Innkoma Costco á markað á Íslandi markar mikil tímamót. Ekki einungis vegna þess hversu mikill slagkraftur fylgir slíkum risa, heldur ekki síst vegna þess hvernig viðskiptamódel fyrirtækisins virkar. Það að fyrirtækið sé komið með 41 þúsund áskriftir/aðildarviðskiptavini er með ólíkindum, á jafn litlum markaði. Og það á fyrsta degi.
Það verður áhugavert að fylgjast með því hvernig íslensk verslunarfyrirtæki munu bregðast við þessari innkomu.
Við fjölskyldan erum búsett á Seattle svæðinu, þar sem hjartað í þróun smásölu í heiminum slær. Hér eru Amazon og Costco bæði með höfuðstöðvar, stóran hluta hluthafa sinna (óvenju stóran staðbundinn á svæðinu) og nýjungar sýnilegar hér fyrst.
Hér koma nokkrir punktar frá mér um þessa bandarísku innrás á lítinn einangraðan smásölumarkað sem Ísland er.
1. Viðbrögð stóru verslanakeðjanna á Íslandi sem rekar verslarnir undir merkjum Krónunnar (Festi), Bónuss og Hagkaup (Hagar), verða vafalítið þau að reyna eftir fremsta megni að bjóða jafngóð verð og Costco og um leið að halda í sína viðskiptavini. Þessar verslanir búa að löngu viðskiptasambandi og góðum staðsetningum á verslunum.
Enn betri útfærsla á netverslun - t.d. með betri yfirsýn yfir innkaupin í hvert skipti sem verslað er, og uppbyggingu vildarkjarakerfis - er eitthvað sem íslensku verslankakeðjurnar gætu þurft að útfæra nánar og betur. Þar er hægt að horfa til Amazon Prime (Now) og Amazon Fresh, þar sem notendur greiða mánaðargjald sem nemur um 1.500 krónum og fá í staðinn aðgengi að góðum verðum, betra vöruúrvali og betri þjónustu, þar á meðal styttri afhendingartíma á vöru heima að dyrum.
Þessi áskriftarhugsun í verslun snýst að miklu leyti um það, að styrkja og dýpka viðskiptasambandið milli verslunarinnar og viðskiptavina, og leyfa þeim að njóta þess þegar fram í sækir.
Innkoma Costco gæti ýtt við íslenskum verslunum hvað þetta varðar, og leitt til þess að þær fari að bjóða fjölbreyttari þjónustu fyrir sína viðskiptavini.
2. Heildverslanir með ýmsan varning, eins og bíldekk, verkfæri, húsgögn og ýmislegt fleira, gætu fundið rækilega fyrir innkomu Costco, og þyrftu þá að reyna að bjóða aðrar vörur en Costco býður upp á. Verðmunurinn er líklegur til að verða mikill á mörgum vörutegundum, en ekki öllum.
Eitt af því sem hefur blómstrað í smásölu undanfarin ár eru sérhæfðar verslanir með tilteknar vörutegundir, t.d. einhverja tiltekna matvöru (kjöt, fisk, osta, grænmeti, lífrænan mat) eða gjafavöru. Ekki er ólíklegt að innkoma Costco geti skerpt enn meira á möguleikum sérhæfðrar verslunar, og þá sérhæfðra heildverslana.
3. Til framtíðar litið gætu þessi gríðarlegu sterku viðbrögð viðskiptavina, með yfir 40 þúsund áskriftir, leitt til opnunar á fleiri verslunum Costco hér á landi. Bestu verslanir Costco í Evrópu hafa verið að velta allt að 15 milljörðum króna, og má til samanburðar nefna að heildarvelta Haga á síðasta ári var 80 milljarðar. Þrátt fyrir að innkoma Costco verði kröftug og eftirtektarverð, og sé það nú þegar, þá verður hún takmörkuð til lengri tíma við þessa eina staðsetningu í Kauptúni. Hún gæti orðið magninnkaupabúð fjölskyldna á höfuðborgarsvæðinu, til framtíðar, sé horft til reynslunnar á öðrum mörkuðum, þar sem samkeppnin milli verslana er dínamísk. Þar hefur sýnt sig að Costco býður ekki endilega bestu verðin, heldur frekar góð tilboð á tilteknum vörum, og lætur viðskiptavini verulega njóta þess að vera að greiða fyrir Costco aðildina.
En Costco mun ekki „éta“ markaðinn með húð og hári, því ein staðsetning getur það ekki og veltan verður alltaf takmörkuð vegna þessa. Góðar staðsetningar verslana eru mikil verðmæti, enda eru þær grunnurinn að viðskiptatengslunum.
Markaðsvirði félagsins er 76 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um áttfaldri upphæð markaðsvirðis allra félaga í kauphöll Íslands, eða um átta þúsund milljörðum króna.
Árlegar tekjur fyrirtækisins námu um 121 milljarði Bandaríkjadala í fyrra, eða sem nemur um 13 þúsund milljörðum króna. Í skjóli þessarar miklu stærðar getur fyrirtækið náð fram miklu hagræði við innkaup og tekið þátt í verðsamkeppni af mikilli festu og þolinmæði. Allar stærðir í samhengi við íslenskan veruleika eru yfirþyrmandi, og mun tíminn leiða í ljós hvernig fyrirtækið mun haga sinni verðstýringu þegar fram í sækir.
Á þessari stöðu hagnast íslenskir neytendur, sem er mikið gleðiefni, og það sem meira er; þetta er líka hollt spark í rassinn fyrir íslensk verslunarfyrirtæki sem þurfa nú að velta við steinum, styrkja þjónustu sína og jafnvel að stíga enn stærri skref í átta að nútímalegum verslunarháttum. Til dæmis með dýpri og betri útfærslu á netviðskiptum.