- Um mitt ár 2002 ákvað íslenska ríkið að selja 45,8 prósent hlut sinn í Búnaðarbanka Íslands. Í nóvember sama ár var ákveðið að ganga til viðræðna við hóp fjárfesta sem kallaði sig S-hópinn. Í forsvari þess hóps voru Ólafur Ólafsson og Finnur Ingólfsson. Í tilkynningu framkvæmdanefndar um einkavæðingu um einkaviðræður við S-hópinn kom skýrt fram að lykilforsenda fyrir þeim væri aðkoma erlendrar fjármálastofnunar. Annars yrðu þær hugsanlega ekki framlengdrar. Hópurinn hafði lengi vel gefið í skyn við framkvæmdanefnd um einkavæðingu að franski bankinn Société Générale ætlaði að vera með í kaupunum.
Tveir starfsmenn þýskalandsarms bankans, sem störfuðu fyrir Ólaf Ólafsson í málinu, höfðu aldrei neina heimild til að skuldbinda slíkan stórbanka í kaup á viðskiptabanka á Íslandi. Mennirnir voru einfaldlega að sinna ráðgjöf og spiluðu þar með í leik Ólafs. Fyrir ómakið fengu þeir um 300 milljónir króna greiddar. Beðið var með að tilkynna hver erlenda fjármálastofnunin sem myndi taka þátt í kaupunum væri nánast fram að undirskrift, sem átti sér stað 16. janúar 2003. Þegar á hólminn var komið reyndist hún, samkvæmt tilkynningum, vera þýski einkabankinn Hauck & Aufhäuser.
- Í fréttatilkynningu sem S-hópurinn sendi frá sér vegna kaupanna sagði að það væru „mikil tíðindi að traustur, erlendur banki taki þátt í að fjárfesta í íslenskri fjármálastofnun“. Í sameiginlegri tilkynningu frá Hauck & Aufhäuser og ráðgjafanum Michael Sautter frá Société Générale sagði að nokkrar ástæður lægju að baki „þeirri ákvörðun eigenda Hauck & Aufhäuser Privatbankiers að fjárfesta í Búnaðarbankanum. Í fyrsta lagi er Búnaðarbankinn vænleg fjárfesting“.
- Þremur mánuðum eftir að gengið var frá kaupunum sameinaðist Búnaðarbankinn mun minni fjármálafyrirtæki, Kaupþingi. Samhliða tóku stjórnendur Kaupþings öll völd í hinum sameinaða banka. Sá var með hátt lánshæfismat, vegna sterkrar skuldastöðu íslenska ríkisins, sem tryggði sameinuðum banka gott aðgengi að alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Stjórnendur nýja bankans gátu því náð í gríðarlegt magn af peningum með skuldabréfaútgáfu sem þeir lánuðu svo áfram til helstu viðskiptavina sinna, sem voru í sumum tilfellum líka stærstu eigendur bankans. Kaupþing varð stærsti banki landsins og margfaldist að umfangi á útrásarárunum. Afraksturinn af þessum bræðingi öllum saman varð fimmta stærsta gjaldþrot heimssögunnar. Kaupþing var tekinn yfir af íslenska ríkinu í byrjun október 2008 á grundvelli neyðarlaga.
Auglýsing
- Allt frá upphafi heyrðust efasemdaraddir um að allt væri eins og af var látið í sölunni á Búnaðarbankanum. Margir efuðust um að Hauck & Aufhäuser væri raunverulegur eigandi sem hefði haft áhuga á að fjárfesta á Íslandi og enn fleiri fannst í meira lagi sérkennilegt hvað það tók stuttan tíma fyrir S-hópinn að renna Búnaðarbankanum saman við Kaupþing. Marga grunaði að það hafi verið ákveðið löngu áður og að Kaupþing hafi haft miklu meiri aðkomu að kaupunum en gefið var upp opinberlega. Ólafur Ólafsson neitaði þessu alltaf. Hann sagði til að mynda í yfirlýsingu 4. apríl 2003 að það væri „rangt að samningar hafi legið fyrir um sameiningu Búnaðarbanka og Kaupþings áður en gengið var frá kaupunum á kjölfestuhlutnum í Búnaðarbankanum eins og ýjað hafi verið að.“
- Málið var rannsakað að hluta til. Ríkisendurskoðun vann skýrslu árið 2003 um einkavæðingu ríkiseigna þar sem niðurstaðan var sú að „íslensk stjórnvöld hafi í meginatriðum náð helstu markmiðum sínum með einkavæðingu ríkisfyrirtækja á árunum 1998-2003.“ Engar athugasemdir voru gerðar við það hvernig staðið var að sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum til S-hópsins í skýrslunni. Í mars 2006 vann Ríkisendurskoðun síðan átta blaðsíðna samantekt í kjölfar fundar Vilhjálms Bjarnasonar, núverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann lagði fram nýjar upplýsingar um söluna á Búnaðarbankanum til S-hópsins. Vilhjálmur hefur lengi verið þeirrar skoðunar, og taldi sig hafa gögn til að sýna fram á, að aðkoma Hauck & Aufhäuser hafi aldrei verið raunverulegur eigandi að hlut í Búnaðarbankanum. Niðurstaða Ríkisendurskoðunar var sú að ekkert sem lagt hafi verið fram í málinu hafi stutt víðtækar ályktanir Vilhjálms. „Þvert á móti þykja liggja óyggjandi upplýsingar og gögn um hið gagnstæða,“ segir í skýrslu hennar.
- Í júní 2016 sendi Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, bréf til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis þar sem hann lagði til að skipuð yrði rannsóknarnefnd til að komast til botns í aðkomu þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser að kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum í byrjun árs 2003. Þetta ætti að gera vegna þess að Tryggvi hefði nýjar upplýsingar sem byggðu á ábendingum um hver raunveruleg þátttaka þýska bankans var. Kjartan Bjarni Björgvinsson var skipaður í rannsóknarnefndina og réð til sín einn starfsmann, Finn Vilhjálmsson. Þeir rannsökuðu málið um nokkurra mánaða skeið, kölluðu aðalleikendur þess til skýrslutöku og fóru yfir gríðarlegt magn af frumgögnum. Þann 29. mars héldu þeir blaðamannafund og birtu skýrslu um niðurstöður sínar.
- Þær niðurstöður voru afgerandi. Ítarleg skrifleg gögn sýndu með óyggjandi hætti að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar fjárfestis notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í Búnaðarbankanum í orði kveðnu. Í raun var eigandi hlutarins aflandsfélagið Welling & Partners, skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum. Með fjölda leynilegra samninga og millifærslum á fjármunum, m.a. frá Kaupþingi hf. inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bankanum tryggt skaðleysi af viðskiptunum með hluti í Búnaðarbankanum. Aðkoman var semsagt blekking. Kaupþing fjármagnaði Welling & Partners sem var raunverulegur eigandi hlutarins sem þýski bankinn sagðist hafa keypt. Gert var leynisamningur sem tryggði Hauck & Aufhäuser algjört skaðleysi og sölurétt á hlutnum eftir tvö ár. Fyrir þetta ómak þáði þýski bankinn eina milljón evrur í þóknanatekjur. Sá aðili sem bar alla áhættuna af viðskiptunum var Kaupþing. Þegar fléttan – sem kölluð var „Operation Puffin“ eða „Lundafléttan“ af þeim sem hönnuðu hana – var gerð upp hafði Kaupþing sameinast Búnaðarbankanum. Þannig lá fyrir að hið keypta bar áhættuna af fléttu utan um kaup á sér.
- En rannsóknarnefndin komst að fleiru. Í fréttatilkynningu sem hún sendi út sama dag og skýrslan var birt segir: „Síðari viðskipti á grundvelli ofangreindra leynisamninga gerðu það að verkum, að Welling & Partners fékk í sinn hlut rúmlega 100 milljónir Bandaríkjadala sem voru lagðar inn á reikning félagsins hjá Hauck & Aufhäuser. Snemma árs 2006, eða um þremur árum eftir viðskiptin með eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum, voru 57,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Marine Choice Limited sem stofnað var af lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama en skráð á Tortóla. Raunverulegur eigandi Marine Choice Limited var Ólafur Ólafsson. Um svipað leyti voru 46,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Limited sem einnig var skráð á Tortóla. Ekki liggja fyrir óyggjandi upplýsingar um raunverulega eigendur Dekhill eða hverjir nutu hagsbóta af þeim fjármunum sem greiddir voru til félagsins.“
- Ólafur Ólafsson er sá eini af höfuðpaurum „Lundafléttunnar“ sem hefur ráðist í umfangsmikla málsvörn eftir að skýrslan var birt. Málsvörn hans snýst í grófum dráttum annars vegar um að halda því fram að engu máli hafi skipt að hafa erlenda fjármálastofnun með í S-hópnum. Hann hefur birt eitt nýtt gagn sem á að sýna fram á þetta, tölvupóst frá fyrrverandi starfsmanni einkavæðingarnefndar sem tekur undir söguskýringu Ólafs, þrátt fyrir að hún sé þvert á yfirlýsingar ýmissa sem komu að sölunni og rökstudda niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar. Sá sem sendi tölvupóstinn afplánar nú þriggja ára fangelsisdóm fyrir efnahagsbrot. Hins vegar segir Ólafur að það sé enginn vafi á því að Hauck & Aufhäuser hafi verið lögformlegur eigandi að hlut í Búnaðarbankanum. Um það hefur reyndar engin efast. Önnur atriði málsins finnst Ólafi engu máli skipta. Hann fékk að koma fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nýverið þar sem vonast var til að hann gæti upplýst um þær spurningar sem enn er ósvarað í málinu og mögulega lagt fram ný gögn. Hann gerði hvorugt.
- Stærsta spurningin sem enn stendur eftir ósvarað er hver er eigandi félagsins Dekhill Advisors sem fékk 2,9 milljarða króna á þávirði lagða inn á reikning sinn árið 2006. Peningarnir voru hluti af hagnaðinum af Lundafléttunni sem skipt var á milli aflandsfélags Ólafs Ólafssonar annars vegar og Dekhill Advisors hins vegar. Eftir að rannsóknarnefndin komst að sinni niðurstöðu sendi hún bréf á alla sem komu að „Lundafléttunni“ og spurði þá m.a. hver ætti Dekhill Advisors. Enginn þeirra sagðist vita það. Kjarninn greindi frá því 16. maí að gögn sýni að Dekhill Advisors sé enn virkt félag. Einhverjir einstaklingar hafa aðgang að því og eignir þess hafa verið handveðsettar eftir hrun. Nýjustu gögn sýna að félagið var enn til í september 2016.
Tíu staðreyndir um „Lundafléttuna“ og blekkingarnar í kringum hana
Allt sem þú þarft að vita um leynimakkið og blekkingarnar á bakvið aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á Búnaðarbankanum er til umfjöllunar í nýjasta sjónvarpsþætti Kjarnans.
Auglýsing
Lestu meira
Við þurfum á þínu framlagi að halda
Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.
Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.
Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.
Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.
Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.
Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.
Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.
MorgunpósturinnEkki missa af neinuNánar