Viðskiptabann hefur ríkt milli Katar og níu annarra ríkja í Mið-Austurlöndum undanfarnar vikur. Bandarískir fjölmiðlar sökuðu Sameinuðu arabísku furstadæmin um að hafa leitt til bannsins með því að hakka sig inn á heimasíður katarskra yfirvalda, en furstadæmin höfnuðu ásökununum í dag. En um hvað snýst bannið í raun og veru?
Þann fimmta júní síðastliðinn settu Sádí Arabía, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Egyptaland og Bahrain á viðskiptabann við Katar. Ástæða bannsins var sögð vera meintur fjárstuðningur og hýsing hryðjuverkahópa, til dæmis Al-Quaeda og Múslímska bræðralagið. Tveimur dögum seinna settu svo fimm önnur ríki í heimshlutanum á viðskiptabann við landið. Katörsk yfirvöld hafa neitað ásökunum og segja þær rakalausar.
Vinir Írans
Þótt stuðningur við hryðjuverkamenn sé opinbera skýring viðskiptabannsins hafa stjórnmálaskýrendur bent á aðrar flóknari ástæður, til dæmis meint náið samband Katar við óvinaríki Sádí-Arabíu. Tveimur vikum fyrir bannið lokuðu stóru ríkin í Persaflóa fyrir útsendingar katarskra sjónvarpsstöðva, þeirra á meðal Al Jazeera, vegna vinalegra ummæla í garð Írans og Ísraels.
Þar var haft eftir emírnum af Katar, Sjeik Tamin Al Hamad Al Thani, að Íran væri íslamskt veldi og að samband Katara við Ísraela væri gott.
Í kjölfar lokun útsendinganna svöruðu Yfirvöld í Katar að umræddar fréttir væru falsaðar, sjónvarpsstöðvar og heimasíður þar í landi hafi orðið fyrir tölvuárásum. Þetta staðfesti Washington Post svo þann 6. Júní, en í frétt þeirra kemur fram að tölvuárás hafi verið framkvæmd og að Sameinuðu arabísku furstadæmin hafi staðið að baki þeim.
Í dag neituðu svo yfirvöld í furstadæmunum ásökunum Washington Post en Anwar Gargash, utanríkisráðherra þeirra, kallaði fréttina „hreinlega ranga“ í ræðu sem hann hélt hjá bresku hugveitunni Chatham House í London í dag.
Viðbrögð Vesturlanda
Bandaríkin hafa löngum verið mikilvægur bandamaður Sádí-Arabíu, en í nýlegri ræðu sagði Bandaríkjaforseti Íran, höfuðóvin Sáda, vera stærstu ógn Mið-Austurlanda. Í kjölfar viðskiptabannsins vildi hann einnig meina að hann hafi átt óbeinan þátt í því, ef marka má uppfærslu hans á Twitter:
Efnahagsleg áhrif deilunnar í Persaflóa hafa hins vegar ekki enn verið greinileg á Vesturlöndum, en víða var óttast um að olíuverð myndi hækka í kjölfar þeirra. Það hefur ekki gerst, en frá 5. Júní til 17. Júlí hefur heimsmarkaðsverð olíu lækkað um 3%.
Herða skrúfurnar
Óvíst er hvernig framhaldið verður, en CNN hefur kallað málið eina stærstu stjórnmálakrísu Mið-Austurlanda síðustu ára. Fyrir tveimur vikum síðan virtist sem vísir að samningaviðræðum væri að myndast, en þá gáfu Persaflóaríkin Katar auka tíma til að verða við kröfum þeirra. Í ræðu sinni hjá Chatham House gaf Gargash hins vegar í skyn að vænta mætti frekari refsiaðgerða, mögulega brottvísun úr stjórnmálasamstarfi Persaflóaríkjanna.
„Við munum herða skrúfurnar eitthvað meira,“ sagði Gargash í nýlegu viðtali tengdu ræðunni.