Stórfrétt liðinnar viku í dönskum fjölmiðlum, og reyndar víða um heim, var sú ákvörðun Henriks prins að þegar kallið kæmi myndi hann ekki hvíla við hlið Margrétar Þórhildar. Drottningin verður, eins og konunglega hefðin býður, jarðsett í Hróarskeldu, en þvert á það sem gengið hafði verið að sem vísu verður eiginmaðurinn Henrik ekki við hlið hennar. Hvar hann verður lagður til hinstu hvílu hefur ekki verið tilkynnt, að öðru leyti en því að það verði í Danmörku.
Kínverski spámaðurinn
Henrik (Henri) prins sem er 83 ára, fæddur í Frakklandi 11. júní 1934, ólst upp í Frakklandi og franska Indokína (Laos, Kambodíu og Víetnam). Foreldrar hans voru efnafólk, með fyrirtækjarekstur í Frakklandi og Asíu. Henrik lauk herskyldu, eins og lög gerðu ráð fyrir, og síðar magisterprófi í frönskum bókmenntum og asískum tungumálum.
Árið 1958 fór Henrik, sem þá var í Asíu, til kínversks spámanns ásamt vinkonu sinni. Spámaðurinn tilkynnti Henrik að hann myndi ekki giftast þessari vinkonu sinni en hann myndi giftast konu sem byggi langt í burtu. „Líf þitt verður spennandi en fullt af hindrunum og ýmsum erfiðleikum. Þú verður þekktur og ríkur og þú eyðir megninu af ævi þinni í landi umkringdu vatni.“
Nýtt hlutverk
Árið 1962 varð Henrik starfsmaður Asíudeildar franska utanríkisráðuneytisins og var árið eftir sendur til starfa við sendiráð Frakklands í London. Þar kynntist hann, í kvöldverðarboði árið 1964, danska ríkisarfanum Margréti Þórhildi. Þau hittust aftur skömmu síðar og 10. júní árið 1967 voru þau gefin saman í Hólmsins kirkju í Kaupmannahöfn. Henrik var nú nefndur prins en hlutverk hans sem eiginmanns ríkisarfa og síðar þjóðhöfðingja (1972) var annars algjörlega ómótað. „Það var engin uppskrift, engin hefð, autt blað“ sagði Henrik síðar í viðtali. Hann sagði einnig í viðtali, skömmu eftir giftinguna að sér væri hlutverk sitt sem maka ríkisarfans vel ljóst og hann sætti sig fyllilega við að „ganga alltaf tveimur skrefum á eftir drottningunni.“ Það átti eftir að breytast.
Skyldur þjóðhöfðingjans og makans eru margar og margvíslegar en þau hjónin hafa líka áhugamál sem þau hafa lagt rækt við. Margrét Þórhildur hefur löngum fengist við myndlist, bæði hefðbundin málverk og hún hefur margoft gert leikmyndir og búningateikningar, meðal annars fyrir Konunglega leikhúsið og Tívolí.
Henrik hefur haft mörg járn í eldinum. Hann sótti árum saman tíma í þrívíddarmyndmennt í Konunglega listaháskólanum og eftir hann liggur fjöldinn allur af bronsverkum. Hann hefur sent frá sér átta ljóðabækur, sumar með eigin myndskreytingum. Hann er liðtækur píanóleikari og hefur samið nokkur tónverk. Henrik er mikill áhugamaður um mat og matargerð, hefur skrifað amk. þrjár matreiðslubækur og svo var hann um árabil vínbóndi í Frakklandi.
Af hverju ekki kóngur?
Þótt svo að Henrik hafi í upphafi sagt að hann sætti sig fullkomlega við hlutverk sitt sem eiginmaður drottningar fór hann fyrir mörgum árum, fyrst 1992, að láta í ljós óánægju með eitt og annað varðandi þetta hlutskipti sem hann hafði tekist á hendur. Henrik hefur margoft í viðtölum lýst undrun og óánægju með að hann skuli ekki vera titlaður kóngur. „Hvers konar jafnrétti er það að eiginkonur kónga séu drottningar en eiginmaður dönsku drottningarinnar, þjóðhöfðingjans, verður að láta sér lynda að vera prins?“ Þótt mörgum þyki þetta kannski ekki skipta öllu máli hefur þetta angrað Henrik og það ergelsi hefur aukist með árunum. Af hverju þetta er svona, prins en ekki kóngur, er einfaldlega hin evrópska hefð og Henrik að þessu leyti eins settur og Filippus eiginmaður Elísabetar Englandsdrottningar. Margrét Þórhildur hefur ætíð neitað að ræða þessi titlamál við fjölmiðla.
Drottningarmaður
Eftir að barnabörn Margrétar Þórhildar og Henriks komu til sögunnar (eru nú átta) var orðið mikið prinsa- og prinsessukraðak á Amalienborg. Árið 2005 var því ákveðið að Henrik skyldi hér eftir bera titilinn „prinsgemal“, drottningarmaður. Drottningarmaðurinn tjáði sig ekki oft um þessa breytingu en ítrekaði þó, að minnsta kosti einu sinni, í viðtali óánægju sína með að fá ekki að heita kóngur.
Afmælið og eftirlaunin
16. apríl 2015 varð Margrét Þórhildur 75 ára. Af því tilefni var efnt til mikillar og fjölmennrar veislu í höllinni. Þar var margt kóngafólk ásamt öðrum gestum samankomið. Einn, sem flestir hefðu talið sjálfsagt að tæki þátt í gleðinni, var hinsvegar fjarverandi: Henrik drottningarmaður. Fjarvera hans vakti mikla athygli en skýringin sögð sú að hann væri lasinn. Tveimur dögum síðar sást hins vegar til hans í Feneyjum þar sem hann virtist hinn hressasti. Danskir fjölmiðlar veltu vöngum yfir þessari fjarveru drottningarmannsins og lögðu flestir út á sama veg: Henrik væri í langtímafýlu sem hann léti æ oftar í ljós með sífellt skýrari táknrænum hætti.
Í áramótaávarpi sínu til dönsku þjóðarinnar 31. desember 2015 tilkynnti Margrét Þórhildur að Henrik myndi frá og með ársbyrjun 2016 fara á eftirlaun (drossle ned) og eftirleiðis taka þátt í færri viðburðum, opinberum móttökum, veislum o.þ.h. Flestir virtust, að sögn dönsku fjölmiðlanna, hafa skilning á þessu, maðurinn jú kominn vel yfir áttrætt.
Aftur prins, gullbrúðkaup
Í apríl 2016 tilkynnti Henrik að nú vildi hann ekki lengur bera titilinn prinsgemal. Í samræmi við þær breytingar sem orðið hefðu (eftirlaunin) væri eðlilegt að hann yrði aftur prins Henrik.
Um svipað leyti tilkynnti fulltrúi drottningar að gullbrúðkaup Margrétar Þórhildar og Henriks yrði fagnað „prívat“, einungis með fjölskyldunni. Sú fjölskylduveisla fór fram 10. júní sl. nákvæmlega hálfri öld eftir að drottningin og prinsinn játuðust hvort öðru í Hólmsins kirkju.
Danir í senn undrandi og reiðir
Eins og getið var í upphafi þessa pistils hefur Henrik prins oft komið þjóðinni á óvart með ummælum sínum. Aldrei þó eins og sl. fimmtudag þegar hann tilkynnti að hann vildi ekki liggja við hlið drottningar í Hróarskeldu eftir andlát. Ástæðan sem hann gaf upp er einföld: „maður sem ekki stendur jafnfætis konu sinni verðskuldar ekki að hvíla við hlið hennar í gröfinni.“
Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Yfirgnæfandi meirihluta Dana er ósáttur við ákvörðun prinsins, margir segja hana lýsa eigingirni og tillitsleysi manns sem hugsi fyrst og síðast um sjálfan sig. Þótt margir Danir segist skilja óánægju Henriks með að fá ekki að heita kóngur hafi hann núna farið langt yfir strikið. Svikið bæði eiginkonuna og þjóðina. Talsmaður drottningar sagði að hún virti ákvörðun bónda síns en væri síður en svo sátt.
Hvar?
Síðan hin óvænta tilkynning prinsins birtist sl. fimmtudag hafa fjölmiðlarnir velt því fyrir sér hvar hann vilji hvíla þegar jarðvist hans lýkur. Góður vinur Henriks sagði frá því í viðtali að prinsinn hefði spurt sig hvort hann vildi vita hvar hann hygðist láta jarða sig. Vinurinn svaraði því til að það vildi hann ekki „ég sagði Henrik að ég gæti þá misst það út úr mér í hugsunarleysi og best væri fyrir mig að vita það ekki. En ég spái að það verði við dómkirkjuna í Hróarskeldu, í nágrenni við legstað drottningar.“