Í fyrirspurn til Íþróttasambands Íslands árið 2015 kom það fram að hér á landi væru starfandi 516 íþróttafélög, eða u.þ.b. 1 félag á hverja 640 íbúa. Virkni þeirra og starfsemi er aftur á móti mismikil og flest eru þau bundin við eina ákveðna íþróttagrein. Engu að síður er þetta ótrúlegur fjöldi félaga og má t.d. nefna að í Mývatnssveit þar sem búa um 400 sálir eru 3 íþróttafélög. Áhugi, virkni, félagafjöldi og aðstaða er forsenda árangurs og hér eru þau félög sem hafa skarað fram úr á Íslandi á síðastliðnum 100 árum eða svo.
10. Breiðablik
Ungmennafélagið Breiðablik í Kópavogi (UBK) var stofnað árið 1950 en þá hafði verið mikil ládeyða í íþróttastarfi bæjarins um langa hríð. Breiðablik hefur lengst af verið þekkt sem góður uppeldisklúbbur og lið þeirra hafa unnið ótal titla í yngri flokkum í knattspyrnu. Stjörnur eins og Gylfi Þór Sigurðsson og Alfreð Finnbogason hafa komið upp úr unglingastarfi Blika. En það hefur ekki skilað sér í meistaraflokk karla sem hefur rokkað milli deilda og aðeins unnið Íslandsmeistaratitilinn einu sinni (2010). Árangur kvennaliðsins er hins vegar allt annar. Kvennalið Blika hefur unnið 16 Íslandsmeistaratitla (mest allra) og á árunum 1979 til 2010 lenti liðið aðeins einu sinni neðar en 4. sæti, árið 1987 þegar þær féllu óvænt um deild. Árið 2007 komst liðið í 8-liða úrslit Evrópukeppninnar en töpuðu þar fyrir verðandi meisturum Arsenal. Margar af bestu knattspyrnukonum Íslands spiluðu með Blikum á gullaldarárunum, t.d. Olga Færseth og Ásthildur Helgadóttir. Blikakonur hafa einnig unnið einn titil í körfubolta, árið 1995. Í Kópavogi búa rúmlega 33.000 manns. Breiðablik er staðsett í Smárahverfinu og fær stuðning úr vesturhluta bæjarins en HK úr austurhlutanum.
9. Mjölnir
Mjölnir sem sérhæfir sig í bardagaíþróttum opnaði nýverið æfingaaðstöðu í Öskjuhlíðinni (gömlu Keiluhöllinni). Félagið var stofnað árið 2005 og hefur starfsemi þess verið víðs vegar síðan þá, lengst af í Loftkastalanum. Hjá félaginu er hægt að æfa t.d. hnefaleika, kickbox og brasilískt jiu-jitsu en blandaðar bardagalistir (MMA) er það sem hefur komið félaginu á kortið. Stór þáttur í velgegni félagsins er árangur Gunnars Nelson, atvinnumanns í MMA, og tengslanna við heimsmeistarann Conor McGregor sem iðulega æfir hjá Mjölni. Fjöldi iðkenda hefur rokið upp og telur nú um 1400 manns. Yngri stjörnur eru farnar að láta ljós sitt skína eins og t.d. Sunna Davíðsdóttir sem hefur nú þegar unnið tvo bardaga sem atvinnumaður. MMA kemst í reglulega í þjóðmálaumræðuna (yfirleitt eftir bardaga Gunnars) og heyrast þá oft gagnrýnisraddir. Íþróttin er eins og er ekki lögleg hér á landi sem keppnisgrein, en miðað við áhuga almennings er líklegt að það breytist á næstu árum. Mjölnismenn sitja ekki einir að kötlunum því stofnuð hafa verið MMA félög í Kópavogi (VBC) og á Akureyri (Fenrir).
8. Fram
Nokkrir unglingspiltar tóku sig saman og stofnuðu knattspyrnufélagið Fram árið 1908. Liðið vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil 5 árum seinna án þess að spila leik. Vegna deilna um fyrirkomulag mótsins var Fram eina liðið í deildinni og ári seinna vörðu þeir titilinn með sama hætti. Þó að Fram hafi fengið fyrstu titlana gefins voru þeir yfirburðalið á upphafsárum Íslandsmótsins og unnu alls 10 titla til ársins 1925. Alls hefur Fram unnið 18 titla en kvennaliðið engan og hefur ekki verið í efstu deild í 30 ár. Kvennaliðið í handknattleik er hins vegar það sigursælasta af öllum með 21 titil, þar af 13 á árunum 1974 til 1990. Tilraunir voru gerðar með körfuknattleik og blak en nú er þar starfrækt blómleg taekwondo og skíðadeild. Fram var upprunalega miðbæjarlið í Reykjavík en árið 1972 fluttu þeir í Safamýrina. Laugardalurinn og Bústaðahverfið hafa verið bækistöðvar Framara en þeir hafa þurft að deila svæðinu með Þrótti og Víkingi. Það hefur staðið til að flytja liðið austur í Grafarholt (íbúafjöldi ca 7.000) og félagið hefur þegar komið þar upp íþróttaskóla.
7. Keflavík
Ungmennafélag Keflavíkur (UMFK) var stofnað árið 1929 og Knattspyrnufélag Keflavíkur (KFK) árið 1950. Frá árinu 1956 kepptu liðin undir fána Íþróttabandalags Keflavíkur (ÍBK) og núverandi félag var stofnað árið 1994 við sameiningu sveitarfélaga á norðanverðu Reykjanesi. Karlaliðið í knattspyrnu átti sinn stórveldistíma á sjöunda og áttunda áratugnum þegar það vann 4 titla en félagið er fyrst og fremst þekkt fyrir körfuknattleik. Á upphafsárum körfuknattleiksdeildarinnar í kringum 1950 voru starfsmenn Keflavíkurflugvallar öflugastir og 40 árum síðar hófst sigurganga ÍBK. Karlaliðið hefur nú unnið alls 9 Íslandsmeistaratitla og kvennaliðið 16 titla (mest allra liða). Erkifjendurnir af Suðurnesjum, Njarðvík og Grindavík, hafa þó veitt þeim mikla samkeppni síðustu áratugi. Íþrótta og ungmennafélag Keflavíkur starfrækir fleiri deildir s.s. í blaki, fimleikum og sundi. Þá er skotfimideildin þeirra ákaflega sterk. Í Reykjanesbæ búa rúmlega 15.000 manns en Í Keflavík sjálfri rúmlega 8.000.
6. ÍBV
Hart var barist þegar knattspyrnuliðin Þór og Týr tókust á í Vestmannaeyjum um áratuga skeið. En leikmenn sneru bökum saman þegar þeir öttu kappi við landkrabbana. Árin 1903 til 1945 hét sameiginlegt lið þeirra Knattspyrnufélag Vestmannaeyja (KV) en eftir stríð hét það Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV). ÍBV er bandalag margra smærri íþróttafélaga (sund, golf, blak o.fl.) en knattspyrnufélögin tvö voru lögð niður árið 1996. Knattspyrna er það sem Eyjamenn eru langþekktastir fyrir. Í þrígang hefur karlaliðið hampað Íslandsmeistaratitlinum, þar af tvö ár í röð 1997 og 1998. Hermann Hreiðarsson og Margrét Lára Viðarsdóttir eru meðal landsþekktra leikmanna úr Eyjum. Þá spilaði David Moyes, fyrrum stjóri Everton og Manchester United með liðinu sumarið 1978 og David James, fyrrum landsliðsmarkvörður Englands, sumarið 2013. Sigursælasta lið ÍBV er þó kvennaliðið í handknattleik sem varð meistari í fjórgang á árunum 2000 til 2006. Hinn góða árangur Eyjamanna má að miklu leyti þakka stuðningsmönnunum. Í Eyjum búa aðeins rúmlega 4.000 manns en ákaflega góð mæting er á alla leiki ÍBV, bæði í Eyjum og uppi á landi.
5. ÍA
Knattspyrnuhefð Skagamanna er hálfótrúleg í ljósi þess að einungis tæplega 7.000 manns búa í bænum. “Skagamenn skoruðu mörkin” og “gulir og glaðir” eru hugtök sem flestir landsmenn þekkja. Liðið hefur einnig löngum verið það viðkunnanlegasta frá sjónarhóli hlutlausra. Liðið var stofnað árið 1946 þegar Knattspyrnufélag Akraness (KA) og Knattspyrnufélagið Kári sameinuðust undir merkjum Íþróttabandalags Akraness (ÍBA). 40 árum seinna voru þau að fullu sameinuð í ÍA. Skaginn varð fyrsta liðið utan Reykjavíkur til að vinna Íslandsmeistaratitilinn árið 1951. Þrenn gullaldarskeið runnu svo upp á Akranesi á sjötta, áttunda og tíunda áratugnum. Liðið hefur alls unnið 18 Íslandsmeistaratitla í karlaflokki, þar af 5 í röð 1992-1996, og 3 í kvennaflokki. Sumir segja að árangrinum sé krefjandi æfingum á Langasandi að þakka. Knattspyrna er þó ekki það eina sem Skagamenn stunda. ÍA býður m.a. upp á körfuknattleik, blak, kraftlyftingar, keilu og hnefaleika. Þá er einstaklega sterk sunddeild á staðnum.
4. Stjarnan
Ungmennafélagið Stjarnan, sem stofnuð var árið 1960 í Garðabæ, var lengi vel félag sem gerði ekki mikinn usla í íslensku íþróttalífi. En á síðustu árum hefur orðið alger sprengja í starfinu hjá þeim og árangurinn sést hjá þeim liðum teflt er fram. Í knattspyrnu hefur kvennaliðið þeirra unnið 4 titla á síðustu 6 árum. Karlaliðið vann sinn fyrsta titil árið 2014 eftir frækinn sigur gegn FH í Kaplakrika í lokaumferðinni þar sem sigurmarkið kom í uppbótartíma. Þetta sama ár fór liðið langt í Evrópudeildinni og spilaði m.a. við stórliðið Inter Milan. Á leiðinni lærðu þeir hið fræga víkingaklapp af stuðningsmönnum skoska liðsins Motherwell. Þá hefur kvennalið Stjörnunnar í handknattleik unnið alls 7 Íslandsmeistaratitla. Framtíðin er björt því að í dag er félagið það eina á landinu sem á lið í efstu deild í knattspyrnu, handknattleik og körfuknattleik, bæði í karlaflokki og kvennaflokki. Félagið skartar einnig sterkri fimleikadeild sem hefur unnið ótal titla. Í Garðabæ búa nú rúmlega 15.000 manns. Bróðurparturinn af bænum styður Stjörnuna en um 2.500 búa á Álftanesi sem hefur eigið ungmennafélag.
3. Valur
Fótboltafélag KFUM, seinna Valur, var stofnað árið 1911 fyrir tilstuðlan sér Friðriks Friðrikssonar. Félagið hóf göngu sína í vesturbænum en árið 1939 settust Valsmenn að við rætur Öskjuhlíðar. Starfið hefur að mestu leyti verið bundið við boltaíþróttirnar en tilraunir hafa verið gerðar með aðrar greinar, s.s. skíði og badminton. Valsmenn eiga samanlagt 30 titla í knattspyrnu karla og kvenna og mesti stórveldistími karlaliðsins var á árunum 1930-1945 þegar liðið vann 11 titla. Valur er þó frekar þekkt fyrir handknattleikslið sín. Kvennalið þeirra vann 10 titla árin 1964-1975 og karlaliðið hefur unnið alls 22 titla, fleiri en nokkurt annað félag. Valsliðið á tíunda áratugnum sem innihélt m.a. Ólaf Stefánsson, Geir Sveinsson og Dag Sigurðsson er oft talið það besta í sögunni. Körfuboltastarfið hefur setið eftir en engu að síður hefur Valur orðið meistari í tvígang í karlaflokki. Hjarta Vals er í hlíðunum en miðbærinn telst einnig vera svæði þeirra að mestu. Alls búa um 20 þúsund manns á svæðinu.
2. FH
Það var að undirlagi Hallsteins Hinrikssonar íþróttakennara að Fimleikafélag Hafnarfjarðar (FH) var stofnað árið 1929 sem klofningur úr hinu nú horfna Íþróttafélagi Hafnarfjarðar (ÍH). Auk fimleika var lögð áhersla á frjálsar íþróttir í upphafi. Fimleikastarfið dó út (og var yfirtekið af kvennafélaginu Björk) en félagið hélt þó nafninu af sögulegum ástæðum. Þess í stað varð handknattleikur flaggskip félagsins. Með kempur á borð við Geir Hallsteinsson, Kristján Arason og Þorgils Óttar Mathiesen í fararbroddi vann liðið 16 Íslandsmeistaratitla í karlaflokki auk þriggja í kvennaflokki. Karlaliðið í knattspyrnu var mikill eftirbátur framan af og komst ekki í efstu deild fyrr en árið 1979. Mikið gullaldarskeið rann hins vegar í garð í upphafi 21. aldarinnar og hefur liðið nú unnið 8 Íslandsmeistaratitla á 13 árum. Samfara því hefur frjálsíþróttadeildin vaxið gríðarlega og er nú sú sterkasta á landinu. Í Hafnarfirði búa nú um 28 þúsund manns og FH er staðsett í norðurhluta bæjarins en erkifjendurnir Haukarnir í suðrinu.
1. KR
Knattspyrnufélag Reykjavíkur (KR) er það lið sem fólk annað hvort elskar eða hatar, sennilega vegna árangursins. Það var stofnað árið 1899 sem Fótboltafélag Reykjavíkur (FR) og voru krýndir fyrstu Íslandsmeistararnir í knattspyrnu karla árið 1912. Síðan hafa þeir unnið alls 26 deildartitla, fleiri en nokkuð annað félag, auk 6 titla í kvennaflokki. Þó runnu upp 30 titlalaus ár milli 1968 og 1999. Vert er að nefna að KR hefur spilað gegn báðum bítlaborgarfélögunum, Liverpool og Everton, í Evrópukeppni. KR er auk þess sterkasta körfuknattleiksfélag landsins með 16 titla í karlaflokki, þar af síðustu 4, og 14 í kvennaflokki. Handknattleiksdeildin hefur verið mikill eftirbátur en félagið er sterkt á mörgum öðrum sviðum. Má þar helst nefna frjálsar íþróttir og glímu þar sem hinn goðsagnakenndi Sigtryggur Sigurðsson keppti undir fána KR. Félagið hefur aðsetur í vesturbæ Reykjavíkur þar sem um 17.000 manns búa og er það vinsælasta á öllu landinu. Hinar frægu hvítu og svörtu rendur félagsins voru fengnar að láni frá enska knattspyrnuliðinu Newcastle United.