70 milljarðar króna fyrir 57 km langa Borgarlínu
Lega Borgarlínu um höfuðborgarsvæðið var kynnt í gær. Kostnaðurinn verður gríðarlegur. Samtal um aðkomu ríkisins að framkvæmdinni er ekki hafið.
Vinnslutillaga að legu Borgarlínu liggur nú fyrir. Forsvarsmenn sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu kynna þessa fyrirhuguðu þungamiðju almenningsamgangna í gær.
Borgarlínan mun teygja sig í gegnum öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og vera allt að 57 kílómetrar að lengd. Ekki verða allir kílómetrarnir lagðir í einu heldur verður verkefnið áfangaskipt.
Kjarninn fjallaði um valkostagreiningu dönsku verkfræðistofunnar COWI í mars síðastliðnum þegar valkostirnir voru lagðar í bæjar- og borgarráðum sveitarfélaganna.
Þær leiðir sem fýsilegast er talið að fara byggja á atriðum sem mikilvægt er að uppfylla svo hægt sé að skapa hagkvæmt samgöngukerfi. Leiðirnar hafa verið lagðar ofan á þemakort sem sýna ráðandi breytur á borð við:
- Dreifingu íbúa og raunþéttleiki byggðar.
- Samanlagðan íbúafjölda eftir takmörkuðum svæðum.
- Fjölda fermetra á höfuðborgarsvæðinu þar sem stunduð er atvinnustarfsemi.
- Fjölda nýrra íbúða.
- Fjölda atvinnuhúsnæðis.
Út frá þeim valkostum sem lagðir voru til hafa leiðirnar verið lagðar. Aðalskipulag höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040 verður að endingu uppfært með þetta í huga og framkvæmdir hefjast hefjast á næsta ári.
Fimm vandamál enn til staðar
Í grunninn þá er um nokkrar meginleiðir að ræða. Sé Harpa í Reykjavík notuð sem upphafspunktur allra ferða þá verður hægt að komast eftir mismunandi leiðum um höfuðborgarsvæðið.
Endastöðvarnar verða eftirfarandi:
- Eiðistorg á Seltjarnarnesi
- Vellir í Hafnarfirði
- Kórinn í Kópavogi
- Fell í Breiðholti
- Spöngin í Grafarvogi
- Háholt í Mosfellsbæ
Samkvæmt þessum fyrstu tillögum um Borgarlínuna þá eru fimm kaflar sem enn á eftir að ákveða hvaða leiðir verða farnar. Þar eru augljósar hindranir eða mismunandi valmöguleikar sem á eftir að taka tillit til.
Í Hafnarfirði stendur valið um hvernig farið verður úr miðbæ Hafnarfjarðar að Hafnarfjarðarvegi. Valið stendur um að fara um Fjarðargötu og Reykjavíkurveg eða um Lækjargötu, Álfaskeið og Fjarðahraun.
Í Garðabæ og Kópavogi eru mismunandi valkostir um hvernig farið verður frá Arnarneshálsi að Hamraborg. Hægt er að fara áfram eftir Hafnarfjarðarvegi yfir Kópavogslæk eða hafa viðkomu í Smáralind eftir Arnarnesvegi og Fífuhvamsvegi eða Smárahvamsvegi.
Úr Fossvoginum eru lagðar til tvær leiðir að Kringlunni. Önnur heldur áfram eftir núverandi legu Hafnarfjarðarvegar en hin tekur krók að Landspítalanum, og liggur svo eftir Háaleitisbraut og Listabraut.
Á milli Miklubrautar og Suðurlandsbrautar er lagt til að mögulega mætti tengja leiðirnar áfram eftir Kringlumýrarbraut.
Fimmti og síðasti valkosturinn fjallar þá um hvernig Borgarlínan fer frá BSÍ að Fríkirkjuvegi. Annar möguleikinn væri að línan lægi eftir Sóleyjargötu en hinn möguleikinn er að Borgarlínan fari eftir Hringbraut, fram hjá Háskóla Íslands og eftir Suðurgötu og yfir Tjörnina á Skothúsvegi.
Í tillögunum er gert ráð fyrir að ein leið liggi út á Kársnes og þveri svo Fossvoginn að Háskólanum í Reykjavík og gangi svo yfir Vatnsmýrina þar sem Reykjavíkurflugvöllur er nú. Í aðalskipulagi Reykjavíkur er gert ráð fyrir blandaðri byggð í Vatnsmýrinni og að flugvallarstarfsemin hverfi þaðan.
Kostnaðurinn mikill
Kostnaðurinn við Borgarlínuna verður mikill, enda er þetta einhver róttækasta samgönguáætlun sem ráðist hefur verið á Íslandi. Áformað er að taka fyrsta áfanga í notkun árið 2022.
Á vef samtaka sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu segir að áætlaður kostnaður við innviði Borgarlínuna sé um 1,10 til 1,15 milljarður króna fyrir hvern kílómetra sem lagður verður, miðað við verðlag í janúar 2017. Lengd kerfisins verður allt að 57 kílómetrar og heildarkostnaðurinn getur því að endingu numið 63 til 70 milljörðum króna.
Áætlaður kostnaður við innviði Borgarlínuna sé um 1,10 til 1,15 milljarður króna fyrir hvern kílómetra sem lagður verður, miðað við verðlag í janúar 2017.
Jón Gunnarsson samgönguráðherra hefur lýst vilja íslenskra stjórnvalda til þess að koma að kostnaði við Borgarlínu með sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnið er hins vegar ekki á fjármálaáætlun stjórnvalda og enn hefur ekki hafist samtal um aðkomu ríkisins að verkefninu. Jón sagði í samtali við Morgunblaðið í byrjun maí að skoða verði aðra kosti samhliða Borgarlínunni.
„Í ljósi þess hve kostnaðarsöm borgarlína yrði, þá tel ég eðlilegt að einnig yrði skoðað í hvaða endurbætur á stofnbrautum mætti ráðast fyrir sömu fjárhæð og stórbæta jafnframt umferðarflæði,“ er haft eftir í Jóni í Morgunblaðinu 6. maí síðastliðinn.
Vegna Borgarlínunnar má búast við miklum framkvæmdum á helstu samgönguæðum höfuðborgarsvæðisins enda fylgja þessu kerfi heilmiklar breytingar á gatnakerfi og á nánasta umhverfi þeirra leiða sem kerfið liggur um.
Til innviðanna teljast til dæmis stoppistöðvar, vagnar, slitlag og/eða járnbrautarteinar, hljóðvistarbyggingar og svo framvegis.
Samgönguvandinn leystur í blönduðu kerfi
Markmiðið með kortlagningu og ákvörðunum um legu Borgarlínunnar er að undirbúa nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Tilgangurinn er að taka frá svæði í langtímaskipulagi borgarlandsins fyrir þessa samgönguæð.
Ljóst er að til langs tíma verður ekki hægt að leysa samgöngumál höfuðborgarsvæðisins með annað hvort öflugri almenningssamgöngum eða öflugra gatnakerfi. Samspil þessara tveggja lausna þarf að koma til svo hægt sé að skapa greiðfært kerfi.
Ástæða þess að sveitarfélögin hafa lagt svo mikla áherslu á uppbyggingu öflugs og afkastamikils almenningssamgöngukerfis í stað þess að reyna að leysa bílaumferðarhnúta eru þær raunir sem borgir víða um heim hafa gengið í gegnum. Sem dæmi má nefna bandarískar borgir sem í dag súpa seyðið af ofuráherslu fyrri tíðar á gatnasamgöngur á kostnað almenningssamgatna.
Umferðarhnútar í margra hæða mislægum gatnamótum þar sem fjölmargar akreinar úr báðum áttum mætast eru daglegt brauð í stóru bílaborgum Bandaríkjanna. Þar þykir það sannað að fleiri akreinar leysa ekki vandann heldur auka flækjuna enn frekar.
Þá spila sjónarmið um betri loftgæði og umhverfismál inn í aukna áherslu borga víða um heim á öflugri almenningssamgöngur.
Áætlað er að ferðatími geti að óbreyttu aukist um allt að 65% og umferðatafir um rúmlega 80%.
Ef ferðavenjur íbúa og ferðamanna haldast óbreyttar mun fjölgun fólks valda erfiðleikum í samgöngum og auknum töfum á umferðinni, þrátt fyrir miklar fjárfestingar í nýjum umferðarmannvirkjum. Áætlað er að ferðatími geti að óbreyttu aukist um allt að 65 prósent og umferðatafir um rúmlega 80 prósent.
Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa viðurkennt að almenningssamgöngur gegna mikilvægu hlutverki fyrir íbúa svæðisins. Borgarlínan mun þess vegna teygja sig í gegnum öll sveitarfélögin sem taka þátt í verkefninu. Það eru Mosfellsbær, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður.
Gert er ráð fyrir mikilli ferðatíðni þar sem vagnar fara um stöðvar á allt að fimm til sjö mínútna fresti. Biðstöðvarnar verða yfirbyggðar með farmiðasjálfsölum og upplýsingaskiltum í rauntíma um hvenær næsti vagn kemur. Ekki ósvipað sporvagnakerfum í höfuðborgum evrópskra nágrannalanda okkar.
Ekki liggur enn fyrir hvaða samgöngutækni muni drífa Borgarlínuna á endanum. Hrafnkell Proppé, svæðisskipulagsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, var gestur í hlaðvarpsþættinum Aðförin í mars þar sem hann ræddi hvort Borgarlínan yrði lestarkerfi eða strætisvagnakerfi.
„Það mun fara fram ákveðið val. Í því höfum við samt reynt að hafa fókus á því að við þurfum að taka frá rými fyrir massaflutninga og við getum ekki nákvæmlega sagt um það í dag hvaða tæknilausnir verða mögulegar í framtíðinni,“ útskýrði Hrafnkell.
Það gæti vel verið að sjálfakandi strætislestir á gúmmíhjólum verði sú lausn sem verið fyrir valinu. Einnig skiptir máli hvaða áhrif tæknin mun hafa á umhverfi sitt; það er öðruvísi hljóðmengun sem hlýst af vögnum á gúmmíhjólum og sporvögnum.