Fyrir rúmu ári síðan, í mars 2016, nötraði íslenskt samfélag vegna fyrirhugaðra arðgreiðslna þriggja stærstu tryggingafélaga landsins, VÍS, Tryggingarmiðstöðvarinnar (TM) og Sjóvá. Stjórnir félaganna höfðu ákveðið að greiða eigendum sínum samanlagt 9,6 milljarða króna í arð og kaupa af þeim hlutabréf upp á 3,5 milljarða króna. Þetta mældist verulega illa fyrir, sérstaklega þar sem hagnaður tveggja þeirra, VÍS og Sjóvár, er mun lægri en fyrirhuguð arðgreiðsla. VÍS hagnaðist nefnilega um 2,1 milljarð króna á árinu 2015 en ætlaði samt að greiða hluthöfum sínum út fimm milljarða króna í arð. Sjóvá hagnaðist um 657 milljónir króna en ætlaði að greiða út 3,1 milljarð króna í arð. TM hagnaðist hins vegar um 2,5 milljarða króna og ætlaði að greiða hluthöfum sínum út 1,5 milljarð króna.
Ástæða hinna miklu ætluðu arðgreiðslna var að finna í breyttum reikniskilareglum, sem lækkuðu vátryggingarskuld félaganna, sem oft er kölluð bótasjóður í almennu tali, en jók eigið fé þeirra. Það fé sem „verður til“ vegna þess er því ekki raunverulegur hagnaður heldur tilkomið vegna talnakúnstna sem færa fé úr vátryggingaskuldinni í eigið fé tryggingafélaganna, og þar af leiðandi til hluthafanna. Í tilfelli VÍS var vátryggingaskuldin/bótasjóðurinn til að mynda lækkaður um fimm milljarða króna en eigið féð aukið um 3,7 milljarða króna vegna þessara breyttu reikniskilaaðferða.
Á endanum virkaði þrýstingurinn. VÍS og Sjóvá drógu bæði úr ætluðum arðgreiðslum. En fjárfestar, sem komið höfðu inn í hluthafahóp VÍS skömmu áður í skuldsettum hlutabréfakaupum, voru ekki ánægðir.
Kerfislega mikilvæg fyrirtæki
Ástæða þess að fylgst er afar vel með íslenskum tryggingafélögum eru fjórþætt. Í fyrsta lagi eru flestir landsmenn bundnir samkvæmt lögum til að vera með einhvers konar tryggingar hjá þeim, t.d. bifreiðatryggingar. Það er því ekki hægt að komast hjá því að vera í viðskiptum við tryggingafélög með góðu móti og því skiptir máli hvernig ágóðanum af starfseminni er skipt milli fjármagnseigendanna sem fjárfesta í þeim og viðskiptavinanna, í formi lægri iðgjalda.
Í öðru lagi eru lífeyrissjóðir landsins saman stórir eigendur í öllum þremur skráðu tryggingafélögunum. Í þeim eru peningar landsmanna sem notast eiga til að greiða fyrir framfærslu á efri árum og því skiptir máli að þeir séu fjárfestir af ábyrgð.
Í þriðja lagi eru tryggingafélög troðfull af peningum. Eignir þeirra hlaupa á tugum milljarða króna og þau hafa mikið svigrúm til að stunda umfangsmikla fjárfestingastarfsemi með það fé sem viðskiptavinir þeirra greiða inn til þeirra. Slíku svigrúmi fylgja mikil völd og það er eftirsóknarvert í huga margra einkafjárfesta að komast í þessa sjóði.
Í fjórða lagi er landsmönnum, og stjórnvöldum, í fersku minni að það er ekki liðinn áratugur síðan að íslenska ríkið þurfti að grípa tryggingafélag sem glæfralegir fjárfestir höfðu blóðmjólkað svo það myndi ekki fara í þrot með tilheyrandi flækjustigi fyrir alla sem voru með tryggingar hjá því. Þá var um að ræða Sjóvá. Og eigendur þess höfðu greitt sér út 19,4 milljarða króna í arð síðustu þrjú árin áður en það féll.
Hópur kaupir í VÍS
Átök innan VÍS hafa vart farið fram hjá mörgum. Upphaf þeirra má rekja til þess að á árinu 2015 fór hópur einkafjárfesta að gera sig mjög gildandi innan félagsins og sækjast eftir áhrifum. Í forgrunni hópsins eru hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson. Þau eru vel þekkt í íslensku viðskiptalífi fyrir djörfung og áhættusækni. Hjónin högnuðust til að mynda gífurlega á hinni svokölluðu Skeljungsfléttu, sem margir viðmælendur Kjarnans hafa kallað eina þá svæsnustu sem ráðist hefur verið í eftir bankahrunið. Um hana má lesa hér. Hluta þess hagnaðar sem þau fóru með út úr þeim viðskiptum notuðu þau til að kaupa hluti í VÍS, en uppkaup þeirra hófust í október 2014.
Aðrir sem tengjast þessum hópi eru félag Sigurðar Bollasonar og Don McCharthy, Grandier ehf., félagið Óskabein, sem er m.a. í eigu Andra Gunnarssonar og Fannars Ólafssonar, og svo sjóðstýringafyrirtækið Stefnir, sem er í eigu Arion banka. Saman á þessi hópur rúmlega 20 prósent hlut í VÍS. Grandier á stærsta einstaka hlutinn, 8,01 prósent.
Þau Svanhildur Nanna og Guðmundur Örn lýstu því strax yfir þegar þau hófu að kaupa hluti í VÍS að þau myndu sækjast eftir stjórnarsetu. Boðað var til hluthafafundar þar sem þeim var að ósk sinni.
Grandier og Óskabein keyptu svo sína hluti á árinu 2015. Og opinberar yfirlýsingar um kröfu um breytingar á VÍS urðu algengar. Einkafjárfestarnir vildu að tryggingahluti starfseminnar yrði arðsamari, annað hvort með hagræðingu í rekstri eða með því að hækka einfaldlega iðgjöld. Í lok nóvember 2015 var viðskiptavinum VÍS sent bréf þar sem tilkynnt var um hækkun iðgjalda vegna slakrar afkomu félagsins.
Reynt að greiða arð umfram hagnað út úr VÍS
Í aðdraganda aðalfundar VÍS snemma árs 2016 lagði stjórn félagsins til að greiddir yrðu fimm milljarðar króna út í arð, þrátt fyrir að hagnaður hefði einungis verið 2,1 milljarður króna. Auk þess voru lagðar fram tillögur um endurkaup VÍS á bréfum hluthafa. Þetta átti að gera á grunni nýrra reikniskilareglna sem lækkuðu vátryggingaskuld félagsins, sem oft er nefnd bótasjóður, um fimm milljarða króna en jók eigið fé um 3,7 millarða króna. Allt varð vitlaust vegna þessa og mikil þrýstingur var á stjórn VÍS að draga tillöguna til baka.
Þegar leið að aðalfundinum, sem haldin var 17. mars, fóru að birtast fréttir af því í fjölmiðlum að nokkrir af stærstu hluthöfum VÍS myndu ekki styðja arðgreiðsluna. Var gengið út frá því að þar væri um að ræða stærstu lífeyrissjóði landsins, en saman áttu lífeyrissjóðirnir um 36 prósent hlut í VÍS á þessum tíma.
Þessi þrýstingur hluthafa, stjórnmálamanna, hagsmunasamtaka og almennings virkaði. Stjórn VÍS ákvað að lækka arðgreiðsluna úr fimm milljörðum króna í tæplega 2,1 milljarð króna. Þetta var gert þrátt fyrir að stjórnin teldi að arðgreiðslutilkynningar hennar hafi verið vel innan þess ramman sem markmið um fjármagnsskipan félagsins gerir ráð fyrir.
Í tilkynningu sem send var út í kjölfarið sagði að viðskiptavinir og starfsmenn VÍS skipti félagið miklu. „Stjórnin getur ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að fylgi hún núverandi arðgreiðslustefnu, þá geti það skaðað orðspor fyrirtækisins. Í því ljósi hefur stjórn ákveðið að leggja til að greiðsla sé miðuð við hagnað síðasta árs. Stjórn VÍS telur mikilvægt að fram fari umræða innan félagsins, meðal hluthafa og út í samfélaginu um langtímastefnu varðandi ráðstöfun fjármuna sem ekki nýtast rekstri skráðra félaga á markaði.“
Í lok ágúst dró svo aftur til tíðinda hjá VÍS. Þá var Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri félagsins og eina konan sem stýrði skráðu félagi á Íslandi, rekin. Engin sérstök ástæða var gefin fyrir brottrekstri hennar. Í forstjórastólinn settist Jakob Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Promens.
Í aðdraganda aðalfundar VÍS í mars 2017 varð svo enn ein vendingin. Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, sóttist eftir því að velta Herdísi Dröfn Fjelsted úr sæti stjórnarformanns. Herdís Dröfn sat þar meðal annars með stuðningi stærstu lífeyrissjóðanna í eigendahópnum en hún hefur starfað fyrir þá á undanförnum árum sem framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands.
Framboðið var að undirlagi stærstu einkafjárfestana í eigendahópi VÍS sem vildu ná fram breytingum í stjórn og stefnu félagsins. Og það tókst þeim.
Stjórnarmaður segir af sér
Þessi breyting varð til þess að Herdís Dröfn sagði af sér stjórnarmennsku í VÍS. Við það varð ljóst að alls 15 manns höfðu setið í stjórn VÍS frá byrjun árs 2015 og Svanhildur Nanna varð fjórði stjórnarformaðurinn á því tímabili. Svo tíð skipti á stjórnarmönnum hafa ekki átt sér stað í neinu öðru skráðu félagi hérlendis eftir hrun.
Jakob Sigurðsson, sem hafði verið forstjóri VÍS frá því í ágúst 2016, hætti svo skyndilega í apríl. Opinbera ástæðan sem gefin var er sú að hann hafi fengið starfstilboð frá bresku félagi sem hafi ekki verið hægt að hafna. Enginn viðmælenda Kjarnans sem starfa á og í kringum íslenskan hlutabréfamarkað leggur þó trúnað á að það hafi verið eina ástæðan fyrir brotthvarfi Jakobs. Breyttar áherslur í stefnu VÍS, sem fylgdu nýjum stjórnarformanni og hópnum sem hún veitti forstöðu, hljóti að hafa spilað þar inn í. Helgi Bjarnason mun taka við starfi Jakobs 1. júlí næstkomandi.
Í liðinni viku greindi Morgunblaðið svo frá því að þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), hafi ákveðið að selja bréf í VÍS og minnka þar með sterka stöðu sína í félaginu. Ástæðan var sú að þeir væru óánægðir með stjórnarhætti í VÍS. Bæði LSR og Gildi eru byrjaðir að selja sig niður en stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna hefur einungis tekið ákvörðun um að gera það. Salan er ekki hafin. Sjóðurinn hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að láta slíkt spyrjast út áður en að bréfin voru seld, enda hafði ákvörðun sjóðanna þriggja um að selja sig niður víðtæk áhrif á virði bréfa í VÍS, og þar af leiðandi eign þeirra sjálfra, þar sem bréf í VÍS lækkuðu í síðustu viku.
Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, gagnrýndi sjóðina líka harðlega í Facebook-færslu. Hann sagði: „Má skilja þetta svo að fjárfestingar þessara lífeyrissjóða snúist um að ná völdum en ekki að ávaxta, með sem bestum hætti, fé okkar landsmanna sem þeim er treyst fyrir.“
Lífeyrissjóðir þurfa að setja fordæmi
Það er þó dýpra á afstöðu lífeyrissjóðanna þriggja en svo að þar haldi bara valdasjúkt fólk um stjórnartaumanna. Raunar er það svo að lífeyrissjóðirnir hafa haft það að meginstefnu að vera að mestu óvirkir eigendur í þeim skráðu félögum sem þeir hafa keypt hluti í eftir hrunið, þótt þeir hafi stutt ýmsa stjórnarmenn til setu fram yfir aðra. Ástæðan er sú að sjóðirnir eiga samanlagt, beint og óbeint, rúmlega helming allra skráðra hlutabréfa. Þeir hafa leikið lykilhlutverk í endurreisn íslensks hlutabréfamarkaðar með því að kaupa upp gríðarlegt magn bréfa eftir skráningar og eru þar af leiðandi á meðal stærstu eigenda í nær öllum skráðum félögum hérlendis. Lífeyrissjóður verslunarmanna er til að mynda annað hvort stærsti eða næst stærsti eigandi í 14 af þeim 17 félögum sem skráð eru í Kauphöll Íslands.
Þessari miklu eign gætu fylgt mikil völd og augljós freistnivandi hefur skapast fyrir stjórnendur lífeyrissjóðanna að nýta sér þessa stöðu með einhverjum hætti. Sú skoðun er þó nokkuð almenn að þeir hafi staðist þessa freistni og farið ágætlega með þessi miklu völd hingað til. Á síðustu árum koma eiginlega bara tvö dæmi upp í hugann þar sem þeir hafa beitt sér mjög hart innan félaga. Bæði þau dæmi tengjast VÍS. Það fyrra var þegar sjóðirnir settu sig upp á móti arðgreiðslunum í fyrra og það síðara þegar þeir ákváðu að selja sig niður í félaginu á síðustu dögum.
Það ber að hafa í huga að sú ákvörðun lífeyrissjóðanna, að selja sig niður með þessum hætti þegar þeir eru óánægðir með stefnu sem félag er að taka, snýst ekki bara um VÍS. Hún snýst um fordæmi. Það hefur lengi legið fyrir að vegna fyrirferðar íslensku lífeyrissjóðanna á innlendum fjárfestingarmarkaði, og þeirrar afstöðu að vera „hands off“ í stjórnun þeirra félaga sem þeir kaupa stóra hluti í, þá skapist sú hætta að einkafjárfestar með tiltölulega lítinn eignarhlut geti náð yfirráðum í félögum treystandi á það að lífeyrissjóðirnir bregðist ekki við því. Og í kjölfarið breytt um kúrs í starfsemi þeirra, t.d. í átt að mun áhættusamari viðskiptum.
Þetta hefur ekki gerst hingað til eftir hrun. En er eitthvað sem forsvarsmenn stærstu lífeyrissjóðanna hafa reiknað með að gæti gerst hvenær sem er, sérstaklega í fjármálafyrirtækjum með mikið eigið fé og víðtæka fjárfestingastarfsemi. Eins og t.d. tryggingafélögum.
Þess vegna þurfa lífeyrissjóðirnir að sýna með einhverjum hætti að þeir muni ekki sætta sig við að litlir eigendur taki eigið fé félaga sem sjóðirnir eiga stóran hlut í og fari með það í fjárfestingaspilavítið. Sérstaklega ef þeir eru að veðja á aðrar fjárfestingar sem þeir eiga sjálfir í.
Keyptu í Kviku nokkrum vikum áður en VÍS gerði það
Tveir af stærstu hluthöfum VÍS, Svanhildur Nanna og Guðmundur Örn annars vegar og félag Sigurðar Bollasonar hins vegar, keyptu 15 prósent hlut í fjárfestingabankanum Kviku í lok árs 2016. Félög þeirra, K2B fjárfestingar (sem á átta prósent í Kviku) og Grandier ehf. (sem á sjö prósent), eru nú á meðal stærstu eigenda bankans.
Þann 5. janúar 2017, rúmum mánuði eftir að þau kaup gengu í gegn, var tilkynnt um að VÍS hefði keypt 21,8 prósent hlut í Kviku og sé nú stærsti eigandi bankans. Alls nemur heildareignarhlutur félagsins nú tæplega 25 prósentum.
Þetta vakti mikla úlfúð á markaði af ýmsum ástæðum. Mögulegir hagsmunaárekstrar blasa enda við. VÍS var nú komið í áhættusækna fjárfestingu með kaupum í banka sem nokkrir af stærstu hluthöfum tryggingafélagsins voru nýbúnir að kaupa sér hlut í. Til viðbótar þá situr Guðmundur Örn í stjórn Kviku. VÍS var að fjárfesta með hópi einkafjárfesta sem voru orðnir fyrirferðamiklir innan félagsins.
Herdís Dröfn Fjelsted hefur útskýrt í nokkrum skrefum af hverju hún sagði sig úr stjórn VÍS eftir að hafa beðið í lægri hlut í kjöri um nýjan stjórnarformann. Það gerði hún fyrst í viðtali í apríl þar sem Herdís Dröfn sagði að hún og Svanhildur Nanna, nýr stjórnarformaður, hefðu ólíka sýn á stjórnarhætti skráðra og eftirlitsskyldra félaga. Vegna gagnrýni Herdísar Drafnar sendi ný stjórn VÍS frá sér yfirlýsingu á föstudag, 12. maí. Í henni sagði að gagnrýni fyrrverandi stjórnarformanns byggði á ágiskunum. Rík áhersla sé lögð á að öllum lögum, samþykktum, starfsreglum og leiðbeiningum um góða stjórnarhætti sé fylgt til hins ítrasta við reksturinn.
Það vakti líka athygli að stjórnin sá sig knúna til að taka það fram, í sérstakri yfirlýsingu, að í ljósi nýlegra breytinga á yfirstjórn VÍS og kaupa á hlut í fjárfestingabankanum Kviku fyrr á árinu vilji hún líka árétta að fjárfesting félagsins í Kviku sé skilgreind sem eign í fjárfestingarbók og svo verði áfram. „Núverandi stjórn áformar heldur ekki að skipta sér af einstökum fjárfestingum í fjárfestingarbók félagsins. Slíkt hefur aldrei komið til tals.“ Yfirlýsingin var, samandregið, hörð gagnrýni á fyrrverandi stjórnarformann félagsins.
Þetta er allt mjög óvenjulegt, og raunar einstakt, fyrir íslenskan hlutabréfamarkað eftir hrun.
Vildu að stjórn tæki ákvarðanir um fjárfestingar
Á laugardag opnaði Herdís Dröfn sig svo að öllu leyti um hvað hefði búið að baki ákvörðun hennar. Það gerði hún í viðtali við Morgunblaðið. Þar sagði Herdís Dröfn að ein meginástæða þess að hún hefði sagt sig úr stjórn VÍS hefði verið það sjónarmið Svanhildar Nönnu, núverandi stjórnarformanns félagsins, að stjórn ætti í ríkari mæli að koma að fjárfestingarákvörðunum á vettvangi þess. Orðrétt er haft eftir henni í Morgunblaðinu að „á fundi sem ég átti með núverandi stjórnarformanni VÍS í aðdraganda aðalfundar félagsins sem haldinn var 15. mars síðastliðinn viðraði hún hugmyndir um aukna aðkomu stjórnar félagsins að fjárfestingarstarfsemi þess. Þær hugmyndir fólu sömuleiðis í sér að forstjóri félagsins myndi einvörðungu koma að vátryggingarstarfsemi þess.“ Svanhildur Nanna neitaði þessum fullyrðingum og sagði þær úr lausu lofti gripnar.
Kjarninn hefur upplýsingar um að það hafi verið umtalsverður ágreiningur um það innan stjórnar VÍS um hvort Svanhildur Nanna væri hæf til að annars vegar taka ákvarðanir um og hins vegar að taka þátt í umræðum um eignarhlut félagsins í Kviku, í ljósi þess að hún á stóran hlut í báðum félögum. Svanhildur Nanna lét tvær lögfræðistofur vinna álit um hæfi sitt og aðrir stjórnarmenn í VÍS létu þriðju stofuna gera slíkt hið sama. Svanhildur Nanna sagði við Morgunblaðið að eignarhald hennar á Kviku hefði ekki áhrif á hæfi hennar til að sitja í stjórn VÍS, samkvæmt álitunum. Hún viðurkenndi hins vegar að ágreiningur hefði verið uppi um hæfi hennar til að fjalla um eignarhlut VÍS í Kviku banka.
TM kaupir í gamla FL Group með nokkrum úr hluthafahópi sínum
Þótt kastljósið hafi verið á hræringunum innan VÍS að undanförnu er það ekki eina skráða tryggingafélagið sem fjárfestar hafa áhyggjur af. Nýleg kaup TM í Stoðum, sem einu sinni hét FL Group, hafa líka valdið titringi. Kaupin fóru ansi leynt en Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að TM hefði, ásamt hópi einkafjárfesta, eignast rúmlega helmingshlut í Stoðum. Eina eignin sem er eftir í Stoðum í dag er 8,87 prósent hlutur í hollenska drykkjavöruframleiðandanum Refresco. Sá hlutur er metinn á um 15 milljarða króna, en sá verðmiði gæti hækkað verði nýtt yfirtökutilboð gert í Refresco, líkt og búist er við.
Ekki er vitað hvað var greitt fyrir hlutinn í Stoðum né hefur tímalína kaupana verið opinberuð að fullu. Eina sem vitað er er að hópurinn hefur verið að kaupa þessa hluti á síðustu mánuðum. Meðfjárfestar TM í viðskiptunum eru að mestu leyti menn sem gegndu lykilhlutverkum í FL Group fyrir hrun. Þeir eru því að ná yfirráðum yfir gamla félaginu sínu aftur.
Meðal annars er um er að ræða félög í eigu Örvars Kærnested, Einars Arnar Ólafssonar, og fjölskyldu Bjargar Fenger, eiginkonu Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra FL Group. Öll umrædd félög eru líka á meðal stærstu hluthafa í TM. Því er tryggingafélagið að fjárfesta í óskráðri eign með nokkrum af helstu hluthöfum sínum.
Bæði Örvar og Einar Örn sitja í stjórn TM.