Síðustu þrjár ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið þátt í hafa fallið og ekki setið heilt kjörtímabil.
Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, benti á þessa staðreynd í aukafréttatíma RÚV vegna stjórnarslitana.
Bjarni Benediktsson hefur setið í tveimur þessara þriggja ríkisstjórna sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Fyrst sem fjármálaráðherra í samsteypustjórn með Framsóknarflokknum eftir kosningarnar 2013 og svo sem forsætisráðherra í samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar eftir kosningarnar 2016.
Geir Haarde var formaður Sjálfstæðisflokksins eftir kosningarnar 2007 þegar hann fór fyrir samsteypustjórn með Samfylkingunni.
Allar þessar stjórnir hafa sprungið með töluverðum látum.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur þess vegna ekki komið að ríkisstjórn sem setið hefur heilt kjörtímabil síðan Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson mynduðu saman ríkisstjórn árið 2003. Það kjörtímabil reyndist það síðasta fyrir Davíð sem gegndi stöðu forsætisráðherra til ársins 2004, þegar Halldór tók við lyklunum að Stjórnarráðinu. Halldór og Davíð hættu svo báðir í pólitík á þessu kjörtímabili svo Geir Haarde fékk stóru skrifstofuna við Lækjargötu 2006.
Hrunstjórnin
Þegar ljóst var að í óefni stefndi hausið 2008 voru dagar ríkisstjórnar Geirs Haarde taldir. Efnahagshrunið gleypti ríkisstjórnina og ný stjórn tók við 1. febrúar 2009. Það var minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.
Boðað var til kosninga um vorið 2009, tveimur árum áður en kjörtímabilinu var lokið, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Bjarna Benediktssonar (sem hafði verið kjörinn formaður 29. mars 2009) fékk verstu kosningu í Alþingiskosningum í langan tíma; Flokkurinn fékk samtals 23,7 prósent atkvæða.
Samsteypustjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur var hins vegar mjög óvinsæl. Jóhanna ákvað að gefa ekki kost á sér undir lok kjörtímabilsins og Árni Páll Árnason leiddi flokkinn í kosningum 2013. Samfylkingin fékk þá að kenna á óvild kjósenda gagnvart stjórnvöldum og fékk aðeins 12,9 prósent.
Wild boys-stjórnin
Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Bjarna var stærsti einstaki stjórnmálaflokkurinn á þingi eftir kosningarnar 2013. Framsóknarflokkurinn undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar var hins vegar ótvíræður sigurvegari kosninganna og það var þess vegna Sigmundur sem fékk boð frá Ólafi Ragnari Grímssyni, þáverandi forseta Íslands, um að koma á Bessastaði og þiggja stjórnarmyndunarumboðið.
Bjarni stefndi flokki sínum með Framsóknarflokknum í samsteypustjórn sem stundum var kölluð Wild boys-stjórnin, enda höfðu Bjarni og Sigmundur hringt inn í vinsælan útvarpsþátt og beðið um Wild Boys með Duran Duran, á meðan þeir voru í sumarbústað á leynilegum stað að búa til stjórnarsáttmála.
Bæði Bjarni og Sigmundur höfðu hins vegar komið auðæfum sínum undan og skráð þau í skattaskjólum. Um það var upplýst í Panamaskjölunum vorið 2016 með þeim afleiðingum að Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra. Bjarni stóð keikur og stóð af sér storminn í fjölskyldufríi á Flórída.
Sigurður Ingi Jóhannsson tók við forsætisráðuneytinu á eftir Sigmundi Davíð og boðað var til snemmbúinna kosninga haustið 2016, um það bil hálfu ári áður en kjörtímabilinu var lokið.
Engeyjarstjórnin
Eftir kosningarnar í október 2016 var komin upp flókin staða í íslenskum stjórnmálum. Engir tveir flokkar gátu myndað meirihluta saman á þinginu og því var ljóst að þrjá eða fleiri flokka þyrfti til þess að koma á starfhæfri meirihlutastjórn.
Þegar margar tilraunir höfðu verið gerðar til að leiða saman hin ýmsu flokkamynstur tókst Bjarna Benediktssyni, sem aftur hafði leitt Sjálfstæðisflokkinn í kosningum og fengið flest atkvæði, að mynda stjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð. Stjórnin var af einhverjum kölluð Engeyjarstjórnin, jafnvel þó það hefði aldrei fests að viti, enda þótti það fréttaefni að Bjarni og Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar væru frændur og af Engeyjarættinni svokölluðu.
Stjórnin féll svo um sjálfa sig ef svo má segja, þegar upp komst að faðir Bjarna hefði veitt dæmdum barnaníðingi meðmæli fyrir uppreist æru. Bjarni hafi gengið með þá vitneskju í tvo mánuði áður en hann skýrði frá því við félaga sína í ríkisstjórn. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, tilkynnti Bjarna stjórnarslitin í gærkvöldi.
Flókin staða tekur við
Óvíst er hver næstu skref verða á stjórnarheimilinu. Það eru nokkrir möguleikar í stöðunni. Hægt er að boða til nýrra þingkosninga ári eftir að kosið var síðast, þingflokkarnir gætu reynt að gera nýja tilraun til að mynda ríkisstjórn, Bjarni gæti freistað þess að fá Bjarta framtíð til þess að skipta um skoðun, og jafnvel boðist til að segja af sér til þess að Sjálfstæðisflokkurinn fái enn sæti í Stjórnarráðinu.