1.www.btb.is
Frumkvöðull í því að setja upp umfangsmikið vefsvæði til að koma á framfæri sinni hlið á álitamálum tengdum hruninu var Björgólfur Thor Björgólfsson. Hann setti í loftið vefsíðuna btb.is þann 19. ágúst 2010, þar sem hann birti gögn yfir öll sín viðskipti á Íslandi aftur til ársins 2002. Auk þess var greint frá því á þeim tíma að síðan myndi verða einskonar bloggsíða Björgólfs Thors þegar hann fyndi hjá sér tilefni til að koma á framfæri upplýsingum við Íslendinga. Síðan var sett í loftið fjórum mánuðum eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 var gerð opinber. Þar var Björgólfur Thor og viðskipti hans og lántökur til umfjöllunar.
Á síðunni er einkavæðingaferli Landsbankans rakið með gögnum, tæpt á starfsháttum Landsbanka Íslands eftir að Björgólfur Thor og viðskiptafélagar hans urðu kjölfestueigendur bankans Straums-Burðaráss rakin, farið yfir aðkomu Björgólfs Thors að Actavis frá upphafi og birt yfirlit yfir önnur viðskipti Björgólfs Thors á Íslandi. Þá fer Björgólfur Thor vitanlega yfir hrunið, líkt og hann upplifði það.
Síðan er enn virk tæpum sjö árum eftir að hún var sett í loftið. Á árinu 2016 voru alls settar inn tíu færslur, flestar frekar langar og ítarlegar. Síðasta færslan mar sett inn í lok mars síðastliðins í kjölfar þess að skýrslan um Hauck & Aufhäuser fléttuna var gerð opinber.
Björgólfur Thor hefur ekki verið ákærður í neinu hrunmáli. Hópur fyrrverandi hluthafa í Landsbanka Íslands lét reyna á hópmálsókn gegn Björgólfi Thor og sakaði hann um að hafa leynt upplýsingum um eignarhald sitt á bankanum. Málinu var vísað frá í Hæstarétti í fyrra. mögulegt er að reynt verði að stefna Björgólfi á nýjan leik þannig að málið verði dómtækt. Ekki er til sérstök Facebook-síða fyrir btb.is.
2. www.einsaer.is
Þann 18. september fór í loftið vefsíðan einsaer.is. Eina efnið á henni er hugleiðing um refsidóm sem lögmaðurinn Bjarnfreður Ólafsson hlaut, auk ítarefnis sem höfundur hugleiðingarinnar, Bjarnfreður sjálfur, telur að styðji við málflutning sinn.
Bjarnfreður var dæmdur í sex mánaða fangelsi í Hæstarétti 13. mars 2014, þar af þrjá skilorðsbundna, og missti lögmannsréttindi sín í eitt ár. Hann var dæmdur fyrir að hafa sent ranga tilkynningu til fyrirtækjaskrár í hinu svokallaða Exista-máli. Þá var tilkynnt um hlutafjáraukningu upp á 50 milljarða í lok árs 2008, en aðeins var greitt fyrir það um einn milljarður króna.
Lýður Guðmundsson fjárfestir, oft kenndur við Bakkavör, var einnig dæmdur í málinu, í átta mánaða fangelsi. Þar af voru fimm mánuðir skilorðsbundnir. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður dæmt Lýð til að greiða tveggja milljóna króna sekt. Bjarnfreður var hins vegar sýknaður af sínum þætti málsins í héraði.
Bjarnfreður fékk lögmannsréttindi sín aftur vorið 2015. Ekki er til Facebook-síða fyrir einsaer.is.
3. www.dagsljos.is (1.050 like á Facebook)
Í byrjun júlí 2016 var sett í loftið vefsíðan Dagsljós.is. Um var að ræða samstarfsverkefni Hreiðars Más Sigurðssonar, Sigurðar Einarssonar, Magnúsar Guðmundssonar og Ólafs Ólafssonar sem allir hlutu þunga dóma í svokölluðu Al-Thani máli. Á síðunni segir að þeir hafi allir „stöðugt haldið fram sakleysi sínu og er málið til rannsóknar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu sem hefur krafið íslensk stjórnvöld svara vegna málsmeðferð saksóknara og dómstóla í Al-Thani málinu.“
Freyr Einarsson, fyrrverandi yfirmaður sjónvarps, frétta og íþrótta hjá 365, var fenginn til að halda utan um verkefnið fyrir fjórmenninganna. Í samtali við Kjarnann sagði Freyr: „Þetta verður hugsað sem gagnaveita. Við erum að byggja upp ákveðinn gagnagrunn með þeim mikla fjölda gagna sem tilheyra í málinu og vonast til þess í leiðinni að ný gögn líti dagsins ljós.“ Næstu mánuði fór mikið fyrir Dagsljósi. Tugir frétta voru birtar og stuðningsgreinar við málstað mannanna sem birtar voru í öðrum fjölmiðlum voru endurbirtar á síðunni.
Í kringum fréttaflutning af fjárfestingum dómara við Hæstarétt, í desember 2016, birtust á annan tug frétta á síðunni bara um það mál. Síðasta frétt sem birtist á Dagsljósi var birting á endurupptökubeiðni Magnúsar Guðmundssonar í Al-Thani málinu eftir að endurupptöku allra sem sóttust eftir slíkri í málinu var hafnað. Það gerðist í byrjun mars 2017. Síðasta deiling á frétt á Facebook-síðu Dagsljós, sem var mjög virk um tíma, átti sér stað 16. mars. Síðan þá hefur ríkt algjör þögn á síðunni og á Facebook-síðu hennar (1.050 like).
4. www.söluferli.is (9 like á Facebook)
Almannatengslafyrirtækið KOM gerði vefsíðuna Söluferli.is fyrir athafnamanninn Ólaf Ólafsson vegna rannsóknar nefndar á þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum. Lénið var skráð í lok nóvember 2016, áður en Ólafur, sem leiddi S-hópinn, hafði gefið skýrslu fyrir nefndinni. Síðan var hins vegar ekki sett í loftið fyrr en 17. maí, sama dag og Ólafur kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að svara spurningum vegna skýrslunnar.
Rannsóknarnefnd sem rannsakaði aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupum á 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum í janúar 2003 skilaði af sér skýrslu 29. mars síðastliðinn. Helstu niðurstöður nefndarinnar voru þær að stjórnvöld, almenningur og fjölmiðlar hefðu verið blekktir við söluna. Ítarleg gögn sýni með óyggjandi hætti að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í Búnaðarbankanum í orði kveðnu.
Á vefsíðunni býður Ólafur upp á aðra skýringu. Á henni er hægt að skoða málið líkt og það horfið við honum. Forsaga þess er rakin, söluferlið, eftirmálar og ýmis gögn birt. Miðpunktur síðunnar er 50 mínútna langt ávarp Ólafs Ólafssonar þar sem hann fer yfir málið eins og það horfir við honum. Kjarninn í þeim málflutningi er að ðkoma erlends fjármálafyrirtækis hafi ekki verið grundvallarforsenda fyrir sölu ríkisins á hlut í Búnaðarbankanum. Þá liggi það fyrir að Hauck & Aufhäuser hafi verið raunverulegur hluthafi í félaginu Eglu, sem var hluti S-hópsins sem keypti ráðandi hlut í bankanum.
Söluferli.is var mjög virk fyrstu daganna eftir að hún fór í loftið en síðan hægðist á flóði frétta. Virknin hefur hins vegar tekið kipp síðustu daga og fjórar fréttir hafa birst á síðustu tíu dögum.
Ekki virðist vera mikill áhugi á Facebook-síðu sem sett hefur verið upp til að deila boðskapi Söluferlis.is. Einungis níu manns hafa líkað við hana þrátt fyrir að keypt hafi verið auglýsing fyrir hana til að gera síðuna sýnilegri.
5. www.jonasgeirjohannesson.is (79 like á Facebook)
Vefsíðan Jónásgeirjóhannesson.is var sett í loftið 18. maí 2017 til að koma á framfæri málflutningi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í ýmsum málum sem að honum snúa. Lén hennar var skráð 31. janúar 2017. Fyrsta færslan sem þar birtist var vegna máls sem Jón Ásgeir og Tryggvi Jónsson unnu gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Niðurstaðan var sú að ekki mætti refsa þeim tvisvar fyrir sama lögbrotið, en í þessu tilfelli hafði þegar verið endurálagt á þá skatta sem ekki voru rétt greiddir og þeir síðan ákærðir og dæmdir fyrir sömu atvik.
Aðrar fréttir sem birtar hafa verið á síðunni snúast um Grím Grímsson, yfirlögregluþjón hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Jón Ásgeir birti opið bréf í Fréttablaðinu, dagblaði sem er að mestu í eigu eiginkonu hans, fyrir þremur árum síðan. Í bréfinu sakaði Jón Ásgeir Grím og annan lögreglumann, Svein Ingiberg Magnússon, um óheiðarleika. Jón Ásgeir sagði mennina tvo hafa farið fremsta í flokki í rannsóknum á sér á undanförnum árum. Orðrétt sagði í bréfinu: „Ég leyfi mér að vona að fleiri jafn óheiðarlegir lögreglumenn fyrirfinnist ekki hér á landi.“ Grímur kom í viðtal á RÚV seint í maí og var þar spurður út í bréf Jóns Ásgeirs. Grímur sagði að hann hafi orðið ósáttur þegar ásökun Jóns Ásgeirs var lögð fram. „Mér líkaði það ekki. Hvorki ég né vinnufélagi minn erum óheiðarlegir og mér líkar það ekki vel þegar slíkt er sagt opinberlega.“
Jón Ásgeir svaraði á nýju vefsíðunni sinni og sagði að Grímur hafi sýnt af sér það sem honum finnst vera „óheiðarleiki á hæsta stigi þegar rannsakendur halda undan gögnum sem benda til sakleysis þeirra sem eru ákærðir. Í Bandaríkjunum gætu slíkir rannsakendur átti yfir höfði sér fangelsisdóma.“
Í byrjun maí var búin til Facebook-síða fyrir Jón Ásgeir sem deilir fréttum um vefsíðunni og öðrum sem tengjast þeim málum sem eru þar til umfjöllunar. Þar var frétt síðast deilt 30. maí. Alls hafa 79 manns líkað við síðuna.
Jón Ásgeir er á meðal þeirra sem ákærðir eru í Aurum-málinu svokallaða. Hann hlaut einnig dóm í Baugsmálinu svokallaða.