ins eru hjónin Svan­hildur Nanna Vig­fús­dóttir og Guð­mundur Örn Þórð­ar­son. Þau eru vel þekkt í íslensku við­skipta­lífi fyrir djörf­ung og áhættu­sækni. Hjónin högn­uð­ust til að mynda gíf­ur­lega á hinni svoköll­uðu Skelj­ungs­fléttu, sem margir við­mæl­endur Kjarn­ans hafa kallað eina þá svæsn­ustu sem ráð­ist hefur verið í eftir banka­hrun­ið. Um hana má lesa hér. Hluta þess hagn­aðar sem þau fóru með út úr þeim við­skiptum not­uðu þau til að kaupa hluti í VÍS, en upp­kaup þeirra hófust í októ­ber 2014.

Aðrir sem tengj­ast þessum hópi eru félag Sig­urðar Bolla­sonar og Don McCharthy, Grandier ehf., félagið Óska­bein, sem er m.a. í eigu Andra Gunn­ars­sonar og Fann­ars Ólafs­son­ar, og svo sjóð­stýr­inga­fyr­ir­tækið Stefn­ir, sem er í eigu Arion banka. Saman á þessi hópur rúm­lega 20 pró­sent hlut í VÍS. Grandier á stærsta ein­staka hlut­inn, 8,01 pró­sent.  

Sigrún Ragna Ólafsdóttir va rekin sem forstjóri VÍS í fyrrasumar. Eftirmaður hennar entist einungis nokkra mánuði í starfi.

Þau Svan­hildur Nanna og Guð­mundur Örn lýstu því strax yfir þegar þau hófu að kaupa hluti í VÍS að þau myndu sækj­ast eftir stjórn­ar­setu. Boðað var til hlut­hafa­fundar þar sem þeim var að ósk sinni.

Grandier og Óska­bein keyptu svo sína hluti á árinu 2015. Og opin­berar yfir­lýs­ingar um kröfu um breyt­ingar á VÍS urðu algeng­ar. Einka­fjár­fest­arnir vildu að trygg­inga­hluti starf­sem­innar yrði arð­sam­ari, annað hvort með hag­ræð­ingu í rekstri eða með því að hækka ein­fald­lega iðgjöld. Í lok nóv­em­ber 2015 var við­skipta­vinum VÍS sent bréf þar sem til­kynnt var um hækkun iðgjalda vegna slakrar afkomu félags­ins.

Reynt að greiða arð umfram hagnað út úr VÍS

Í aðdrag­anda aðal­fundar VÍS snemma árs 2016 lagði stjórn félags­ins til að greiddir yrðu fimm millj­arðar króna út í arð, þrátt fyrir að hagn­aður hefði ein­ungis verið 2,1 millj­arður króna. Auk þess voru lagðar fram til­lögur um end­ur­kaup VÍS á bréfum hlut­hafa. Þetta átti að gera  á grunni nýrra reikniskila­reglna sem lækk­­uðu vá­­trygg­inga­skuld félags­­ins, sem oft er nefnd bóta­­sjóð­­ur, um fimm millj­­arða króna en jók eigið fé um 3,7 millarða króna. Allt varð vit­laust vegna þessa og mikil þrýst­ingur var á stjórn VÍS að draga til­lög­una til baka.

Þegar leið að aðal­fund­in­um, sem haldin var 17. mars, fóru að birt­ast fréttir af því í fjöl­miðlum að nokkrir af stærstu hlut­höfum VÍS myndu ekki styðja arð­greiðsl­una. Var gengið út frá því að þar væri um að ræða stærstu líf­eyr­is­sjóði lands­ins, en saman áttu líf­eyr­is­sjóð­irnir um 36 pró­sent hlut í VÍS á þessum tíma.

Þessi þrýst­ingur hlut­hafa, stjórn­mála­manna, hags­muna­sam­taka og almenn­ings virk­aði. Stjórn VÍS ákvað að lækka arð­greiðsl­una úr fimm millj­örðum króna í tæp­lega 2,1 millj­arð króna. Þetta var gert þrátt fyrir að stjórnin teldi að arð­greiðslu­til­kynn­ingar hennar hafi verið vel innan þess ramman sem mark­mið um fjár­­­­­magns­­­skipan félags­­­ins gerir ráð fyr­­­ir.

Í til­­­kynn­ing­u sem send var út í kjöl­farið sagði að við­­­skipta­vinir og starfs­­­menn VÍS skipti félagið miklu. „Stjórnin getur ekki horft fram hjá þeirri stað­­­reynd að fylgi hún núver­andi arð­greiðslu­­­stefnu, þá geti það skaðað orð­­­spor fyr­ir­tæk­is­ins. Í því ljósi hefur stjórn ákveðið að leggja til að greiðsla sé miðuð við hagnað síð­­­asta árs. Stjórn VÍS telur mik­il­vægt að fram fari umræða innan félags­­­ins, meðal hlut­hafa og út í sam­­­fé­lag­inu um lang­­­tíma­­­stefnu varð­andi ráð­­­stöfun fjár­­­muna sem ekki nýt­­­ast rekstri skráðra félaga á mark­að­i.“

Í lok ágúst dró svo aftur til tíð­inda hjá VÍS. Þá var Sig­rún Ragna Ólafs­dótt­ir, for­stjóri félags­ins og eina konan sem stýrði skráðu félagi á Íslandi, rekin. Engin sér­stök ástæða var gefin fyrir brott­rekstri henn­ar. Í for­stjóra­stól­inn sett­ist Jakob Sig­urðs­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Promens.

Í aðdrag­anda aðal­fundar VÍS í mars 2017 varð svo enn ein vend­ing­in. Svan­hildur Nanna Vig­fús­dótt­ir, sótt­ist eftir því að velta Her­dísi Dröfn Fjel­sted úr sæti stjórn­ar­for­manns. Her­dís Dröfn sat þar meðal ann­ars með stuðn­ingi stærstu líf­eyr­is­sjóð­anna í eig­enda­hópnum en hún hefur starfað fyrir þá á und­an­förnum árum sem fram­kvæmda­stjóri Fram­taks­sjóðs Íslands.

Fram­boðið var að und­ir­lagi stærstu einka­fjár­fest­ana í eig­enda­hópi VÍS sem vildu ná fram breyt­ingum í stjórn og stefnu félags­ins. Og það tókst þeim.

Stjórn­ar­maður segir af sér

Þessi breyt­ing varð til þess að Her­dís Dröfn sagði af sér stjórn­ar­mennsku í VÍS. Við það varð ljóst að alls 15 manns höfðu setið í stjórn VÍS frá byrjun árs 2015 og Svan­hildur Nanna varð fjórði stjórn­ar­for­mað­ur­inn á því tíma­bili. Svo tíð skipti á stjórn­ar­mönnum hafa ekki átt sér stað í neinu öðru skráðu félagi hér­lendis eftir hrun.

Jakob Sig­urðs­son, sem hafði verið for­stjóri VÍS frá því í ágúst 2016, hætti svo skyndi­lega í apr­íl. Opin­bera ástæðan sem gefin var er sú að hann hafi fengið starfstil­boð frá bresku félagi sem hafi ekki verið hægt að hafna. Eng­inn við­mæl­enda Kjarn­ans sem starfa á og í kringum íslenskan hluta­bréfa­markað leggur þó trúnað á að það hafi verið eina ástæðan fyrir brott­hvarfi Jak­obs. Breyttar áherslur í stefnu VÍS, sem fylgdu nýjum stjórn­ar­for­manni og hópnum sem hún veitti for­stöðu, hljóti að hafa spilað þar inn í. Helgi Bjarna­son mun taka við starfi Jak­obs 1. júlí næst­kom­andi.

VÍS keypti stóran hlut í Kviku banka snemma á þessu ári og er nú langstærsti eigandi bankans. Aðrir stórir eigendur eru meðal annars félög í eigu stórra eigenda í VÍS. Ármann Þorvaldsson var ráðinn forstjóri Kviku fyrir skemmstu.
Anton Brink

Í lið­inni viku greindi Morg­un­blaðið svo frá því að þrír stærstu líf­eyr­is­sjóðir lands­ins, Líf­eyr­is­sjóður versl­un­ar­manna, Gildi og Líf­eyr­is­sjóður starfs­manna rík­is­ins (LSR), hafi ákveðið að selja bréf í VÍS og minnka þar með sterka stöðu sína í félag­inu. Ástæðan var sú að þeir væru óánægðir með stjórn­ar­hætti í VÍS. Bæði LSR og Gildi eru byrj­aðir að selja sig niður en stjórn Líf­eyr­is­sjóðs versl­un­ar­manna hefur ein­ungis tekið ákvörðun um að gera það. Salan er ekki haf­in. Sjóð­ur­inn hefur verið harð­lega gagn­rýndur fyrir að láta slíkt spyrj­ast út áður en að bréfin voru seld, enda hafði ákvörðun sjóð­anna þriggja um að selja sig niður víð­tæk áhrif á virði bréfa í VÍS, og þar af leið­andi eign þeirra sjálfra, þar sem bréf í VÍS lækk­uðu í síð­ustu viku.

Jón Gunn­ars­son, ráð­herra sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­mála, gagn­rýndi sjóð­ina líka harð­lega í Face­book-­færslu. Hann sagði: „Má skilja þetta svo að fjár­­­fest­ingar þess­­ara líf­eyr­is­­sjóða snú­ist um að ná völdum en ekki að ávaxta, með sem bestum hætti, fé okkar lands­­manna sem þeim er treyst fyr­­ir.“

Líf­eyr­is­sjóðir þurfa að setja for­dæmi

Það er þó dýpra á afstöðu líf­eyr­is­sjóð­anna þriggja en svo að þar haldi bara valda­sjúkt fólk um stjórn­ar­taumanna. Raunar er það svo að líf­eyr­is­sjóð­irnir hafa haft það að meg­in­stefnu að vera að mestu óvirkir eig­endur í þeim skráðu félögum sem þeir hafa keypt hluti í eftir hrun­ið, þótt þeir hafi stutt ýmsa stjórn­ar­menn til setu fram yfir aðra. Ástæðan er sú að sjóð­irnir eiga sam­an­lagt, beint og óbeint, rúm­lega helm­ing allra skráðra hluta­bréfa. Þeir hafa leikið lyk­il­hlut­verk í end­ur­reisn íslensks hluta­bréfa­mark­aðar með því að kaupa upp gríð­ar­legt magn bréfa eftir skrán­ingar og eru þar af leið­andi á meðal stærstu eig­enda í nær öllum skráðum félögum hér­lend­is. Líf­eyr­is­sjóður versl­un­ar­manna er til að mynda annað hvort stærsti eða næst stærsti eig­andi í 14 af þeim 17 félögum sem skráð eru í Kaup­höll Íslands.

Þess­ari miklu eign gætu fylgt mikil völd og aug­ljós freistni­vandi hefur skap­ast fyrir stjórn­endur líf­eyr­is­sjóð­anna að nýta sér þessa stöðu með ein­hverjum hætti. Sú skoðun er þó nokkuð almenn að þeir hafi stað­ist þessa freistni og farið ágæt­lega með þessi miklu völd hingað til. Á síð­ustu árum koma eig­in­lega bara tvö dæmi upp í hug­ann þar sem þeir hafa beitt sér mjög hart innan félaga. Bæði þau dæmi tengj­ast VÍS. Það fyrra var þegar sjóð­irnir settu sig upp á móti arð­greiðsl­unum í fyrra og það síð­ara þegar þeir ákváðu að selja sig niður í félag­inu á síð­ustu dög­um.

Það ber að hafa í huga að sú ákvörðun líf­eyr­is­sjóð­anna, að selja sig niður með þessum hætti þegar þeir eru óánægðir með stefnu sem félag er að taka, snýst ekki bara um VÍS. Hún snýst um for­dæmi. Það hefur lengi legið fyrir að vegna fyr­ir­ferðar íslensku líf­eyr­is­sjóð­anna á inn­lendum fjár­fest­ing­ar­mark­aði, og þeirrar afstöðu að vera „hands off“ í stjórnun þeirra félaga sem þeir kaupa stóra hluti í, þá skap­ist sú hætta að einka­fjár­festar með til­tölu­lega lít­inn eign­ar­hlut geti náð yfir­ráðum í félögum treystandi á það að líf­eyr­is­sjóð­irnir bregð­ist ekki við því. Og í kjöl­farið breytt um kúrs í starf­semi þeirra, t.d. í átt að mun áhættu­sam­ari við­skipt­um.

Þetta hefur ekki gerst hingað til eftir hrun. En er eitt­hvað sem for­svars­menn stærstu líf­eyr­is­sjóð­anna hafa reiknað með að gæti gerst hvenær sem er, sér­stak­lega í fjár­mála­fyr­ir­tækjum með mikið eigið fé og víð­tæka fjár­fest­inga­starf­semi. Eins og t.d. trygg­inga­fé­lög­um.

Þess vegna þurfa líf­eyr­is­sjóð­irnir að sýna með ein­hverjum hætti að þeir muni ekki sætta sig við að litlir eig­endur taki eigið fé félaga sem sjóð­irnir eiga stóran hlut í og fari með það í fjár­fest­inga­spila­vít­ið. Sér­stak­lega ef þeir eru að veðja á aðrar fjár­fest­ingar sem þeir eiga sjálfir í.

Keyptu í Kviku nokkrum vikum áður en VÍS gerði það

Tveir af stærstu hlut­höfum VÍS, Svan­hildur Nanna og Guð­mundur Örn ann­ars vegar og félag Sig­urðar Bolla­sonar hins veg­ar, keyptu 15 pró­sent hlut í fjár­fest­inga­bank­anum Kviku í lok árs 2016. Félög þeirra, K2B fjár­fest­ingar (sem á átta pró­sent í Kviku) og Grandier ehf. (sem á sjö pró­sent), eru nú á meðal stærstu eig­enda bank­ans.

Þann 5. jan­úar 2017, rúmum mán­uði eftir að þau kaup gengu í gegn, var til­kynnt um að VÍS hefði keypt 21,8 pró­sent hlut í Kviku og sé nú stærsti eig­andi bank­ans. Alls nemur heild­ar­eign­ar­hlutur félags­ins nú tæp­lega 25 pró­sent­um.

Þetta vakti mikla úlfúð á mark­aði af ýmsum ástæð­um. Mögu­legir hags­muna­á­rekstrar blasa enda við. VÍS var nú komið í áhættu­sækna fjár­fest­ingu með kaupum í banka sem nokkrir af stærstu hlut­höfum trygg­inga­fé­lags­ins voru nýbúnir að kaupa sér hlut í. Til við­bótar þá situr Guð­mundur Örn í stjórn Kviku. VÍS var að fjár­festa með hópi einka­fjár­festa sem voru orðnir fyr­ir­ferða­miklir innan félags­ins.

Herdís Dröfn Fjelsted sagði af sér stjórnarmennsku í VÍS vegna þess að hún var ekki sammála þeim áherslum sem nýr stjórnarformaður vildi innleiða.

Her­dís Dröfn Fjel­sted hefur útskýrt í nokkrum skrefum af hverju hún sagði sig úr stjórn VÍS eftir að hafa beðið í lægri hlut í kjöri um nýjan stjórn­ar­for­mann. Það gerði hún fyrst í við­tali í apríl þar sem Her­dís Dröfn sagði að hún og Svan­hildur Nanna, nýr stjórn­ar­for­mað­ur, hefðu ólíka sýn á stjórn­ar­hætti skráðra og eft­ir­lits­skyldra félaga. Vegna gagn­rýni Her­dísar Drafnar sendi ný stjórn VÍS frá sér yfir­lýs­ingu á föstu­dag, 12. maí. Í henni sagði að gagn­rýni fyrr­ver­andi stjórn­ar­for­manns byggði á ágisk­un­um. Rík áhersla sé lögð á að öllum lög­­um, sam­­þykkt­um, starfs­­reglum og leið­bein­ingum um góða stjórn­­­ar­hætti sé fylgt til hins ítrasta við rekst­­ur­inn.

Það vakti líka athygli að stjórnin sá sig knúna til að taka það fram, í sér­stakri yfir­lýs­ingu, að í ljósi nýlegra breyt­inga á yfir­­­stjórn VÍS og kaupa á hlut í fjár­­­fest­inga­­bank­­anum Kviku fyrr á árinu vilji hún líka árétta að fjár­­­fest­ing félags­­ins í Kviku sé skil­­greind sem eign í fjár­­­fest­ing­­ar­­bók og svo verði áfram. „Nú­ver­andi stjórn áformar heldur ekki að skipta sér af ein­­stökum fjár­­­fest­ingum í fjár­­­fest­ing­­ar­­bók félags­­ins. Slíkt hefur aldrei komið til tals.“ Yfir­lýs­ingin var, sam­an­dreg­ið, hörð gagn­rýni á fyrr­ver­andi stjórn­ar­for­mann félags­ins.

Þetta er allt mjög óvenju­legt, og raunar ein­stakt, fyrir íslenskan hluta­bréfa­markað eftir hrun.

Vildu að stjórn tæki ákvarð­anir um fjár­fest­ingar

Á laug­ar­dag opn­aði Her­dís Dröfn sig svo að öllu leyti um hvað hefði búið að baki ákvörðun henn­ar. Það gerði hún í við­tali við Morg­un­blaðið. Þar sagði Her­dís Dröfn að ein meg­in­á­stæða þess að hún hefði sagt sig úr stjórn VÍS hefði verið það sjón­ar­mið Svan­hildar Nönnu, núver­andi stjórn­ar­for­manns félags­ins, að stjórn ætti í rík­ari mæli að koma að fjár­fest­ing­ar­á­kvörð­unum á vett­vangi þess. Orð­rétt er haft eftir henni í Morg­un­blað­inu að „á fundi sem ég átti með núver­andi stjórn­ar­for­manni VÍS í aðdrag­anda aðal­fundar félags­ins sem hald­inn var 15. mars síð­ast­lið­inn viðr­aði hún hug­myndir um aukna aðkomu stjórnar félags­ins að fjár­fest­ing­ar­starf­semi þess. Þær hug­myndir fólu sömu­leiðis í sér að for­stjóri félags­ins myndi ein­vörð­ungu koma að vátrygg­ing­ar­starf­semi þess.“ Svan­hildur Nanna neit­aði þessum full­yrð­ingum og sagði þær úr lausu lofti gripn­ar.

Kjarn­inn hefur upp­lýs­ingar um að það hafi verið umtals­verður ágrein­ingur um það innan stjórnar VÍS um hvort Svan­hildur Nanna væri hæf til að ann­ars vegar taka ákvarð­anir um og hins vegar að taka þátt í umræðum um eign­ar­hlut félags­ins í Kviku, í ljósi þess að hún á stóran hlut í báðum félög­um. Svan­hildur Nanna lét tvær lög­fræði­stofur vinna álit um hæfi sitt og aðrir stjórn­ar­menn í VÍS létu þriðju stof­una gera slíkt hið sama. Svan­hildur Nanna sagði við Morg­un­blaðið að eign­ar­hald hennar á Kviku hefði ekki áhrif á hæfi hennar til að sitja í stjórn VÍS, sam­kvæmt álit­un­um. Hún við­ur­kenndi hins vegar að ágrein­ingur hefði verið uppi um hæfi hennar til að fjalla um eign­ar­hlut VÍS í Kviku banka.

TM kaupir í gamla FL Group með nokkrum úr hlut­hafa­hópi sínum

Þótt kast­ljósið hafi verið á hrær­ing­unum innan VÍS að und­an­förnu er það ekki eina skráða trygg­inga­fé­lagið sem fjár­festar hafa áhyggjur af. Nýleg kaup TM í Stoð­um, sem einu sinni hét FL Group, hafa líka valdið titr­ingi. Kaupin fóru ansi leynt en Kjarn­inn greindi frá því í síð­ustu viku að TM hefði, ásamt hópi einka­fjár­festa, eign­ast rúm­lega helm­ings­hlut í Stoð­um. Eina eignin sem er eftir í Stoðum í dag er 8,87 pró­sent hlutur í hol­lenska drykkja­vöru­fram­leið­and­anum Refresco. Sá hlutur er met­inn á um 15 millj­arða króna, en sá verð­miði gæti hækkað verði nýtt yfir­tökutil­boð gert í Refresco, líkt og búist er við.

Ekki er vitað hvað var greitt fyrir hlut­inn í Stoðum né hefur tíma­lína kaupana verið opin­beruð að fullu. Eina sem vitað er er að hóp­ur­inn hefur verið að kaupa þessa hluti á síð­ustu mán­uð­um. Með­fjár­festar TM í við­skipt­unum eru að mestu leyti menn sem gegndu lyk­il­hlut­verkum í FL Group fyrir hrun. Þeir eru því að ná yfir­ráðum yfir gamla félag­inu sínu aft­ur.

Meðal ann­ars er um er að ræða félög í eigu Örv­ars Kærne­sted, Ein­ars Arnar Ólafs­son­ar, og fjöl­skyldu Bjargar Fen­ger, eig­in­konu Jóns Sig­urðs­son­ar, fyrr­ver­andi for­stjóra FL Group. Öll umrædd félög eru líka á meðal stærstu hlut­hafa í TM. Því er trygg­inga­fé­lagið að fjár­festa í óskráðri eign með nokkrum af helstu hlut­höfum sín­um.

Bæði Örvar og Einar Örn sitja í stjórn TM.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar