Samgöngustofa Svíþjóðar hefur gerst sek um alvarlegt misferli á persónuupplýsingum og sænska ríkisstjórnin sætir gagnrýni fyrir aðgerðarleysi þegar upp komst um brotin. Í frétt SVT í gær er atburðarrás hneykslismálsins rakin, en ljóst er að ráðherrar innan ríkisstjórnarinnar hafi vitað af brotinu í rúmt ár án þess að viðhafast neitt.
Ökuskírteini og farartæki hersins
Samkvæmt fréttinni byrjaði Samgöngustofa Svíþjóðar að bjóða út tölvuþjónustu til bandaríska tölvurisans IBM í byrjun árs 2015 undir stjórn þáverandi framkvæmdastjóra, Maria Ågren. Með útboðinu komust verktakar IBM yfir ýmsar persónurekjanlegar upplýsingar, meðal annars allar sænskar ökuskírteinismyndir sem og upplýsingar um farartæki sænska hersins.
Enn fremur segir sænska fréttastofan að Ågren hafi þannig vísvitandi brotið fern lög (persónuverndarlög, þjóðaröryggislög, lög um opinbera stjórnsýslu og kröfur ríkisstjórnarinnar um upplýsingavernd) með ákvörðun sinni árið 2015, þrátt fyrir athugasemdir innri endurskoðenda um lögmæti hennar.
Aðgerðarleysi eða þöggun?
Seinna árið 2015 ráðlagði sænsku öryggislögreglunnar (Säpo) að útboð Samgöngustofunnar yrði hætt, en ferlið hélt áfram óhindrað. Í kjölfarið hóf lögreglan rannsókn á útboðinu snemma árs 2016.
Ári seinna, í janúar 2017, sagði Maria Ågren upp hjá Samgöngustofu, en að hennar sögn var það vegna ágreinings milli hennar og ríkisstjórnarinnar. Fyrir þremur vikum síðan kom það hins vegar í ljós að Ågren hefur verið dæmd fyrir vanrækslu í starfi, en öryggisráð Svíþjóðar taldi brot hennar varða við þjóðaröryggi. Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, viðurkennir sama dag að ljóst hefði verið um brot Ågren síðan í janúar.
Á síðustu dögum hafa svo komið fram ásakanir um þöggun af hálfu ríkisstjórnarinnar, en ráðherrar innan hennar sem vissu af misferlinu tilkynntu það ekki til utanríkisnefndar. Einnig hefur starfsmaður Samgöngustofunnar stigið fram og sagst hafa grunað að lög væru brotin með útboðinu, en honum hefði verið skipað að „halda kjafti,“ samkvæmt SVT.
Ríkisstjórnin í kröppum dansi
Í gær hélt Löfven svo blaðamannafund með yfirmanni öryggislögreglunnar, yfirmanni sænska hersins og nýjum framkvæmdastjóra Samgöngustofunnar, en þar sagði hann að hann bæri fullt traust til allra í sinni ríkisstjórn, þrátt fyrir vitneskju margra þeirra um meint brot í langan tíma. Það sem skipti mestu máli væri að skaðinn hefði verið lágmarkaður og upplýsingabresturinn leiðréttur.
Óvíst er hvaða afleiðingar þetta mál mun hafa fyrir sænsku ríkisstjórnina, en Jimmie Åkerson, formaður Svíþjóðardemókrata, hefur lagt fram vantrauststillögu sem mun fara fyrir þingnefnd á næstu dögum.