- Komufólki má skipta í þrjá hópa: innflytjendur, kvótaflóttamenn og hælisleitendur. Í ársbyrjun 2017 voru innflytjendur tæplega 36 þúsund hérlendis, eða 10,6 prósent mannfjöldans. Innflytjendur hafa aldrei verið fleiri. Pólverjar eru langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi ,eða 38,3 prósent. Samkvæmt mannfjöldaspá sem Hagstofa Íslands birti í júní 2016 verða Íslendingar 442 þúsund talsins árið 2065. Í spánni er gert ráð fyrir að innflytjendur verði fjórðungur þjóðarinnar eftir hálfa öld, eða um 110 þúsund talsins.
- Langflestir útlendingar sem búa á Íslandi búa í höfuðborginni Reykjavík. Þar búa 12.990 erlendir ríkisborgarar og eru þeir 10,5 prósent íbúa hennar. Flestir þeirra búa í Breiðholtinu, en innflytjendur eru 29,2 prósent íbúa Efra-Breiðholts og 22,3 prósent íbúa í Bakkahverfinu. Útlendingar eru hins vegar sjaldséðari í sumum bæjarfélögum en öðrum. Í Garðabæ, þar sem búa t.d. 15.410 manns, eru einungis 580 erlendir ríkisborgarar. Það þýðir að 3,7 prósent íbúa Garðabæjar eru með erlent ríkisfang.
- Kvótaflóttamenn eru þeir flóttamenn sem Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna hefur óskað eftir að þjóðir heims taki á móti vegna stríðsástands í heimalandi þeirra. Íslendingar hafa tekið á móti kvótaflóttamönnum frá 13 löndum: Ungverjalandi, Júgóslavíu, Víetnam, Póllandi, Krajina, Kosovo, Kólumbíu, Írak, Afganistan, Simbabve, Úganda, Kamerún og Sýrlandi.
Meðal íslenskra sveitarfélaga sem tekið hafa á móti flóttafólki eru Ísafjörður, Hornafjörður, Blönduós, Fjarðarbyggð, Dalvík, Siglufjörður, Akureyri, Reykjanesbær, Akranes, Hafnarfjörður, Kópavogur og Reykjavík.
- Á Íslandi stendur kvótaflóttamönnum meðal annars til boða fjárhags- og húsnæðisaðstoð, heilbrigðisþjónusta, aðgangur að skólakerfinu, túlkaþjónusta og aðstoð við atvinnuleit. Þeir eru skyldugir að sækja námskeið í íslensku, taka virkan þátt í atvinnuleit og þiggja viðtöl hjá sálfræðingi til að fara yfir reynsluna af búsetu í upprunalandinu og af aðlöguninni í móttökulandinu. Fólkið getur fengið íslenskan ríkisborgararétt eftir að hafa verið búsett hér á landi í fimm ár.
- Ísland hefur tekið á móti 645 kvótaflóttamönnum frá árinu 1956. Á næsta ári munum við taka við 50 í viðbót og höfum þá tekið við 695 á 62 árum, eða rúmlega tíu á ári að meðaltali. Útgjöld til móttöku flóttamanna og hælisleitenda sem veitt er hæli hér á landi munu meira en tvöfaldast á næsta ári. Fer upphæðin úr 150 milljónum í 410 milljónir króna.
- Hælisleitendur eru þeir sem koma hingað til lands í leit að alþjóðlegri vernd. Ástæður þess eru mismunandi. Sumir flýja heimaland sitt vegna stríðs, átaka eða ofsókna. Aðrir eru einfaldlega í leit að betra lífi en þeim býðst í heimalandi sínu. Mikil aukning hefur orðið á umsóknum um hæli hérlendis á síðustu árum. Umsóknir um hæli voru 51 árið 2010 en voru orðnar 355 árið 2015. Í fyrra þrefölduðust umsóknir og voru 1.130, þau mál sem fengu efnismeðferð voru um helmingur þeirrar tölu. Um 80 prósent þeirra umsókna sem afgreiddar voru í fyrra var synjað. Það þýðir að þeir sem fengu vernd voru 110 talsins. Það sem af er þessu ári hafa 82 fengið vernd og umsækjendur hafa verið 626. Haldi þróunin áfram verður fjöldi þeirra sem sækja um hæli hérlendis mjög svipaður því sem hann var í fyrra. Flestar synjanir eru vegna þess að að umræddur hælisleitandi er frá landi sem Útlendingastofnun flokkar sem öruggt. Í nýbirtu uppgjöri ríkissjóðs fyrir fyrstu sex mánuði ársins kemur fram að hrein útgjöld vegna réttinda einstaklinga hafi verið 2,2 milljarðar króna sem var 1.251 milljónum meira en áætlað var. Þar segir: „Í fjárheimildum vegna ársins 2017 voru verulega vanáætlaðar í fjárlagagerð fyrir árið 2017 í ljósi fordæmalausrar fjölgunar hælisumsókna á síðustu mánuðum ársins 2016. Kostnaður vegna þessara umsókna hefur að mestu leyti fallið til á yfirstandandi ári.“
- Rauði krossinn á Íslandi veitir hælisleitendur hérlendis aðstoð samkvæmt samningi við innanríkisráðuneytið. Upplýsingafulltrúi Rauða krossins skrifaði grein á Kjarnann í vikunni vegna umræðu um hvað einstaklingum sem hér óska alþjóðlegrar verndar stendur til boða og hvað ekki. Þar kom m.a. fram að hælisleitendur sem komið hafa til Íslands fá þjónustu frá annað hvort sveitarfélagi og/eða Útlendingastofnun. Sveitarfélögin sem veita hælisleitendum þjónustu eru Reykjavík, Reykjanesbær og Hafnarfjörður. Þessir aðilar útvega hælisleitendum búsetuúrræði. Athugið að þau ganga undir nafninu búsetuúrræði en ekki húsnæði, enda nær húsnæði ekki nógu vel utan um hvers kyns híbýli þetta eru. Búsetuúrræðin eru t.d. þannig að um 100 manns búa saman, um 30 herbergi á gangi sem 2-3 deila eða jafnvel heil fjölskylda saman í herbergi, sem er hvorki stórt né íburðarmikið.
- Tannlæknaþjónusta sem hælisleitendur á Íslandi fá felst í tveimur valkostum. Annaðhvort taka verkjalyf við tannpínu eða láta draga úr sér tennurnar. Í undantekningartilvikum er gert við tennur í börnum þjáist þau af tannpínu. Leigubílaþjónusta hefur ekki staðið hælisleitendum til boða nema í neyðartilvikum þar sem um alvarleg veikindi hefur verið að ræða, en ekki svo alvarleg að sjúkrabíl þyrfti til. Hluti hælisleitenda hefur fengið strætókort. Ef umsækjandi um alþjóðlega vernd fær stöðu sem flóttamaður, sem fæstir þeir sem hingað koma fá, þarf hann að yfirgefa þau búsetuúrræði sem honum hefur verið séð fyrir.
- Á sama tíma og komufólk (innflytjendur, kvótaflóttamenn og hælisleitendur) hafa aldrei verið fleiri hefur efnahagsleg velsæld á Íslandi aldrei verið meiri og kaupmáttur landsmanna aldrei verið hærri. Á sama tíma hefur þeim heimilum sem þiggja fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögumfækkað á hverju ári frá 2013. Í fyrra fækkaði þeim um 16,3 prósent og útgjöld sveitarfélaga vegna fjárhagsaðstoðar lækkuðu um 792 milljónir króna á milli 2015 og 2016, eða um 17,6 prósent. Útgjöld ríkissjóðs vegna greiðslu atvinnuleysisbóta lækkuðu að sama skapi um 1,5 milljarða króna í fyrra og 2,5 milljarða króna árið á undan. Samkvæmt þessu er engin fylgni milli þess að útlendingum hérlendis fjölgi og aukningu á fjárhagsaðstoð hins opinbera.
- Í ársskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2016 segir að brotum hafi fækkað í umdæminu á árinu. Þannig var til að mynda ekkert manndrápsmál til rannsóknar hjá embættinu á árinu 2016. Á sama tíma og innflytjendur, flóttamenn og hælisleitendur hafa aldrei verið fleiri.
Auglýsing