Frumkvöðullinn Elon Musk, sem meðal annars er stofnandi Pay Pal, Tesla Motors (Solar City dótturfélag), og SpaceX, varaði ríkisstjóra í Bandaríkjunum við því, ef regluverk um gervigreind yrði ekki búið til með nægilega vönduðum hætti, áður en hún færi að hafa enn meira afgerandi áhrif á samfélög.
Á ráðstefnu í Rhode Island sagði hann að meðhöndlun á gervigreindinni, og þeim miklu tækniframförum sem hún myndi leysa úr læðingi, fæli í sér „mestu áhættu sem við stæðum frammi fyrir“, að því er fram kemur í frásögn Wall Street Journal.
Musk endurflutti viðvaranir sínar, um að stjórnmálamenn þyrftu að hraða vinnu sinni við að setja betri og nákvæmari lög og reglur varðandi gervigreindina. Hann hefur beitt sér fyrir því að hugað sé sérstaklega að öryggi, þegar kemur að gervigreindinni, þar sem um viðkvæma tækni er að ræða sem geti beinlínis verið hættuleg.
„Eins og staða mála er núna þá hefur ríkisvaldið ekki einu sinni innsýn í stöðu mála[...] Um leið og fólk áttar sig, þá verður það hrætt, eins og það ætti að vera,“ sagði Musk í ræðu sinni.
Hann sagði margar hættur leynast í þróun gervigreindarinnar, og að hún geti, í versta falli, skapað mikinn ófrið og jafnvel leitt til stríðsátaka, ef ekki er vandað til verka við gerð regluverks og laga.
Hann sagðist vera bjartsýnn að eðlisfari og að hans köllun væri sú að hafa góð áhrif á samfélagið, og sjá fyrir breytingar í framtíðinni. Hann sagði tímana sem framundan væru, með tilkomu meiri gervigreindar, væri sérstaklega spennandi, ekki síst fyrir Bandaríkin. Það væri þjóð sem ætti rætur hjá landkönnuðum, sem leituðu nýrra tækifæra. Þetta væri það sem myndaði „sjálf“ Bandríkjanna, og að hluta mætti líkja þessu saman við þá tíma sem framundan væru, með gríðarlegum breytingum sem gervigreind muni leysa úr læðingi.