Föstudaginn 23. júní tilkynnti Seðlabanki Íslands um lokauppgjör um kaup á aflandskrónum. Niðurstaðan var sú að eigendur alls 88 milljarða króna í slíkum krónum sögðu nei takk við tilboði Seðlabankans. Þeir vilja frekar geyma krónurnar hérlendis.
Þann 12. mars tilkynnti Seðlabankinn að hann hefði náð samkomulagi við hluta aflandskrónueigenda um að kaupa krónurnar af þeim á genginu 137,5 krónur fyrir hverja evru. Eigendur um 90 milljarða króna tóku því tilboði en eigendur um 110 milljarða kóna höfnuðu því. Seðlabankinn bauð þá eftirlegukindunum sömu kjör og ítrekaði það boð tvívegis, þann 4. apríl og 5. maí. Fresturinn til að ganga að tilboðinu rann út 15. júní og þá kom í ljós að Seðlabankanum hafði einungis tekist að kaupa 22,4 milljarða króna í viðbót. Eigendur þorra þeirra aflandskróna sem enn eru í íslensku hagkerfi, alls 88 milljarða króna, höfnuðu tilboðinu.
Afarkostir sem ekki var staðið við
Spólum enn lengra til baka. Þegar íslensk stjórnvöld tilkynntu um stór skref í átt að losun hafta sumarið 2016 var digurbarkalega sagt að meðal annars ætti að leysa aflandskrónuvandann. Hann var þá um 319 milljarðar króna. Þeir afarkostir voru þannig að annað hvort myndu þeir sætta sig við það gengi sem Seðlabanki Íslands bauð þeim fyrir krónurnar þeirra eða að eignir þeirra yrðu settar inn á nær vaxtalausa reikninga í refsingarskyni og þeim færu aftast í röðina þegar kæmi að því að fá að yfirgefa íslenskt efnahagskerfi eftir losun hafta.
Í kjölfarið var hlaðið í aflandskrónuútboð þar sem eigendum krónanna, sem voru að mestu bandarískir fjárfestingarsjóðir, bauðst að selja þær á 190 krónur fyrir hverja evru. Skráð gengi evru var á þeim tíma 138,6 krónur og því var ljóst að ríkið ætlaðist til þess að viðkomandi sjóðir myndu taka á sig töluvert högg gegn því að fá að fara út með krónurnar.
Skemmst er frá því að segja að flestir aflandskrónueigendurnir neituðu að taka þátt. Líkt og sagt er á pókermáli þá „kölluðu“ þeir hótun íslenskra stjórnvalda og ákváðu frekar að spila áfram til að sjá hverju það myndi skila þeim. Fjárhæð samþykktra tilboða í báðum útboðunum var 83 milljarðar króna sem þýddi að þorri eigenda krónanna fannst tilboðið ekki ásættanlegt.
Ákvörðun sem margborgaði sig
Þann 12. mars 2017 var svo blásið til blaðamannafundar. Foringjar nýrrar ríkisstjórnar, sem hafði tekið við völdum tveimur mánuðum áður, tilkynntu hróðugir að þeir ætluðu að afnema höft. Það var var reyndar aðeins ofsögum sagt, þótt höft hafi verið losuð að mestu þá eru slík enn við lýði, t.d. takmarkanir á ráðstöfun aflandskróna.
Samtímis var tilkynnt um að samið hefði verið við hluta aflandskrónueigenda um að kaupa krónur þeirra á 137,5 krónur á hverja evru. Um var að ræða eigendur um 90 milljarða króna. Ljóst var að ákvörðun þeirra um að hafna þátttöku í útboðunum sem fram fóru sumarið 2016 hafði margborgað sig. Ávinningur þeirra í evrum talið var 38 prósent. Þ.e. þeir fengu um 38 prósent fleiri evrur fyrir krónurnar sínar en þeir hefðu fengið ef sjóðirnir hefðu tekið tilboði Seðlabanka Íslands í fyrrasumar. Þeir höfðu þegar mokgrætt á því að hafna tilboðinu.
Raunar hefur krónan styrkst svo mikið síðan þá að skráð gengi Seðlabanka Íslands á þeim tíma sem útboðið fór fram, sem var 16. júní 2016, var 138,6 krónur gagnvart evru. Það þýddi að vogunarsjóðirnir sem eiga þessar krónueignir fengu fleiri evrur fyrir krónurnar sínar en ef þeir hefðu fengið að skipta þeim í banka síðastliðið sumar.
Líklega eitthvað tilkynnt á þessu ári
Ekki voru þó allir tilbúnir til að taka þessu tilboði. Eigendur um 105 milljarða króna sögðu áfram beint út nei, við munum ekki semja um að gefa afslátt af eignum okkar. Krónan hafði enda styrkst mikið og væntingar eru til þess að sú styrking haldi áfram. Erfitt er að sjá hvar í heiminum þessir fjárfestar gætu fengið betri ávöxtun á peninganna sína og þess vegna voru þeir bara tilbúnir til að bíða áfram. Sjá hvað myndi gerst. Í versta falli tækju þeir út meiri gengisstyrkingu.
Á blaðamannafundinum hróðuga þann 12. mars var greint frá því að þeim aflandskrónueigendum sem ekki höfðu tekið tilboði stjórnvalda stæði til boða að taka því í tvær vikur til viðbótar. Þeir gætu sem sagt selt krónurnar sínar á genginu 137,5 krónur á hverja evru.
Þegar þær tvær vikur voru liðnar var tímafresturinn lengdur. Og á endanum varði hann til 15. júní, eða í rúma þrjá mánuði. Þessi skortur á staðfestu var ekki til að auka trúverðugleika Seðlabanka Íslands í málinu. Á endanum skilaði þessi bið litlu. Flestir aflandskrónueigendurnir sem ósamið var við sögðu áfram nei takk. Enn standa eftir 88 milljarðar króna af aflandskrónum og eru ekkert að flýta sér út úr íslenskri efnahagslögsögu.
Og þeir fengu ágætis staðfestingu á því að þeir þyrftu ekkert að vera að hugsa um tilboð stjórnvalda, og það að gefa eftir hluta eigna sinna, þann 9. maí þegar Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, sagði í samtali við Reuters að það væri nauðsynlegt að breyta lögum til að losa um þær aflandskrónur sem enn sitja eftir. „Líklega mun ríkisstjórnin tilkynna um eitthvað síðar á þessu ári,“ sagði Guðrún. Í ljósi þess að skráð gengi evru hjá Seðlabanka Íslands er um 118 krónur er ólíklegt að aflandskrónueigendur samþykki tilboð um að gefa 16,5 prósent af eignum sínum eftir þegar fyrir liggur að stjórnvöld ætli að losa um hömlur á þær síðar á þessu ári.
Pólitískt mál
Aflandskrónumeðferðin er líka hápólitískt mál. Daginn eftir haftalosunarblaðamannafundinn, þann 13. mars 2017, hélt Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, ræðu á Alþingi. Þar sagði hann að mögulegt hefði verið að þurrka upp aflandskrónuvandann í kringum útboðið sem Seðlabankinn hélt um mitt síðasta ár, með því að lækka gengið aðeins. Það hafi ekki verið gert og nú sé hægt að sjá það glöggt að skynsamlegt hefði verið að gera það. „Í ráðuneytinu heyri ég að líklegt sé að á þeim tíma hefði verið hægt að þurrka snjóhengjuna svonefndu upp að mestu leyti ef gengið hefði verið á milli 165 og 170 krónur á evru. Nú sjáum við glöggt að skynsamlegt hefði verið að ljúka viðskiptunum á því gengi. Þáverandi stjórnvöld ákváðu að gera það ekki. Kannski vegna þess sjónarmiðs að með því hefði verið gert allt of vel við aflandskrónueigendur. Eftir á sjá allir að Íslendingar hefðu grætt mjög mikið á því að ljúka dæminu þá, en menn misstu af því tækifæri.“
Þetta er pólitískt viðkvæmt í ljósi þess að fyrirrennari Benedikts í starfi er Bjarni Benediktsson, núverandi forsætisráðherra og sá sem leiðir ríkisstjórnina ásamt Benedikt.
Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, lagði skriflega fyrirspurn fyrir Benedikt um málið sem hann svaraði í byrjun maí. Þar sagði hann enga rannsókn vera hafna á því af hverju Bjarni hafi ekki „nýtt tækifærið“ í fyrra til að leysa vandann á þeim forsendum sem Benedikt talaði um í ræðu sinni 13. mars. Hann sagði enga slíka rannsókn heldur vera í farvatninu.