Þeir fjárfestar sem greint var frá fyrir tæpum mánuði síðan að myndu setja 300 milljónir króna af nýju hlutafé inn í Pressusamstæðuna eru nær allir hættir við. Félag í eigu Halldórs Kristmannssonar, Róberts Wessman, Árna Harðarsonar, Hilmars Þórs Kristinssonar og Jóhanns G. Jóhannssonar, Fjárfestingafélagið Dalurinn ehf., ætlaði að verða langstærsti eigandi Pressunnar og koma inn með 155 milljónir króna af nýju hlutafé. Samkvæmt heimildum Kjarnans tilkynntu forsvarsmenn þess félags núverandi stjórnendum Pressunnar í síðustu viku að þeir og aðrir sem ætluðu að koma inn í reksturinn samhliða þeim myndu draga sig út og að ekkert yrði að hlutafjáraukningunni.
Innan Pressusamstæðunnar eru tæplega 30 miðlar sem birta efni á vef, á dagblaða- og tímaritaformi og í sjónvarpi. Þeirra þekktastir eru DV, DV.is, Eyjan, Pressan, sjónvarpsstöðin ÍNN og tímaritin Vikan, Gestgjafinn, Nýtt líf og Hús og híbýli.
Komið í veg fyrir að tollstjóri myndi innsigla
Hópurinn sem um ræðir hafði lánað umtalsverða fjármuni inn í samstæðuna á síðustu vikum til að greiða opinber gjöld sem voru í vanskilum. Það var gert, að sögn viðmælenda Kjarnans sem komu að hinni ætluðu hlutafjáraukningu, til að forðast að tollstjóri myndi innsigla félög sem tilheyra samstæðunni.
Sömu viðmælendur segja að skuldir Pressunnar séu rúmlega 700 milljónir króna og að það sé þeirra mat að sambærilega upphæð þurfi til að koma Pressusamstæðunni á réttan kjöl. Af þessum skuldum séu um 300 milljónir króna við lífeyrissjóði, stéttarfélög og vegna vangoldinna opinberra gjalda, svokallaðra rimlagjalda. Hin ætlaða hlutafjáraukning hefði því ekki dugað fyrir því að greiða þær skuldir, og hvað þá aðrar. Þá átti auk þess eftir að taka inn í dæmið fjárfestingu í rekstrinum, sem reiknað var með að þyrfti á einhverjum tímapunkti að vera umtalsverð, sérstaklega í ljósi þess að búið var að skera rekstur ritstjórna miðlanna sem heyra undir samstæðuna „alveg inn að beini,“ líkt og einn viðmælandi Kjarnans sagði.
Staðan mun verri en af var látið
Ljóst hefur verið um nokkurt skeið að mikil fjárhagsvandræði steðjuðu að Pressunni, einu stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins sem vaxið hefur gífurlega hratt á undanförnum árum í gegnum yfirtökur á miðlum. Samhliða hafa skuldir samstæðunnar vaxið hratt, meðal annars vegna seljendalána sem fyrrverandi eigendur þeirra miðla sem Pressan hefur tekið yfir hafa veitt. Engar upplýsingar hafa hins vegar fengist um hverjir aðrir lánveitendur Pressunnar, eða stærstu eigenda hennar, séu.
Í mars greindi Fréttablaðið frá því að VR, stærsta stéttarfélag landsins, hefði krafist þess að DV ehf., útgáfufélag DV, yrði tekið til gjaldþrotaskipta vegna vangoldinna launa félagsmanna þess. Áður hafði Lífeyrissjóður verslunarmanna gert árangurslaust fjárnám hjá DV vegna þess að lífeyrisgreiðslum starfsmanna sem dregnar höfðu verið frá launum þeirra hafði ekki verið skilað til sjóðsins. Í frétt Fréttablaðsins var rætt við fyrrverandi auglýsingasölumann hjá DV sem sagðist eiga kröfu upp á tæpa milljón krónur á félagið. Auk þess hefði það dregið meðlagsgreiðslur af launum hans en haldið þeim eftir, að sögn mannsins.
Fljótlega eftir að tilkynnt var um 300 milljón króna hlutafjáraukningu í Pressusamstæðunni, sem var gert 18. apríl síðastliðinn, fóru að renna tvær grímur á nýju fjárfestana. Viðmælendur Kjarnans segja að það hafi ekki tekið þá langan tíma að átta sig á að staðan hafi verið mun verri en af var látið. Það var til marks um slæma stöðu samstæðunnar að þeir stjórnarmenn sem tilkynnt var um að setjast ættu í stjórn Pressunnar fyrir tæpum mánuði gerðu það aldrei formlega. Þeir vildu ekki bera neina lagalega ábyrgð á samstæðunni eins og hún er í dag.
Ætluðu að skera niður kostnaðarsamt efsta lag
Forsendur þess að nýja hlutaféð yrði greitt inn voru nokkrar. Sú fyrsta var að Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi, og Arnar Ægisson, framkvæmdastjóri, færu alfarið út úr rekstrinum. Önnur var að komið væri jafnvægi á rekstur einstakra miðla sem tilheyrðu samstæðunni og að þeir væru ekki að tapa peningum. Svo reyndist alls ekki vera.
Hópurinn vildi samt kanna hvort hægt væri að halda áfram og ráðast í einfaldar niðurskurðaraðgerðir á borð við það að sameina starfsemina undir einu þaki, fækka útgáfudögum DV í einn og skera niður kostnað í efsta lagi samstæðunnar, þar sem helstu stjórnendur reyndust vera með um tvær milljónir króna í mánaðarlaun á sama tíma og ritstjórnir miðla voru langt frá því að vera fullmannaðar. Þá voru fjárfestar tilbúnir til að koma inn síðar ef tekist hefði að koma jafnvægi á rekstur einstakra miðla.
Eftir að væntanlegum nýjum eigendum var hleypt að félaginu kom einfaldlega í ljós að staðan var mun verri en nokkur þeirra hafði ímyndað sér. Líkt og Kjarninn greindi frá í síðustu viku komu upp ný mál nánast á hverjum degi sem gerðu stöðuna verri. Ljóst var að rekstur einstakra eininga, sérstaklega DV, var í miklum ólestri. „Það stóð ekki steinn yfir steini í þessu og þess vegna er þetta staðan,“ sagði einn viðmælandi Kjarnans. Staðan sem hann vísar til er sú að hætt hefur við hlutafjáraukninguna. Og hópurinn sem ætlaði að bjarga Pressusamstæðunni frá gjaldþroti segir að hann telji nú að það sé ekki hægt.
Óskar eftir hjálp starfsmanna
Björn Ingi Hrafnsson sendi starfsmönnum Pressusamstæðunnar póst í vikunni þar sem hann sagðist vilja upplýsa um að ekkert sérstakt nýtt hefði gerst í málum hennar undanfarna daga „utan að svo virðist sem við Arnar séum farnir minna út úr þessu en við tveir töldum.“
Í póstinum segir hann svo að það sé alls ekki rétt að það vanti 700 milljónir króna í hlutafé heldur sé sú tala nær því að ná yfir heildarskuldir samsteypunnar. Það vanti hins vegar fjármagn, þeir hafi unnið að því undanfarna mánuði að safna því og náð heilmiklum árangri. „Félagið hefur meira en tífaldast að stærð á fáum árum og því fylgja vaxtarverkir í óhagstæðu rekstrarumhverfi íslenskra fjölmiðla. Við erum að greiða starfsfólki okkar hærri laun en gengur og gerist (eða svo er okkur sagt) og kannski höfum við verið of rómantískir að halda úti efnisþáttum sem ekki standa undir sér. Við höfum lagt mikla áherslu á jákvæðan starfsanda og að starfsfólki líði eins og það sé hluti af stórri fjölskyldu. En við höfum líka gert mistök. Við höfum tapað allt of miklu á útgáfu DV og það hefur reynst okkur mjög erfitt. Staða DV var mjög erfið þegar við tókum blaðið yfir eftir endalausar deilur og það hefur verið þrautin þyngri að snúa því við.“
Björn Ingi segir í póstinum að rekstrarstaða miðla samstæðunnar hefði batnað mjög undanfarna mánuði. „Við þurfum ykkar hjálp á næstunni til að koma í veg fyrir taprekstur í einstökum deildum. Við höfum bara ekki efni á því lengur. Við Arnar Ægisson og Venediktsson Samsteypan Venni [Sigurvin Ólafsson, framkvæmdastjóri DV] ætlum að berjast bjartsýnir næstu daga og vikur og erum sannfærðir um að ætlunarverkið muni takast. Ég er nokkuð viss um að einhverjir vilja gjarnan að þetta mistakist. En ég vona að við eigum áframhaldandi stuðning ykkar allra í baráttunni.“
Starfsmenn Pressusamstæðunnar sem Kjarninn ræddi við túlka skilaboð stjórnenda hennar einungis á einn veg: fyrir dyrum eru uppsagnir og launalækkanir í tilraun til að bjarga rekstrinum. Viðmælendur innan fjárfestahópsins sem ætlaði að koma að Pressunni telja þó að það muni ekki duga til.