Verðlag í Reykjavík telst með því hæsta í heimi, samkvæmt þremur alþjóðlegum mælikvörðum á verðlag eftir borgum. Hins vegar er samanburður á verðlagi milli gjaldmiðla og tíma varasamur þar sem miklar breytingar á nafngengi skekkja myndina.
Greint var frá því í hagsjá Landsbankans í dag að Reykjavík sé orðin hlutfallslega dýrari en áður. Borgin er dýrust allra á Norðurlöndum og meira að segja dýrari en New York.
Í greiningunni var notast við gagnagrunn Numbeo sem skoðar ýmsar hagstærðir í 6.500 borgum og ber þær saman. Samkvæmt gagnagrunninum þá er Reykjavík í 8. sæti yfir borgir eftir framfærslukostnaði. Matvara og veitingahúsaþjónusta virðist einnig vera dýr, en borgin er í 8. sæti ef litið er á matarverð og í 4. sæti ef horft er til verð á veitingahúsum.
Eins og segir í greiningunni ber að taka eftirfarandi tölum með fyrirvara, þar sem mismunandi aðferðir eru oft notaðar til þess að bera saman verðlag milli tveggja staða. Samt sem áður virðast aðrir greiningaraðilar vera sammála um að Reykjavík sé meðal dýrustu borga heims.
Aðrar greiningar sammála
Vefurinn Expatistan heldur úti svipuðum gagnagrunni fyrir verðlag á milli borga. Þar er verðlag hverrar borgar áætlað út frá fastri neyslukörfu vöru og þjónustu. Neyslukarfan er sögð sérhæfð fyrir útlendinga sem hyggjast flytja til landsins og gefur því ágæta mynd af því hversu ákjósanleg borgin er fyrir hugsanlega innflytjendur. Samkvæmt þeim gagnagrunni er Reykjavík í 4. sæti yfir dýrustu borgir heimsins, einu borgir sem teljast dýrari en hún eru Zurich, Grand Cayman og Genf.
Greiningardeild tímaritsins The Economist heldur einnig úti verðlagskönnun milli borga, en þar eru verð á yfir 160 vörum í hverri borg borin saman og kostnaðurinn metinn í Bandaríkjadölum. Samkvæmt könnuninni fyrir árið 2017 er Reykjavík 16. dýrasta borg heimsins. Borgin var meðal þeirra sem varð vitni að mestri verðhækkun milli ára, en hún stökk upp um 13 sæti frá síðasta ári.
Ekki fullkominn kvarði
Greining þessara þriggja gagnagrunna er nytsamleg að mörgu leyti. Þótt þær séu framkvæmdar af einkaaðilum og ekki alþjóðlegum samtökum geta þær gefið góða mynd af verðlagsbreytingum milli landa. Hins vegar innihalda kostnaðarkörfurnar gengisbreytingar hverrar heimamyntar þar sem allur kostnaður er birtur í Bandaríkjadölum. Því gagnast mælikvarðinn best þeim sem fá tekjur sínar í erlendum gjaldeyri, helst dollurum.
Eins og segir í hagsjá Landsbankans er enginn samanburður fullkominn og því nær alltaf hægt að benda á atriði sem orka tvímælis. Þar sem umrædd verðhækkun sem átt hefur sér stað í Reykjavík á síðasta ári er að mestu leyti vegna gengisstyrkingar finna íslenskir launþegar ekki fyrir henni. Verðbólga hefur verið lág, kaupmáttur launa aukist og verðlag á matvörumarkaði lækkað hér á landi.