Störfum í Bandaríkjunum hefur fjölgað um 440.000 á síðustu tveimur mánuðum, ásamt því að hlutabréfamarkaðir vestanhafs eru í hæstu hæðum. Samkvæmt Donald Trump, Bandaríkjaforseta, eru góðar efnahagshorfur honum að þakka, en er það virkilega svo?
The Guardian greindi frá því í gær að bandarískum störfum hefði fjölgað um 209.000 í júlí síðastliðnum og 231.000 í júní, en báðar tölur voru nokkuð yfir spár sérfræðinga. Eftir fjölgun starfa síðust sex mánuðina hefur atvinnuleysi farið niður í 4,3%, en það hefur ekki verið lægra í 16 ár.
Trump fagnaði tölunum með Twitter færslu, en í henni segir „frábærar atvinnutölur eru komnar út – og ég er einungis rétt að byrja.“
The Trump Bump
Samhliða góðum horfum á vinnumarkaði virðist hlutabréfamarkaðir Bandaríkjanna einnig vera í ágætum málum, en Dow Jones-vísitalan náði methæðum við opnun markaða í gær. Vísitalan, sem byggð er á hlutabréfaverði 30 stórra bandarískra fyrirtækja, hefur vaxið stöðugt í allt sumar, en margir stuðningsmenn Trump vilja eigna forsetanum velgengni markaða og kalla hana „the Trump Bump.“ Forsetinn sjálfur virðist trúa því líka, ef marka má Twitter-færslu hans síðasta fimmtudag:
Á hann heiðurinn?
En hversu mikil er efnahagsleg velgengni Bandaríkjanna og er hún forsetanum að þakka? Í frétt The Guardian kemur fram að megnið af nýsköpuðum störfum hafi verið lágframleiðnistörf, samhliða fjölgun starfa hafi launavísitalan einungis vaxið um 2,6% á síðustu tólf mánuðum. Einnig er bætt við að framleiðslustörfum, sem Trump hafði lagt áherslu á að fjölga í kosningabaráttunni sinni, hafi í raun fækkað um 4.000 í mánuðinum sem leið.
Á vef The Economist er velgengni á bandaríska verðbréfamarkaðnum einnig tekin fyrir, en samkvæmt tímaritinu er staðan ekki jafngóð ef tekið er tillit til sveiflna á gjaldeyrismarkaðnum. Þótt mörgum bandarískum fyrirtækjum hafi gengið vel upp á síðkastið hefur gengi Bandaríkjadals gagnvart evru veikst töluvert frá embættistöku Trump í janúar, annars vegar vegna þverrandi trausts á dollaranum og hins vegar vegna aukins trausts á evrópska hagkerfinu.
Raunar hefur gengisveikingin verið svo mikil að fjárfestar með eignir sínar bundnar í dölum hafa grætt meira á evrópskum hlutabréfum heldur en bandarískum það sem af er árs.
Einnig bendir tímaritið á að þau bandarísku fyrirtæki sem hækkað hafa mest í verði síðustu mánuði hafi verið úr tæknigeiranum og með starfsemi sína í mörgum löndum, en forsetinn hefur jafnan haft horn í síðu þeirra vegna útvistunar á vinnuafli.
Erfitt er við fyrstu sýn að greina hversu mikinn heiður Trump á á fjölgun nýrra starfa og góðu gengi fyrirtækja vestanhafs. Velgengnin virðist ekki vera jafnmikil og forsetinn lætur í ljós og hún hefur ekki skilað sér jafnmikið til þeirra geira sem hann hefur beitt sér mest fyrir. Á hinn bóginn er ekki hægt að útiloka að nýjustu tölur séu vegna raunverulegs „Trump Bump.“