Lífeyrissjóðir landsins lánuðu sjóðsfélögum sínum 14,3 milljarða króna í júní, sem er met í einum mánuði. Á fyrri helmingi þessa árs lánuðu sjóðirnir rúmlega þrisvar sinnum hærri fjárhæð en þeir gerðu allt árið 2015. Ef útlán lífeyrissjóðanna verða jafn umfangsmiðil á síðari hlut ársins 2017 og þau voru á þeim fyrri munu sjóðirnir lána yfir 40 milljörðum krónum meira til sjóðsfélaga en þeir gerðu í fyrra. Þetta má lesa út úr hagtölum lífeyrissjóða sem Seðlabanki Íslands birtir.
Umrædd lán eru nær einvörðungu lán til íbúðarkaupa. Hlutdeild lífeyrissjóða á þeim markaði hefur aukist verulega eftir að nokkrir stórir sjóðir hófu að bjóða allt að 75 prósent íbúðalán, betri vaxtakjör en bankarnir, óverðtryggð lán og lægri lántökugjöld á síðari hluta ársins 2015.
Met sett í mánuðinum þegar verðið lækkaði
Miklar verðhækkanir hafa verið á húsnæði á undanförnum árum. Frá því í desember 2010 hefur húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu, á öllu húsnæði, hækkað um 90 prósent. Síðustu tólf mánuði hefur hækkunin verið mjög skörp (21,4 prósent frá júní 2016 til júní 2017) og verðið hækkað þrefalt hraðar en laun (7,3 prósent), en æskilegt þykir að þessar tvær stærðir haldist í hendur.
Svo virðist sem að þessi þróun sé að breytast því í júní lækkaði verð á fjölbýli í fyrsta sinn í tvö ár. Lækkunin var reyndar ekki mjög mikil, eða 0,2 prósent. Það benti því til þess að markaðurinn væri kominn upp að ákveðnu þaki og réði ekki við frekari hækkanir.
Verðtryggðir vextir undir þremur prósentum
Kjör lánanna er líka sífellt að batna. Verðbólga hefur verið undir 2,5 prósent markmiði Seðlabanka Íslands í 42 mánuði samfleytt og bankinn hefur verið að lækka meginvexti sína. Þetta hefur leitt til þess að nú bjóðast í fyrsta sinn íbúðalánavextir á Íslandi sem eru undir þrjú prósent, verðtryggt. Bestu kjörin eru sem stendur hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna þar sem verðtryggðir breytilegir vextir eru 2,95 prósent.
Þessi þróun hefur leitt til þess að Íslendingar flykkjast í verðtryggð lán. Af nýjum lánum sem lífeyrissjóðirnir veittu á fyrstu sex mánuðum þessa árs voru 72,1 prósent verðtryggð.
Hlutfallið er svipað hjá íslensku viðskiptabönkunum. Þar hækkar hlutfall verðtryggðra íbúðalána sífellt á kostnað óverðtryggðra lána. Auk þess eru öll lán Íbúðarlánasjóðs verðtryggð.
Innreiðin hófst af alvöru á ný 2015
Lífeyrissjóðir landsins hafa lengi lánað sjóðfélögum sínum til íbúðarkaupa. Þau lán hafa þó verið þannig að mun lægra lánshlutfall hefur verið í boði sem gerði það að verkum að fólk sem átti lítið eigið fé gat illa nýtt sér þau lán. Það breyttist allt haustið 2015 þegar sjóðirnir hækkuðu lánshlutfall sitt og bjóða upp á enn hagstæðari kjör.
Það var erfitt fyrir íslensku viðskiptabankanna, sem höfðu nær einokað íslenska íbúðalánamarkaðinn eftir hrun, að bregðast við þessu. Þeir töldu sig ekki geta lækkað kjör á húsnæðislánum sínum meira en þeir höfðu þegar gert og báru fyrir sig tvenns konar ástæður sem skertu samkeppnisstöðu þeirra gagnvart öðrum lánveitendum á markaðnum. Í fyrsta lagi eru þeir skyldugir samkvæmt lögum til að eiga mun meira eigið fé en lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóðirnir þurfa ekki að sitja á svona miklu eigin fé. Raunar eiga þeir ekkert eigið fé.
Í öðru lagi þurfa stóru viðskiptabankarnir að greiða bankaskatt og sérstakan fjársýslukatt. Þeir skattar hafa ekki verið afnumdir þótt að íslensku bankarnir séu nær allir komnir í eigu íslenska ríkisins og búið sé að semja við kröfuhafa föllnu bankanna um slit þrotabúa þeirra. Í fjárlögum er til að mynda gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs á árinu 2017 af bankaskatti, sem er 0,376 prósent af skuldum banka, verði 9,2 milljarðar króna. Bankarnir hafa haldið því fram að þessi skattur sé ekkert annað en álag ofan á útlán, sem almenningur þurfi á endanum að borga. Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra og núverandi framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, fjallaði um þetta í sjónvarpsþætti Kjarnans í maí síðastliðnum.
Þess vegna er staðan enn þannig í dag að þeir vextir á íbúðalánum sem bankarnir bjóða eru í langflestum tilvikum ekki jafn góðir og þeir sem lífeyrissjóðir geta boðið.
Þetta ástand hafa lífeyrissjóðirnir nýtt sér út í ystu æsar. Og skóflað til sín viðskiptum.