Vinsældir rafbíla hafa vaxið hratt á Íslandi, en mánaðarlegar nýskráningar slíkra bíla hafa nær þrefaldast á einu ári. Samhliða mikilli aukningu mun hraðhleðslustöðvum fjölga um allt land, en útlit er fyrir því að hægt verði að keyra hringveginn á rafbíl fyrir áramót. Búist er við því að hlutdeild raf-og tvinnbíla í bílaflotanum muni aukast enn frekar í framtíðinni þar sem hagkvæmni þeirra á eftir að aukast.
Í lok júní voru hreinir rafbílar orðnir rúmlega 1400 á meðan fjöldi tengil-tvinnbíla er 1700. Þannig eru bílar sem nota hleðslustöðvar á Íslandi (hér nefndir tengibílar) samtals orðnir fleiri en þrjú þúsund, sem er um það bil 1,5% af virkum bílaflota Íslendinga. Mikil aukning hefur átt sér stað í nýskráningum slíkra bíla, en að sögn Sigurðar Inga Friðleifssonar, framkvæmdastjóra Orkuseturs, má vænta enn frekari aukningar á næstu mánuðum með komu fjölda nýrra rafbílategunda, þar á meðal nýjar gerðir af E-Golf og Nissan Leaf. Einnig er beðið eftir rafbílnum Tesla 3 með mikillli eftirvæntingu, en Kjarninn greindi frá því fyrir stuttu.
Vaxandi hlutdeild
Alls voru 252 tengibílar nýskráðir í júní, en það er 186% aukning milli júnímánaða 2016 og 2017. Mynd hér að neðan sýnir hvernig þróun nýskráðra tengibíla hefur verið frá því árið 2012, en heildarfjöldi á því ári var 17. Til samanburðar voru yfir þúsund tengibílar nýskráðir á fyrstu sex mánuðum ársins 2017.
Einnig kom fram í síðustu árbók bílgreinasambandsins að fleiri ökumenn hyggjast kaupa næst rafmagnsbíl en bensínbíl, samkvæmt nýrri könnun Gallup. Því má vænta að nýskráðum rafbílum muni halda áfram að fjölga hratt í framtíðinni.
Rétt er að minnast á að heildarfjöldi nýskráðra bíla á Íslandi hafi stóraukist frá árinu 2012 og er það að miklu leyti vegna batnandi efnahagsástands og uppgangs bílaleigufyrirtækja fyrir ferðamenn. Hins vegar hefur hlutdeild tengibíla í nýskráningum ökutækja einnig aukist jafn og þétt samhliða fjölgun bíla í umferð. Það sem af er árs 2017 eru tæp 10% nýskráðra ökutækja annað hvort rafmagns- eða tvinnbílar.
Ísland virðist standa sig vel í alþjóðlegum samanburði, en samkvæmt evrópsku samtökunum EAFO er markaðshlutdeild nýskráðra tengibíla á Íslandi næststærst í Evrópu. Þó er hlutdeildin meira en fjórum sinnum hærri í Noregi, eða 33% miðað við 8% hér á landi.
Hægt að keyra hringinn fyrir árslok
16 hraðhleðslustöðvar hafa verið reistar af Orku Náttúrunnar (ON), dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, á síðustu árum. Af þessum 16 hafa þrjár þeirra verið reistar það sem af er ári, en til stendur að reisa enn fleiri í viðbót víðs vegar um landið á næstu misserum.
Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON, segir í samtali við Kjarnann að stefnt sé að því að opna hringveginn fyrir rafbíla fyrir árslok. Verkefnið sé hins vegar ekki einungis í höndum ON, en Orkusjóður hefur veitt ýmsum fyrirtækjum styrk fyrir uppbyggingu stöðva sem reisa á á 80-100 kílómetra millibili hringinn í kringum landið.
Uppsettar hleðslustöðvar ON
Á mynd hér að ofan má sjá uppsettar hleðslustöðvar ON víðs vegar um landið. Fjöldi nýrra stöðva er væntanlegur á þessu ári, meðal annars mun ein rísa á Hvolsvelli.
Stöðvarnar sem ON hyggst reisa um landið eru kallaðar hlöður, en þær munu innihalda eina hraðtengingu og eina venjulega tengingu fyrir bílana. Bjarni Már segir kostnað við uppsetningu hverrar stöðvar fara eftir atvikum, en hún sé allt að tíu milljónum. Núverandi verkefni muni þannig kosta á annan hundrað milljóna, en allt að helmingur þeirrar upphæðar verður greiddur í opinberum styrkjum frá Orkusjóði. Sjóðurinn hefur skuldbundið sig til þess að veita styrk að upphæð 67 milljóna, árlega í þrjú ár, til uppbyggingar á innviðum fyrir rafbíla.
Að sögn Bjarna Más er uppsetning hlaðana úti á landi ekki enn orðin arðbær fjárfesting þar sem notkun þeirra sé lítil. Hins vegar gætu þær hrint af stað jákvæðri hringrás þar sem fleiri muni kaupa rafbíla vegna aukins úrvals hleðslustöðva.
Hagkvæmnin eykst
Samkvæmt þingsályktun ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var fyrir rúmum mánuði síðan er stefnt að því að hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum á Íslandi verði 40% eftir 13 ár, en hlutdeildin er 6% núna. Ef það á að gerast þyrfti hagkvæmni rafbíla að aukast þannig að fólk sjái sér hag í að kaupa þá.
Ýmsir fjárhagslegir hvatar eru nú þegar til staðar fyrir neytendur til rafbílakaupa. Til dæmis þarf ekki að greiða vörugjöld af þeim auk þess sem þeir eru undanþegnir virðisaukaskatti að hámarki 1,4 milljónir króna. Einnig fylgja fríðindi frá tryggingafélögunum, en eigendur tengibíla greiða jafnan lægri iðgjöld.
Þrátt fyrir umrædda hvata virðast enn vera ljón í veginum. Til að mynda hefur verið bent á hversu erfitt það er að koma upp hleðslustöð fyrir íbúa í fjölbýli þar sem innstungur er gjarnan ekki að finna nálægt bílastæðum íbúanna. Hins vegar gæti það breyst á næstu misserum, en umhverfisráðuneytið vinnur nú að því að setja bindandi ákvæði um tengibúnað fyrir rafbíla í byggingarreglugerð.
Að lokum er eldsneytisverð bensínbíla ráðandi þáttur í hvort hagkvæmt sé að eignast bíl sem knúinn er á annarri orku. Olíuverð á heimsmarkaði hefur verið lágt undanfarin misseri, en langtímaspár benda til þess að raunvirði hennar muni hækka um tæp 60% á næstu þremur árum. Samhliða hækkun olíuverðs verður hagkvæmara að kaupa rafbíl ef rafmagnsverð mun ekki hækka jafnmikið á sama tímabili.