Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, íhugar næstu skref sín í kjölfar þess að Björt framtíð ákvað að segja sig frá þriggja flokka samsteypustjórn hans.
Fjölmiðlar sátu um fyrir Bjarna fyrir framan Valhöll í dag þar sem hann gekk á fund þingflokks síns. Hann ætlar að ræða við fjölmiðla um málið síðar í dag.
Ekkert hefur heyrst frá Bjarna síðan upplýst var að faðir hans hefði verið einn meðmælanda fyrir því að Hjalti Sigurjón Hauksson, dæmdur barnaníðingur, fengi uppreist æru. Sigríður Andersen dómsmálaráðherra viðurkenndi að hafa upplýst Bjarna um aðkomu föður hans í júlí.
Nú er beðið eftir því að Bjarni Benediktsson stígi fram og tjái sig um atburði næturinnar. Óvíst er hver pólitísk framtíð Bjarna er eftir þessa atburðarás, eða hver afstaða hans er til nýrra kosninga.
Ekki þögull í fyrsta sinn
Bjarni Benediktsson var kallaður „Teflon-Bjarni“ í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun af Andrési Jónssyni, almannatengli og ráðgjafa. Bjarni þykir einkar fær í því að koma sér undan í erfiðum málum enda hefur hann sloppið tiltölulega vel í samanburði við aðra stjórnmálaleiðtoga.
Bjarni hefur á margan hátt birst kjósendum sem stöndugur leiðtogi stærsta flokks á Íslandi. Hann hefur staðið fast með sínum málum í hinum pólitíska slag en látið glitta í tilfinningar þegar þess hefur verið þörf. Án þess að draga það í efa að tilfinningar hans hafi verið raunverulegar, þá var það gríðarlega mikilvægt pólitískt séð þegar hann grét í stjórnmálaleiðtogaviðtali í Sjónvarpinu í aðdraganda kosninganna 2013.
Það er þess vegna tilefni til þess að rifja upp pólitíska fimi Bjarna í þeim málum þar sem mest hefur legið á.
Panamaskjölin
Bjarni Benediktsson var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á síðasta kjörtímabili. Í apríl 2016 voru fluttar fréttir úr Panamaskjölunum svokölluðu þar sem hulunni var svipt af reikningum íslenskra auðjöfra í skattaskjólum. Bjarni Benediktsson var þar nefndur eins og Sigmundur Davíð.
Á meðan Sigmundur Davíð stóð í ströngu hér á Íslandi, og sagði síðan af sér, missti Bjarni af fluginu sínu úr fjölskyldufríi á Flórída. Ekkert heyrist í honum í fjölmiðlum fyrr en hann var kominn til landsins og á fund forseta Íslands á Bessastöðum. Þá hafði Bjarna tekist að afla sér nógu miklum stuðningi bak við tjöldin til þess að halda velli sem mikilvæg stoð í annars flóknu stjórnarsamstarfi við Framsóknarflokkinn.
Óheppilegar skýrslur undir stól
Það var umdeilt þegar skýrslur um áhrif Leiðréttingarinnar svokölluðu voru ekki gefnar út af fjármála- og efnahagsráðuneytinu í aðdraganda snemmbúnu kosninganna í fyrra. Þá höfðu fjölmiðlar gengið á eftir því að fá þessar skýrslur, sem sannarlega höfðu verið unnar.
Niðurstöður skýrslnanna voru ekkert sérstaklega kosningavænar. Tekjuháir og eignamiklir fengu langmest í sinn hlut í Leiðréttingunni.
Vinnu við skýrslu um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána – hina svokölluðu Leiðréttingu – lauk um miðjan október 2016, áður en síðustu Alþingiskosningar fóru fram. Í janúar 2017 var fyrstu efnisgrein skýrslunnar bætt við hana og hún í kjölfarið birt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins þann 18. janúar, þremur mánuðum eftir að vinnslu hennar lauk og nýr ráðherra fjármála- og efnahags hafði tekið við.
Vafningur og Borgun
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra var lengi virkur í viðskiptalífinu á Íslandi. Hann sagði skilið við það í lok árs 2008 til að einbeita sér að því að vera stjórnmálamaður, og ekkert við það að athuga.
Tengsl fjölskyldu hans við atvik í viðskiptalífinu sem þykja orka tvímælis eru hins vegar sífellt að vefjast fyrir Bjarna á stjórnmálaferlinum. Fyrst var það Vafningsmálið, þar sem Bjarni skrifaði undir veðskjöl fyrir hönd ættingja sinna og þurfti fyrir vikið að bera vitni í sakamáli. Næst kom Borgunar-málið svokallaða. Þar seldi Landsbankinn, sem er í eigu ríkisins, hlut sinn í greiðslukortafyrirtækinu Borgun bakvið luktar dyr. Í kaupendahópnum voru ættingjar Bjarna.