„Við heyrum sömu raddirnar alls staðar þessi misserin. Ferðamenn eru að spara, og skýr merki samdráttar hjá mörgum,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Veitingastaðir, hótel og verslanir hafa sömu sögu að segja í samtölum við Kjarnann; svo virðist sem verulega sé farið að hægja á ferðaþjónustunni eftir gríðarlegan uppgang síðustu ára. Jafnvel þó mikil fjölgun hafi orðið á komum ferðamanna milli ára, þá hefur neysla þeirra dregist saman og þeir dvelja skemur á landinu.
Krónan versti óvinurinn
Mikil og hröð styrking krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum, á undanförnu ári, hefur haft mikil áhrif á greinina, að sögn Helgu. „Þegar þróunin er svona hröð í þessa átt, þar sem Ísland verður allt í einu mjög dýrt í alþjóðlegum samanburði, þá getur samkeppnisstaða landsins versnað og alvarleg staða komið upp,“ segir Helga.
Á dögunum fundaði sérfræðingur frá einu stærsta bókunarfyrirtæki heims, Expedia, með íslenskum aðilum úr ferðaþjónustunni, og sýndu gögn frá fyrirtækinu, sem sýna áhuga notenda á bókunarsvæðum, að horfur hafa farið hratt versnandi. Þetta var eins konar hitakort, og mátti glögglega sjá á þessum gögnum að áhuginn á Íslandi fer minnkandi, miðað við stöðuna eins og hún hefur verið undanfarin ár.
Áhugi hefur hins vegar aukist jafnt og þétt á Noregi og Skotlandi, sem bjóða fjölbreytta útivistartengda ferðaþjónustu, svipað og býðst á Íslandi.
Helga segir að það sé eins með ferðaþjónustuna og allar aðrar atvinnugreinar; ef verð og gæði fara ekki saman, meðal annars vegna mikilla sveiflna á genginu, þá geti afleiðingarnar orðið alvarlegar.
Að undanförnu hafa sést tölur sem staðfesta tilfinningu margra viðmælenda Kjarnans, um að ferðaþjónustan sé að upplifa samdrátt víða, eins og sést í breyttu neyslumynstri frá því áður var.
Víða á landsbyggðinni hafa fyrirtæki upplifað töluverðan samdrátt frá því í fyrra.
Minni eyðsla
Rannsóknarsetur verslunarinnar birti kortaveltu erlendra greiðslukorta fyrir maímánuð á dögunum, en hún nam 21,3 milljörðum króna samanborið við 19,9 milljarða í maí í fyrra. Veltan hefur því aukist um 7,1%, en til samanburðar jókst veltan í apríl um 27,7% miðað við apríl í fyrra.
Mestur var samdrátturinn í kortaveltu gjafa- og minjagripaverslunar, en hann var um 18,9% milli ára. Mesta aukningin var hins vegar í kortaveltu farþegaflutninga, en hún jókst um 22,7% milli ára. Langstærsti liðurinn innan þess flokks er farþegaflug, en hluti erlendrar starfsemi innlendra flugfélaga er meðtalinn í reikningunum.
Þá hefur Bretum fækkað mikið frá fyrra ári, og má gera ráð fyrir að mikil veikning pundsins gagnvart helstu viðskiptamyntum, í kjölfar Brexit, hafi haft þar mikil áhrif.
Ferðamenn frá Bandaríkjunum eru langfjölmennasti hópur ferðamanna, og hefur þeim haldið áfram að fjölga mikið milli ára. En eins og áður segir, þá eru blikur á lofti í greininni.