Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) treystir sér ekki lengur til að greina á milli munntóbaks og neftóbaks og hefur leitað leiðbeininga hjá heilbrigðisráðuneytinu um hvernig eigi að greina á milli. Kannanir sýna að neftóbak sem ÁTVR framleiðir og selur, oft kallaður „Ruddi“, er í yfirgnæfandi tilvika tekið í munn og að notendum þess séu að stórum hluta ungt fólk. Sala á munntóbaki er ólögleg en sala á neftóbaki er lögleg.
Í ársskýrslu ÁTVR fyrir árið 2016 fjallar forstjóri stofnunarinnar, Ívar J. Arndal, um þetta mál og segir að ÁTVR treysti sér ekki lengur til þess að greina á milli þess hvort tóbakið sem stofnunin framleiðir sem neftóbak sé slíkt eða munntóbak. Sala á neftóbaki framleiddu af ÁTVR hefur stóraukist á undanförnum árum.
Árið 2000 seldust ríflega 10 tonn af neftóbaki, en síðan þá hefur salan aukist jafnt og þétt. Eina undantekningin er að salan minnkaði árin 2012 og 2013 áður en hún jókst á ný. ÁTVR segir að salan hafi dregist lítillega saman þessi ár eftir að tóbaksgjald á neftóbak var tvöfaldað. Salan fór niður í 27,6 tonn árið 2013 en hefur svo aukist mikið á ný. Í fyrra seldust um 40 tonn af neftóbaki, sem er sölumet. Fyrra met var sett árið 2015 þegar 36,1 tonn seldust.
Einokun lengi
Árið 1996 var fínkornað munn- og neftóbak bannað með lögum á Íslandi. Það þýðir að neftóbakið sem ÁTVR framleiðir hefur verið í nánast einokunarstöðu á markaðnum síðan lögin voru sett. Samhliða hefur neysla á munntóbaki aukist töluvert og þeir sem neyta þess kaupa annaðhvort smyglvarning á svörtum markaði, þar sem er mikið framboð, eða nota neftóbakið sem ÁTVR framleiðir, hinn svokallaða „Rudda“, sem munntóbak.
Við síðustu fjárlagagerð skilaði forstjóri ÁTVR umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem hann lagði til að tóbaksgjald yrði hækkað um 55,2-69 prósent. Tilgangurinn væri að samræma tóbaksgjald, en í þágildandi lögum væri það svo að neftóbak og annað tóbak bæri talsvert lægra tóbaksgjald en sígarettur og vindlingar. Það hafi verið umtalsvert misræmi í gjaldtöku eftir tóbakstegundum allt frá því að tóbaksgjaldið var tekið upp árið 2001.
Þetta var samþykkt og gert er ráð fyrir að hækkun á tóbaksgjaldinu skili ríkissjóði um hálfum milljarði króna í viðbótartekjur í ár.
Við þessa breytingu hækkaði hefðbundið verð fyrir dós af neftóbaki framleiddu af ÁTVR úr 1.463 krónum í 2.352 krónur, eða um 889 krónur.
Miklar tekjur af sölu á ríkisframleiddu tóbaki
Tekjur ÁTVR af sölu tóbaks drógust í heild saman í fyrra. Þær voru tveimur prósentum lægri en árið 2015 eða alls 9,3 milljarðar króna. Þar munar mestu um að sala á sígarettum dróst saman um 6,1 prósent og á vindlum um 7,5 prósent.
Sala á neftóbaki hélt hins vegar, líkt og áður sagði, áfram að aukast og jókst samtals um 10,7 prósent á árinu. Salan skilaði alls 827,6 milljónum króna í kassann í fyrra án virðisaukaskatts. Árið 2015 var selt ríkisframleitt tóbak fyrir 748 milljónir króna.