Heræfingar Rússa við landamæri Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands og Finnlands, sem ganga undir nafninu Zapad 2017 (Vestur 2017) munu hefjast 14. september næstkomandi. Slíkar æfingar fara fram á fjögurra ára fresti en þær sem núna eru að hefjast verða þær fjölmennustu sem haldnar hafa verið. Samkvæmt reglum Öryggis- og Samvinnustofnunar Evrópu ber Rússum að leyfa erlendum eftirlitsmönnum að fylgjast með æfingum af þessu tagi ef þátttakendur í æfingunum eru fleiri en 13 þúsund. Rússar segja að 5500 rússneskir hermenn og 7200 hermenn frá Hvíta- Rússlandi taki þátt í æfingunum. Evrópskir og bandarískir hernaðarsérfræðingar segja að þátttakendur verði margfalt fleiri, allt að 100 þúsund manns, talan sem Rússar gefi upp sé eingöngu til að sleppa við eftirlitsmennina. Hjá Rússum sé það nánast hefð, við þessar æfingar, að gefa upp tölur sem séu víðs fjarri sannleikanum. Þeir hafa hins vegar boðið fulltrúum nokkurra landa að fylgjast með æfingunum, sem áhorfendur en ekki eftirlitsmenn. Þessir boðsgestir fá einungis að fylgjast með æfingunum eina dagstund.
Ögrun
Nágrönnum Rússa, einkum íbúum Eystrasaltslandanna þriggja, Eistlands, Lettlands og Litháen, og sömuleiðis Pólverjum, stendur stuggur af þessum æfingum Rússa. Það gildir líka um íbúa Úkraínu sem á landamæri að Rússlandi og Hvíta- Rússlandi, þeir muna vel að átökin í Austur- Úkraínu og innlimun Rússa á svæðinu árið 2014 hófust með því sem Rússar kölluðu „heræfingu“. Evrópskir hernaðarsérfræðingar telja að nú vaki fyrst og fremst fyrir Rússum að vekja ótta og ugg og ekki síður að sýna Bandaríkjamönnum og öðrum NATO ríkjum klærnar. Það hafi þeim reyndar tekist, segja sérfræðingarnir.
Kínversk herskip æfðu með Rússum
Þótt heræfingarnar Zapad 2017 hefjist ekki formlega fyrr en 14. september eru þær í raun löngu hafnar. Í júlímánuði héldu rússneski sjóherinn og þrjú kínversk herskip sameiginlegar heræfingar á Eystrasalti. Sigling kínversku herskipanna um danskt hafsvæði vakti talsverða athygli en samkvæmt alþjóðasamningum var ekkert sem hindraði ferðir skipanna. Rússar hafa áður tekið þátt í svipuðum heræfingum á kínversku hafsvæði.
Þótt ekki sé um eiginlega hernaðarsamvinnu Rússa og Kínverja að ræða eru þessar sameiginlegu heræfingar táknrænar, segja hernaðarsérfræðingar. Í ágúst var rússneski flotinn með umfangsmiklar æfingar á Norðursvæðinu , norðan við Murmansk, það var einnig einskonar upphitun fyrir Zapad 2017.
Verjast árásum nágrannanna
Þótt heræfingarnar hafi ekki sérstakan titil, annan en Zapad 2017, er viðfangsefnið sviðsetning á uppreisn „öfgamanna“ sem fá stuðning tveggja „vestrænna nágrannaríkja“. Þau eru ekki nafngreind en miðað við kort er þar um að ræða Pólland og Litháen, fjölmennustu æfingarnar verða syðst í Hvíta- Rússlandi, við borgina Brest. Sviðsetning Zapad æfinganna gengur alltaf út á að Rússland sé í vörn og bregðist við. „Þetta kemur ekki sérstaklega á óvart“ segja hernaðarsérfræðingar. Þetta kemur heim og saman við þau viðhorf Kremlverja að NATO sé ógnin. Tilgangurinn með Zapad 2017 sé að sýna NATO ríkjunum fram á að Eystrasalt sé ekki yfirráðasvæði þeirra, það sé alþjóðasvæði.
Aurora 2017
Zapad 2017 eru ekki einu heræfingarnar sem haldnar eru í september. Á morgun (11. september) hefjast í Svíþjóð fjölmennustu heræfingar sem þar hafa verið haldnar um langt skeið, Aurora 2017. Um 20 þúsund Svíar taka þátt í æfingunum auk hermanna frá nokkrum NATO ríkjum. Sænski varnarmálaráðherrann, Peter Hultqvist, sagði í viðtali við danska dagblaðið Berlingske að þessi samvinna væri ekki tákn um að Svíar væru að íhuga aðild að NATO. Peter Hultqvist sagði ekkert launungarmál að Svíum stæði stuggur af síauknu hernaðarbrölti og ögrunum Rússa. Það segir sína sögu að fyrir nokkrum árum hefði það verið óhugsandi að herir NATO ríkja tækju þátt í sænskum heræfingum en breyttar aðstæður valda því að Svíar leita aukinnar samvinnu við vinaþjóðirnar í NATO.
Stóraukin samvinna Svía og Dana
Claus Hjort Frederiksen varnarmálaráðherra Dana var fyrir nokkrum dögum í heimsókn hjá sænska varnarmálaráðherranum. Fundarefnið var aukin samvinna á hernaðarsviðinu en ráðherrarnir vildu lítið segja að fundinum loknum annað en að þeir væru sammála um að auka hernaðarsamvinnuna, það kæmi báðum þjóðum vel. Embættismaður í sænska varnarmálaráðuneytinu sagði dönskum blaðamönnum sem fylgdust með heimsókninni að Svíar hefðu mun meiri áhyggjur af auknum hernaðarumsvifum Rússa en aðrar þjóðir.
Svíar innleiða herskylduna á ný
Frá og með næstu áramótum verður herskylda tekin upp á nýjan leik í Svíþjóð, hún var aflögð „sett í hvíld“ einsog það var kallað árið 2010. Eftir breytinguna skráðu mun færri sig í herinn en varnarmálaráðuneytið hafði reiknað með, afleiðingin er sú að nú vantar hermenn og því var brugðið á það ráð að innleiða herskylduna á nýjan leik. Svíar, jafnt karlar sem konur, sem fæddir eru árið 1999 eða 2000, fá á næstu vikum tilkynningu varðandi herskylduna og herinn býr sig undir að á næstu tveimur árum muni að minnsta kosti fjögur þúsund, hvort ár, fá þjálfun í hermennsku. Gert er ráð fyrir að þjálfunin standi í upp undir eitt ár. Áðurnefndur embættismaður í sænska varnarmálaráðuneytinu sagði að þetta væri ekki nein óska staða en hins vegar brýn nauðsyn.
Auka útgjöld til hermála
Aukin hernaðarumsvif Svía kalla á aukin útgjöld sænska ríkisins. Í síðasta mánuði ákvað sænska ríkisstjórnin, í samvinnu við fleiri flokka á sænska þinginu, að á næstu þremur árum, 2018 – 2020 skyldu útgjöld ríkisins samtals aukin um 8.1 milljarð króna (109 milljarða íslenska). Þessi útgjaldaaukning er fyrst og fremst tilkomin vegna fjölgunar í sænska herliðinu en í umræðum í sænska þinginu kom fram að stór hluti tækjakosts sænska hersins er orðinn gamall og þarfnast endurnýjunar. Viðbótarfjárveitingarnar sem þingið ákvað í síðasta mánuði duga hins vegar ekki til slíks.