A-hluti Reykjavíkurborgar var rekinn með 3,6 milljarða króna afgangi á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Það er 2,5 milljörðum krónum meiri afgangur en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Hin bætta niðurstaða er tilkomin vegna þess að skatttekjur – útsvar og fasteignagjöld – voru um 650 milljónum króna hærri en áætlað var, framlög Jöfnunarsjóð voru 900 milljónum króna yfir áætlun og tekjur af sölu byggingaréttar og söluhagnaði fasteigna voru 1,1 milljarði króna meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta kemur fram í árshlutareikningi borgarinnar sem birtur var í dag.
Rekstrarniðurstaða samstæðu borgarinnar, A og B-hluta hennar, er jákvæð um 18,5 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Í tilkynningu til Kauphallar segir að ástæða þess sé hærri tekjufærsla á matsbreytingum fjárfestingaeigna Félagsbústaða hf. (hækkun á virði fasteigna í eigu borgarinnar), lægri fjármagnsgjöld vegna gangvirðisbreytinga innbyggðra afleiða í raforkusamningum hjá Orkuveitu og lægri rekstrarkostnaðar en áætlun gerði ráð fyrir. Sú niðurstaða er 10,8 milljörðum krónum betri en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir.
Kjarninn greindi frá því fyrr í mánuðinum að innheimt fasteignagjöld í Reykjavík hafi aukist um 50 prósent frá árinu 2010. Vegna þess árs innheimti Reykjavíkurborg tæplega 12,1 milljarð króna í fasteignagjöld. Áætlað er að borgin innheimti 18,2 milljarða króna í fasteignagjöld vegna ársins 2017. Þar sagði einnig að innheimta fasteignagjalda muni skila 2,6 milljarði króna meira í borgarsjóð vegna ársins 2017 en hún gerði árið 2016. Það er tekjuaukning upp á 16,6 prósent milli ára.
Dagur boðar bætingu í fjárframlög
Þá hefur skuldahlutfall Reykjavíkurborgar hríðlækkað á undanförnum árum. Hreinar vaxtaberandi skuldir samstæðu borgarinnar voru 263 milljarða króna í árslok 2011 eða tæplega 242 prósent af tekjum samstæðunnar. Síðan þá hefur hlutfallið hríðlækkað og vaxtaberandi skuldir eru nú 169 milljarðar króna, eða 100 prósent af rekstrartekjum.
Miklar sveiflur á síðustu árum
Í fyrra var hagnaður samstæðu Reykjavíkurborgar samtals 26,4 milljarðar króna eða tæpum 15 milljörðum króna yfir áætlun. A-hlutinn var rekinn með 2,6 milljarða króna afgangi.
Árið 2015 var rekstarniðurstaðan neikvæð um fimm milljarða króna og A-hlutinn rekinn með 13,6 milljarða króna tapi. Ástæða þess var að lífeyrisskuldbindingar borgarinnar jukust um 14,6 milljarða króna á árinu 2015 vegna nýrra tryggingafræðilegra forsendna. Þær voru allar gjaldfærðar á því ári.
A-hlutinn var rekinn með 2,8 milljarða króna tapi árið 2014 en rekstrarniðurstaða samstæðunnar var jákvæð um 11,1 milljarða króna á því ári.
Því er staðan sú að á þeim tíma sem liðin er frá síðustu sveitastjórnarkosningum er afkoma borgarinnar (2014, 2015, 2016 og fyrri helmingur ársins 2017) jákvæð um 51 milljarð króna en A-hlutinn, sá hluti sem fjármagnaður er með skatttekjum og notaður er til að greiða fyrir þjónustu, rekinn með rúmlega tíu milljarða króna tapi. Þar verður þó að taka inn gjaldfærslu á áðurnefndum 14,6 milljarða lífeyrisskuldbindingum sem voru einskiptiskostnaður.
Sveitastjórnarkosningar fara fram næsta vor.