Fátt bendir til þess að fasteignaverð muni halda áfram að hækka á næstu mánuðum, en nokkur merki eru þó komin fram um að markaðurinn sé að „kólna“ frá því sem verið hefur á undanförnu ári
Eins og greint var frá á vef Kjarnans 3. júlí, þá hefur meðalfjöldi auglýstra íbúða á vef mbl.is aukist nokkuð á síðustu mánuðum eftir að hafa minnkað nær stöðugt í þrjú ár. Samhliða því hefur meðaltími íbúðarhúsnæðis á sölu lengst lítillega í apríl og maí síðastliðnum.
Auglýsingum fjölgar
Í nýbirtum hagvísum Seðlabanka Íslands er mánaðarlegt meðaltal auglýsinga á fasteignavef mbl.is tekið saman. Samkvæmt þeim tölum hefur fjöldi fasteigna á sölu lækkað nær jafnt og þétt í takti við aukna spennu á húsnæðismarkaði auk þess sem meðalsölutími íbúðarhúsnæðis hefur lækkað verulega frá 2010.
Tölur sem Þjóðskrá tekur saman, og vinnur upp úr þinglýstum kaupsamningum, sýna að fasteignaverð er enn að hækka hratt. Samkvæmt nýjustu tölum, frá því í júní, hækkaði verð um 1,8 prósent frá fyrra mánuði.
Þar af hækkaði fjölbýli um 2,1% og sérbýli um 0,8%. Samkvæmt tölum Þjóðskrár hefur fjölbýli hækkað um 24,4% á undanförnu ári, sérbýli um 20,6% og er heildarhækkunin 23,5%. Hækkanir síðustu 12 mánaða eru enn miklar og þarf að fara allt aftur til upphafs ársins 2006 til að sjá álíka tölur.
Margar íbúðir að koma á markað
Framboð húsnæðis til sölu er tekið að aukast, eins og áður segir, og útlit fyrir að þúsundir nýrra íbúða muni koma út á markað á næstu tveimur árum. Þörfin á markaðnum á næstu þremur árum hefur verið skilgreind í kringum níu þúsund, en að mati flestra greinenda á fasteignamarkaði, er of lítið framboð, á tímum þar sem eftirspurn hefur verið mikil, mikilvæg ástæða þess að verðið hefur hækkað jafn skarplega og raun ber vitni.
Til marks um hvað hækkunin á fasteignaverði hefur verið hröð, þá má taka mið af dæmigerðum kaupum ungs fólks. Íbúð sem keypt var á 30 milljónir fyrir 18 mánuðum kostar nú 40,5 milljónir og hefur því hækkað um 10 milljónir, eða sem nemur um 550 þúsund krónur á mánuði.