Olíuleit í grennd við Lofoten hefur verið í deiglunni frá því á áttunda áratugi síðustu aldar og hefur nú skotið upp kollinum í aðdraganda þingkosninganna 11. september með meiri þunga en áður. Nokkrir þættir útskýra ágreininginn. Norðmenn eru nokkurn veginn klofnir í tvennt þegar kemur að hvort eigi að takmarka olíuiðnað landsins. Lágt olíuverð á síðustu árum hefur valdið því að tugþúsundir hafa misst störfin sín í olíuiðnaðinum og tengdum greinum, þá sérstaklega í Vestur-Noregi, en jafnvel þar skiptast íbúar í um það bil í tvo helminga í málinu.
Kjósendur binda miklar væntingar við að stjórnvöld standi við þær kröfur sem Parísarsáttmálinn setur landinu og kannanir sýna að umhverfismál eru næst mikilvægasta málefnið í þessum kosningum á eftir menntamálum. Lækkandi vægi olíu í orkunotkun Evrópu, aðalútflutningsmarkaðar Noregs, ásamt lágu olíuverði hefur einnig leitt til umræðu um það hversu arðbær hugsanleg olíustarfsemi í Lofoten myndi verða. Þá mun tilkoma olíuiðnaðar á hafsvæðum í nánd við Lofotoen krefjast gífurlegrar innviðafjárfestingar á landi til að koma til móts við þarfir iðnaðarins.
Auk þess hefur náttúrufegurð Lofoten og Vesterålen, talsverður ferðamannaiðnaður og gríðarlegt mikilvægi hafsvæðanna í kring fyrir sjávarútveg ávallt verið veigamikil rök gegn olíuvinnslu. Ef ætti að friða eitt hafsvæði fyrir olíuleit þá ætti það að vera Lofoten, skrifar Ola Storeng, einn ritstjóri dagblaðsins Aftenposten. Hafsvæðin í kringum Lofoten eru eitt stærsta hrygningarsvæði þorsksins og stundum umtöluð sem matarkista landsins. Þrátt fyrir að rannsóknir sem gerðar voru árið 2010 um hugsanlegar neikvæðar afleiðingar olíuiðnaðar á sjáraútveg leiddu í ljós að það væri mjög ólíklegt að losun frá olíuiðnaði myndi ógna þorskstofn svæðisins hafa þau rök reynst andstæðingum olíuvinnslu á svæðinu vel í kosningabaráttunni.
Orðræða andstæðinga olíuleitar einkennist af því að stimpla olíuiðnað bæði sem ógn við undirstöður hinna hefðbundna atvinnuvega á svæðinu og líka ógn við stöðu eyjanna sem náttúruperla. Menning og náttúra gegn skammsýnum hagnaði.
Á hinn bóginn snýst orðræða stuðningsmanna olíuleitar um verðmætasköpun í þeim tilgangi að reyna að framlengja „olíuöldina“ eins lengi og hægt er til að til að draga úr þeim neikvæðu afleiðingum sem fylgja því að olían klárist. Breyting hagkerfisins eftir olíuna verður sársaukafull og framlenging olíuvinnslu er besta leiðin til að draga úr sársaukanum.
Erna Solberg, forsætisráðherra og formaður Høyre, hefur gefið sterkt til kynna að flokkurinn sé hlynntur olíuleit í Lofoten og Fremskrittspartiet hefur gert hið sama. Arbeiderpartiet samþykkti í vor að stefna flokksins yrði að finna ákveðna millileið þar sem sum hafsvæði, þar sem líkurnar á því að finna olíu eru taldar mestar, verði opnuð fyrir olíuleit en önnur verði friðuð. Allir hinir flokkarnir eru andvígir olíuleit í Lofoten og vilja friða hafsvæðin.
Styttist í kosningar
Þingkosningar í Noregi fara fram í næstu viku og mun hin sitjandi „blá-bláa“ ríkisstjórn miðjuhægriflokksins Høyre og öfgahægriflokksins Fremskrittspartiet sækjast eftir endurkjöri. „Rauð-græni“ valkosturinn mun samanstanda af jafnaðarmannaflokknum Arbeiderpartiet sem mun líklega fá með sér sósíalistaflokkinn Sosialistisk Venstreparti og landsbyggðarflokkinn Senterpartiet í ríkisstjórn ef til kemur. Þá munu hinn kristni miðjuhægriflokkur Kristelig Folkeparti og frjáslyndi flokkurinn Venstre, sem báðir studdu ríkisstjórnina á síðasta kjörtímabili, mögulega geta orðið hluti af, eða að minnsta kosti stutt, samsteypustjórn báðu megin við miðjuna. Arbeiderpartiet hefur útilokað að vinna með öfgavinstriflokknum Rødt og einnig græna flokknum Miljøpartiet De Grønne í hugsanlegri ríkisstjórnarmyndun.
Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun NORSTAT fyrir norska ríkisútvarpið, NRK, mælist Høyre stærsti flokkur landsins eftir að Arbeiderpartiet hefur mælst sem langstærsti flokkur landsins í langan tíma í stjórnartíð Høyre og Fremskrittspartiet. Mjótt er á munum hins vegar og því er erfitt að spá fyrir um úrslit kosninganna. Valmöguleikar stærstu flokkanna tveggja þegar kemur að því að mynda samsteypustjórn geta breyst mjög hratt ef fylgi færist til örfá prósent á milli flokka.
Ljóst er að blæbrigðamunur er á áherslum kjósenda í aðdraganda þingkosninganna í Noregi miðað við þær síðustu. Umhverfis- og loftslagsmál hafa fengið aukið vægi og einna helst í samhengi við mögulega olíuleit í Lofoten þar sem þau tengjast menningar-, náttúruverndar-, og sjávarútvegsmálum. Þá hafa utanaðkomandi aðstæður á borð við lágt olíuverð ásamt alþjóðlegum skuldbindingum Noregs í Parísarsáttmálanum leitt til umræðu um grundvallarhagsmuni landsins til framtíðar. Hvað gerist þegar olían klárast er spurning sem hefur bergmálað í norskri samfélagsumræðu í áratugi; kosningabaráttan að þessu sinni hefur gert hana meira áríðanda en nokkru sinni fyrr.