Flestir hafa gaman af að kynnast nýjum stöðum, ferðast á framandi slóðir eða heimsækja aftur borgir og lönd sem leiðin hefur áður legið til. Ferðamennskan skapar mörg störf og miklar tekjur, þessu hafa Íslendingar kynnst vel á síðustu árum. En of mikið má af öllu gera og íbúar og yfirvöld í mörgum evrópskum borgum vilja nú draga úr ferðamannastraumnum.
Skrölt í ferðatöskum er á síðustu árum orðin eins konar táknmynd síaukins fjölda ferðamanna í borgum og bæjum, ekki hvað síst í Evrópu. Sú tíð er löngu liðin að flugferðir takmarkist við dagtímana, nú eru flugvélar á ferðinni nær allan sólarhringinn. Ferðamennirnir streyma svo inn í borgir og bæi, eða á flugvöllinn að lokinni dvöl, nótt sem nýtan dag. Rútur og leigubílar flytja stóran hluta þessa hóps fram og til baka.
Miðborgirnar eru eftirsóttustu staðirnir, þar eru yfirleitt flest hótel og gistiheimili. Áðurnefnt töskuskrölt, hróp og köll, ásamt hávaða frá farartækjum og skemmtistöðum veldur miklu ónæði. Þótt ferðafólkinu þyki þetta kannski fullkomlega eðlilegt gegnir öðru máli um íbúa viðkomandi svæðis, þeir þreytast á skarkalanum.
Airbnb og íbúðaskipti
Í ágúst 2008 varð til húsnæðismiðlunarfyrirtækið Airbnb. Nánast hvert mannsbarn þekkir, eða hefur heyrt minnst á þetta leigufyrirkomulag, sem á skömmum tíma náði miklum vinsældum. Í dag eru á þriðju milljón íbúða og herbergja sem standa ferðafólki til boða í nær tvö hundruð löndum. Þetta fyrirkomulag er hrein viðbót við hin hefðbundnu gistihús, og er að jafnaði talsvert ódýrara. Íbúðir og herbergi í boði eru ekki ætíð staðsett í miðbæjum, heldur dreifast vítt og breitt. Húsnæðið sem býðst með þessum hætti er iðulega eitthvað sem eigandinn þarf ekki sjálfur að nota (kjallari, bílskúr o.þ.h) en einnig leigja margir út eigin íbúð, í gegnum Airbnb, meðan farið er í frí, og búa þá kannski í annarri Airbnb íbúð! Einnig má í þessu sambandi nefna íbúðaskipti, sem margir notfæra sér. Spánverjinn flytur í mánuð til Seyðisfjarðar og Seyðfirðingurinn gerist á sama tíma Spánverji. Ætíð leynist misjafn sauður í mörgu fé og stundum verða árekstrar vegna ónæðis, þeir sem eru í fríi hafa, að minnsta kosti stundum, annan takt.
Feneyingar riðu á vaðið
Ein þeirra borga sem lengi hefur notið mikilla vinsælda ferðamanna er Feneyjar. Eins og víða annars staðar hefur ferðamönnum fjölgað þar mikið á síðustu árum og í fyrra voru þeir rúmlega 20 milljónir, 60 þúsund á dag. Þessi mikli og síaukni ferðamannastraumur hefur orðið til þess að æ fleiri borgarbúar (voru um 270 þúsund í fyrra) hafa valið þann kost að flytja á brott. Húsnæðisverð, og leiguverð, hefur rokið upp vegna mikillar eftirspurnar, það veldur því að færri sækjast eftir að setjast að í borginni. Mengun hefur líka aukist mjög, þar eiga risastór skemmtiferðaskip stóran hlut að máli.
Þótt ferðamennirnir skapi mörg störf og miklar tekjur var þó svo komið að árið 2015 var íbúum borgarinnar nóg boðið og þeir efndu til fjölmennra mótmæla, sem voru endurtekin ári síðar og einnig á þessu ári. Fólkið krafðist þess að einhverjar hömlur yrðu settar á fjölda ferðamanna til borgarinnar og ýmsar fleiri kröfur voru á lofti, meðal annars að bannað yrði, að viðlögum háum sektum, að draga háværar ferðatöskur um stræti og torg. Ekki hlutu þessar kröfur allar náð fyrir augum borgaryfirvalda en þau hafa nýlega sett reglur semtakmarka fjölda hótelherbergja og lagt bann við götueldhúsum. Sérstök deild innan lögreglunnar (kölluð túristalögga) annast eftirlit með að reglunum sé fylgt.
Sama sagan í Barcelóna, Róm, Amsterdam, Berlín og víðar
Íbúar Barcelóna eru um 1,6 milljón. Á síðasta ári komu rúmlega átta milljónir ferðamanna til Barcelóna fyrir utan alla þá sem komu með skemmtiferðaskipum (allt að 30 þúsund manns á dag) og gistu sem sagt ekki í borginni. Ólympíuleikarnir voru haldnir í Barcelóna árið 1992, þeir voru mikil auglýsing fyrir borgina og ferðamönnum hefur síðan fjölgað jafnt og þétt. Mörgum heimamönnum þykir nóg um þennan stríða túristastraum og þar má iðulega sjá á lofti borða með slagorðum einsog „þið eruð að eyðileggja Barcelóna, farið heim ferðamenn.“
Borgaryfirvöld hafa nú sett reglur sem takmarka fjölda þeirra íbúða sem heimilt er að leigja út, í sumum hverfum borgarinnar eru tíu prósent íbúða leigðar út til ferðamanna. Borgarstjórinn, Ada Colau, sagði nýlega í blaðaviðtali að það væri vandaverk að ætla sér að stýra ferðamannastraumnum en slíkt væri nauðsynlegt, þrátt fyrir tekjurnar „við viljum ekki enda eins og Feneyjar“.
Berlín hefur ekki farið varhluta af ferðamannastraumnum, á síðasta ári heimsóttu um 12 milljónir ferðamanna borgina. Þessi mikli fjöldi hefur þrýst íbúðaverðinu upp, en þrátt fyrir það sýna kannanir að mikill meirihluti íbúanna er ánægður með að svo margir skuli hafa áhuga á að koma til borgarinnar og kynnast henni.
Amsterdam er ein þeirra borga sem æ fleiri ferðamenn leggja leið sína til, fjöldinn slíkur að það veldur borgaryfirvöldum áhyggjum. Hollensk ferðamálayfirvöld leggja mikla áherslu á að kynna aðra staði í landinu fyrir ferðamönnum, t.d Rotterdam, Haag og Utrecht. Borgarstjórinn í Amsterdam hefur viðrað þá hugmynd að ferðafólk geti ferðast ókeypis frá borginni og til annarra borga í landinu.
Meðal evrópskra borga þar sem ferðamönnum hefur fjölgað mjög á síðustu árum eru Róm, Mílanó, Reykjavík, Palma, Prag og Kaupmannahöfn.
Dubrovnik og Krúnuleikarnir
Eina borg, eða betur sagt einn bæ, er rétt að nefna hér til viðbótar: Dubrovnik í Króatíu, íbúar þar eru tæplega fimmtíu þúsund. Dubrovnik er stundum nefnd „perla Adríahafsins“, og bærinn var fyrir áratugum settur á heimsminjaskrá Unesco. Ástæða þess að ferðamenn streyma nú þangað er einkum talin sú að sjónvarpsþáttaröðin „Game of Thrones“ (Krúnuleikarnir) er að hluta tekin upp í bænum. Bæjaryfirvöld ákváðu fyrir skömmu að setja reglur um hámarksfjölda skemmtiferðaskipa sem hverju sinni gætu verið á hafnarsvæðinu. Daginn sem fundur bæjaryfirvalda var haldinn voru farþegar sjö skemmtiferðaskipa á gangi í gamla miðbænum, „var þá þröngt setinn Svarfaðardalur“.
Í þessum pistli hafa ekki verið nefndar tvær mestu ferðamannaborgir Evrópu: París og London. Ástæðan er sú að þar hefur ekki orðið sama „ferðamannasprengingin“ og í þeim borgum sem um er fjallað í pistlinum.