Flestir tengja nafnið Kalígúla við þá úrkynjun Rómarveldis sem seinna leiddi til falls þess. Orðspor keisarans batnaði ekki þegar kvikmynd um valdatíð hans var frumsýnd árið 1979. Sú mynd var klámfenginn í meira lagi og sýndi alla þá mannlegu galla sem hann hefur verið vændur um. Nú stendur yfir leit í litlu stöðuvatni nálægt Róm að skipi sem Kalígúla á að hafa látið smíða. Skip sem gæti hafa verið sögusvið nautnafýsnar keisarans alræmda.
Óvænt tækifæri
Þann 3. apríl hófu vísindamenn að rannsaka hið fræga Nemi vatn til að reyna að finna hið umtala þriðja skip keisarans Kalígúla. Nemi vatn, sem er aðeins um 1,5 ferkílómetri að flatarmáli og 33 metra djúpt, liggur í eldfjallagíg um 30 km suð-austan af Rómarborg, nálægt Albano vatni sem er þó töluvert stærra. Austan við vatnið situr bærinn Nemi þar sem búa um 2000 manns sem byggja lífsafkomu sína aðallega á jarðarberjarækt. Sá bær var þó ekki til fyrir tæpum tveim árþúsundum þegar Nemi vatn var helsti sumaráningarstaður keisarans.
Rannsóknin er samvinnuverkefni margra aðila á svæðinu, t.d. umhverfisstofnana, hafnarstjóra Rómarborgar og samtaka kafara. Jarðfræðingurinn Luigi Dattola hjá náttúruverndarsamtökum Calibríu-héraðs er einn af þeim sem leiðir rannsóknina en hann segir að vísindi hafi ekki verið kveikjan að henni.
„Rannsóknin byrjaði sem leit að ólöglegri losun sorps og skaðlegra efna í vatninu. En svo var ákveðið að kafa dýpra og leita að þessu dularfulla skipi.“
Mafían stýrir sorphirðu á mörgum stöðum í Ítalíu og það hefur valdið gríðarlegum vandamálum. Asbestos og önnur stórhættuleg eiturefni hafa verið losuð á viðkvæmum stöðum og valdið bæði fólki og dýrum heilsutjóni. Mikið púður hefur verið sett í rannsóknina sem hefur þó reynst töluvert erfið. Vatnsbotninn er mjög laus í sér og því mikið af ögnum í vatninu sem gerir köfurum erfitt fyrir. Oft sjá þeir ekki nema um 3 metra frá sér.. Dattola og félagar hafa því gripið til þess að nota sérstök ómskoðunartæki sem kortleggja vatnsbotninn. Slík tæki eru einnig notuð til að leita að eiturefnaúrgangi.
Sadisti, pervert og spreðari
Fáar persónur úr mannkynssögunni hafa fengið jafn slæm eftirmæli og Gaius Julius Caesar Augustus Germanicus, betur þekktur sem Kalígúla (litla stígvél). Hann var fæddur árið 12 e.Kr og 24 ára gamall varð hann þriðji keisari Rómarveldis. Hann var myrtur af lífvörðum sínum tæpum 4 árum seinna í misheppnuðu samsæri nokkurra stjórnmálamanna og hirðmanna um að koma aftur á lýðveldi. En þó að valdatíð hans hafi verið stutt var hún ákaflega viðburðarrík, ekki síst vegna hans eigin persónu.
Kalígúla var sagður vera sadisti, grimmur og óútreiknanlegur, veruleikafirrtur, kynferðislegur pervert og óheflaður eyðsluseggur. Sagt var að hann hafi látið taka fólk af lífi án umhugsunar, að hann hafi sængað hjá þremur systrum sínum, að hann hafi talað við karlinn í tunglinu og að hann hafi gert uppáhalds hest sinn að ræðismanni. Mest er haft eftir seinni tíma sagnariturum eins og Svetóníusi sem skrifaði um 80 árum eftir dauða Kalígúla.
Margir þeirra höfðu horn í síðu Kalígúla vegna einræðistilburða hans og því verður að taka öllum frásögnum um hann með vissum fyrirvara. Mikið af því er augljóslega hrein og klár lygi. Það sem er hins vegar óumdeilt er eyðslusemi hans. Kalígúla tæmdi fjárhirslur ríkisins til að framkvæma metnaðarfullar byggingar og smíðar af ýmsum toga. Þær voru þó ekki allar gerðar af eintómum hégóma. Hann lét reisa stórar vatnsveitur, vegi, hafnir, leikhús og musteri handa almenningi og hélt þeim vel við. En hann byggði einnig fyrir sjálfan sig og þá var hvergi til sparað. Þekktustu smíðarnar sem hann lét gera voru skipin í Nemi vatni.
Við norðurbakka Nemi vatns stóð musteri gyðjunnar Díönu (rústirnar standa enn) og þar var miðstöð vegsömun hennar. Nemi vatn hefur því oft verið kallað spegill Díönu og hátíðir henni til heiðurs voru haldnar um árhundruða skeið. Þessar hátíðir voru óvenjulegar innan Rómarveldis þar sem mannfórnir voru stundaðar þar. Kalígúla var hrifinn af þessum söfnuði og gerði staðinn að dvalarstað sínum yfir sumarmánuðina þegar hitinn í Rómarborg var yfirgengilegur. Fyrirmyndin að skipunum sem hann lét smíða voru unaðsprammarnir sem konungar Egyptalands áttu. Skipin hans voru þó langt um stærri og íburðarmeiri en hin egypsku. Hann fékk færustu verkfræðinga og skipasmiði Rómarveldis til að hanna skipin sem hýstu bæði musteri og litlar hallir, allt strjáð gimsteinum, gulli, marmara og listmunum. Á skipunum dvaldi hann ásamt hirð sinni og sagt er að þar hafi verið stundaður geigvænlegur ólifnaður og kynsvall.
Flökin í vatninu
Þegar Kalígúla var myrtur árið 41 e.Kr hurfu skipin. Að öllum líkindum var þeim sökkt í vatnið í tilraun til þess að eyða arfleið hans úr sögunni. En vitneskjan um þau hvarf þó aldrei. Fiskveiðimenn á svæðinu vissu af þeim og þeir sem gátu kafað hvað dýpst gátu séð flökin. Engar alvarlegar tilraunir til að rannsaka flökin voru gerðar fyrr en um miðja 15. öld. Arkítektinn Leon Battista Alberti nýtti sér þekkingu kafaranna og komst að því að tvö skip lægju á um 20 metra dýpi í austanverðu vatninu. Kafararnir höfðu stundum notað króka til að ná bútum af flökunum og Alberti notaði þessa aðferð við rannsókn sína. Frekari rannsóknir voru þó ómögulegar vegna dýpisins og stærðar skipanna.
Á næstu öldum voru margar frekari tilraunir gerðar til að ná flakinu eða hlutum af því á land, t.d. með sérstökum köfunarklefa sem var í laginu eins og kirkjuklukka. Mikið af verðmætum málmhlutum, listmunum og timbri náðist á land og var síðan selt. Á þessum tíma var áhuginn á flökunum fyrst og fremst fjárhagslegur. En um aldamótin 1900 fór ítalska ríkið að sína flökunum áhuga og fornmunafræðingurinn Eliseo Borghi var sendur til að rannsaka þau. Hann sá að annað skipið innihélt umtalsvert magn af trúarlegum munum og hlaut að hafa þjónað öðrum tilgangi en hitt. Ekki reyndist þó mögulegt að ná skipunum á þurrt land til frekari rannsókna.
Það var einræðisherrann Benito Mussolini sem tók málið föstum tökum í lok þriðja áratugarins. Ómögulegt var að hífa svo stór flök upp í heilu lagi og gamall viðurinn myndi sennilega molna við slíka tilraun. Því ákvað hann að ræsa fram vatnið til að lækka yfirborð þess. Aðgerðin var risavaxin en haustið 1928 byrjaði vatnið að grynnka. Hálfu ári síðar kom annað flakið í ljós og eftir fjögur ár hafði yfirborð vatnsins lækkað um 20 metra og bæði flökin á föstu landi.[http://historybecauseitshere.weebly.com/roman-emperor-caligula-and-his-legendary-lake-nemi-ships.html] Þá kom einnig í ljós lítill fylgibátur sem hafði verið fylltur steinum. Réttmæti þessarar aðgerðar er umdeilanlegt í ljósi umhverfisáhrifanna. Lífríki vatnsins hefur enn ekki náð sér fyllilega á strik eftir aðgerðina og töluvert jarðrask átti sér einnig stað.
Skemmtiferðaskip fornaldar
Skipin voru ótrúlegur fundur og hvalreki fyrir vísindamenn. Þau litu í raun frekar út eins og risastórir flekar eða prammar heldur en venjuleg skip. Annað var 67 metrar á lengd og 19 breidd og hit 71 metri á lengd og 24 á breidd. Þilförin voru klædd glæsilegum marmara og mósaík myndum. Ýmsar styttur og munir úr bronsi fundust víðs vegar, t.d. úlfshöfuð við hvert ræðaraop. Vísindamenn áætla að annað skipið hafi verið musterisskip, sennilega til að vegsama gyðjuna Díönu, og það hefur verið knúið áfram með afli 100 ræðara.
Á hinu hefur staðið lítil höll og verið svo þungt að það hafi ekki haft neina burði til að knúa sig áfram heldur verið dregið. Í ljósi þess hversu smátt Nemi vatnið er hefur verið lítil ástæða fyrir mikla siglingagetu skipanna og þau hafa sennilega verið kyrr mest allan tímann sem þau voru í notkun. Akkeri skipanna fundust en líklegt er að skipin hafi einnig verið fest við bakkann með keðjum og að hægt hafi verið að komast um borð eftir langri brú. Í hallarskipinu hafa Kalígúla og hirð hans sennilega varið mestum tíma (ef sagan er sönn) við veisluhald, söngva, kappleiki og kynsvall. Sagan segir einnig að þar hafi Kalígúla látið taka fólk af lífi. En það kom margt fleira í ljós sem sem gerði vísindamenn kjaftstopp. Ýmis konar pumpur og dælur sem héldu hita í gólfum og veittu farþegum bæði heitu baðvatni og köldu drykkjarvatni. Tækni sem glataðist og uppgötvaðist ekki aftur fyrr en á miðöldum. Skipin minntu í raun á lúxus skemmtiferðaskip nútímans. Svetóníus segir:
„Hann byggði einnig líbúrískar [svæði við Adríahaf] galeiður með tugi ræðara, með skut fylltan gimsteinum, marglitum seglum, stórum og rúmgóðum böðum, súlnaröðum og veislusölum, og meira að segja úrvali af vínjurtum og ávaxtatrjám.“
Mussolini lét reisa hús yfir flökin og árið 1936 var opnað safn á staðnum. En safnið stóð ekki lengi því aðeins þremur árum síðar hófst seinni heimsstyrjöldin og sumarið 1943 hófust miklir bardagar á Ítalíuskaga milli Þjóðverja annars vegar og Breta og Bandaríkjamanna hins vegar. Ári seinna brann safnið í Nemi til kaldra kola og með því unaðsprammar Kalígúla. Óvíst er hver bar ábyrgð á brunanum. Þjóðverjar kenndu bandaríska stórskotaliðinu um en Bandaríkjamenn töldu að Þjóðverjar hefðu viljandi kveikt í safninu þegar þeir flúðu af svæðinu. Það litla sem bjargaðist úr brunarústunum var flutt til Napolí borgar til varðveislu.
Um áratuga skeið gerðist ekkert í málefnum skipanna en um miðjan tíunda áratuginn stefndu bæjaryfirvöld í Nemi á að endurgera annað skipið í fullri stærð, þ.e. utan hallarinnar sjálfrar sem enginn vissi nákvæmlega hvernig leit út. Félag var sett á laggirnar til að halda utan um verkefnið en það hefur síðan fjarað út og ekkert varð af endurgerðinni.
Þriðja skipið
Örlög skipanna tveggja eru vel þekkt en hvaðan kemur sagan um þriðja skipið? Hvorki Svetóníus né aðrir sagnaritarar segja hversu mörg skipin á Nemi vatni voru. Hingað til hefur kastljósið einungis verið á þeim tveim skipum sem fundust við austurbakkann. En í gegnum aldirnar hafa fiskveiðimenn haldið þeim orðrómi á lofti að þriðja skipið liggi við vesturbakkann og fornmunir hafa fundist þeim megin. Sagt er að það skip sé umtalsvert stærra en hin tvö, eða rúmlega 120 metrar á lengd. Vitað er þó að töluvert jarðrask og aurskriður hafa átt sér stað þeim megin í vatninu og ef skipið er til, verður erfitt að finna það. Luigi Dattola er þó nokkuð bjartsýnn hvað það varðar.
„Þó að það virðist undarlegt að þrjú risastór skip hafi flotið á svona litlu vatni, þá verður það þó að teljast líklegt í ljósi þess að Kalígúla átti þau. Ef skipið er þarna ættum við að geta séð það.
Teymi hans rannsakaði vatnsbotninn samfleytt í tvær vikur og fundu ýmislegt sem vakti grunsemdir þeirra. Kafarar eru til staðar og þeir munu verða að störfum a.m.k. fram í júnílok. Dattola er ekki sannfærður um að þeir finni skipið strax, það gæti verið grafið undir djúpu lagi af jarðvegi. En það er vel mögulegt að ýmsar minjar, jafnvel úr skipinu geti fundist á svæðinu. Ef þriðja skip Kalígúla finnst í vatninu yrði það einn af merkilegustu fornleifafundum sögunnar. Með nútíma verktækni yrði auðveldara að koma því upp á yfirborðið án þess að ræsa fram vatnið aftur með tilheyrandi umhverfisspjöllum og einnig auðveldara að varðveita skipið sjálft. Það yrði líka góð sárabót fyrir skipin tvö sem voru eyðilögð 12 árum eftir að þau voru afhjúpuð í fyrsta skipti í 2000 ár.