Markaðsvirði hlutabréfa sem skráð eru í kauphöll Íslands hefur hækkað um tæplega hundrað milljarða, sé horft yfir síðustu sjö mánuði, en megnið af hækkuninni hefur komið fram á síðustu fjórum vikum.
Miklu munar þar um hækkun á virði Marels en félagið er nú 256 milljarða virði, eða sem nemur tæplega fjórðungi af öllu markaðsvirði skráðra félaga á Íslandi.
Á sama tíma og virði bréfa í Icelandair hefur farið lækkandi, sé horft til síðustu sjö mánaða, þá hafa önnur félög, mörg hver, hækkað umtalsvert.
Miðað við stöðu mála eins og hún var í við lokun markaða á föstudag þá er samanlagt markaðsvirði félaga í kauphöll Íslands 1047 milljarðar króna. Um miðjan október í fyrra var virði þeirra 949,5 milljarðar og nemur hækkunin á þessu tímabili því 97,5 milljörðum króna. Sveiflan á síðustu vikum hefur hins vegar verið mikil upp á við, eftir lækkun þar á undan.
Miklar hækkanir erlendis
Þessi hækkun er í takti við mikla hækkun sem hefur verið á alþjóðlegum mörkuðum allt þetta ár, en félög í upplýsingatækni hafa hækkað mest allra. S&P 500 vísitalan hækkaði um hefur hækkað um tæplega 8 prósent á árinu en hún skiptist í 11 undirvísitölur eftir atvinnugeirum. Vísitala félaga í upplýsingatækni hefur á þessu tímabili hækkað um 16,5 prósent, og munar þar ekki síst um gríaðrlegar hækkanir á markaðsvirði helstu risa í geiranum, Amazon, Alphabet, Microsoft og Apple þar á meðal. Markaðsvirði Apple er nú 811 milljarðar Bandaríkjadala, og hefur þetta verðmætasta skráða félag í heiminum, hækkað mikið á undanförnum vikum.
Í nýlegri greiningu Landsbankans um þróun á erlendum mörkuðum þá segir að greinendur Standard & Poor telji að þessar hækkanir geti haldið áfram næstu mánuði og misseri.
Mikil hækkun á þremur vikum
Á undanförnum rúmum þremur veikum hafa verið töluverðar hækkanir á hlutabréf á Íslandi og hefur vísitalan farið úr 1.751 18. apríl síðastliðinn í 1.910 við lokun markaða síðastliðinn föstudag. Sem þýðir að vísitalan er nú á svipuðum stað og hún var í apríl í fyrr, áður en markaðurinn fór að einkennast af miklum lækkunum, ekki síst hjá Icelandair.
Krónan styrkist og styrkist
Gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum hefur haldið áfram að styrkjast undanfarin misseri. Bandaríkjadalur kostar nú 103 krónur og evran 113 krónur. Norska krónan kostar nú 12,2 krónur og danskan 15,2. Fyrir einu og hálfu ári var allt annað uppi á teningnum, þegar gengið er annars vegar, en þá kostaði Bandaríkjadalur tæplega 140 krónur og evran 150 krónur.
Flestir viðmælenda Kjarnans, sem skoðað hafa fjárflæði til og frá landinu, gera ráð fyrir að gjaldeyrisinnstreymi verði mikið á næstu mánuðum, samhliða helsta annatíma í ferðaþjónustunni á Íslandi. Reikna má með því að krónan haldi áfram að styrkjast, nema að Seðlabanki Íslands beiti sér enn meira en hann hefur nú þegar gert, til að veikja gengi krónunnar.
Töluverð spenna er nú fyrir næsta ákvörðunardegi peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, sem er á næsta miðvikudegi. Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur kallað eftir því að vextir verði lækkaðir og segir fullt svigrúm til þess.
Meginvextir bankans eru nú 5 prósent en verðbólga mælist 1,9 prósent, og hefur haldist undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði í meira en þrjú ár. Greinendur spá því ýmist að vextir muni lækka um 0,25 prósentustig eða standa í stað.