Í september á síðasta ári sendi blaðamaður danska blaðsins Ingeniören, sem fjallar einkum um alls kyns tæknileg málefni, fyrirspurn til danska Varnarmálaráðuneytisins. Spurt var, og svars krafist, hvort rétt væri að Norðurkóreskir verkamenn ynnu að smíði herskips fyrir danska flotann í pólsku skipasmíðastöðinni Crist Shipyard. Flotinn hafði samið um smíði skipsins við dönsku skipasmíðastöðina Karstensens Skibsværft, sem hafði síðan samið um smíði skipsskrokksins við pólska fyrirtækið. Blaðamaðurinn hafði lesið grein um pólsku skipasmíðastöðina í norsku blaði, Teknisk Ukeblad, þar sem danska herskipið var nefnt.
Varnarmálaráðuneytið sendi fyrirspurn blaðamannsins til innkaupa- og eftirlitsnefndar ráðuneytisins. Svar barst fjórum dögum síðar: ekkert væri til í því að Norðurkóreskir verkamenn ynnu, eða hefðu unnið, að smíði skipsins. Fram kom í svari ráðuneytisins til blaðamannsins hjá Teknisk Ukeblad að starfsmenn innkaupa- og eftirlitsnefndar hefðu mörgum sinnum heimsótt pólsku skipasmíðastöðina, en einsog stóð í svari nefndarinnar til ráðuneytisins „hefðu þeir ekki séð, né haft grun um, að aðrir en pólskir, eða aðrir evrópskir starfsmenn ynnu að smíðinni.
Síðar kom í ljós að heimsóknir eftirlitsnefndarinnar voru tilkynntar fyrirfram og tilgangur þeirra heimsókna var að fylgjast með smíðinni en ekki aðbúnaði og þjóðerni starfsmanna. Eftirlitsnefndin skrifaði Karstensens og óskaði eftir að fyrirtækið fengi staðfestingu pólsku skipasmíðastöðvarinnar varðandi spurninguna um þjóðerni starfsmanna sem unnið hefðu að smíði danska herskipsins. Svar Pólverjanna hjá Crist Shipyard var stutt og laggott: engir Norðurkóreskir starfsmenn hafa unnið að smíði þessa skips. Norski blaðamaðurinn hjá Teknisk Ukeblad aðhafðist ekki frekar, eftir þetta afdráttarlausa svar. Í bili.
Upplýsingar pólska vinnueftirlitsins
Norski blaðamaðurinn og kollegar hans hjá Teknisk Ukeblad voru ekki alls kostar sáttir við svörin frá Pólverjunum og höfðu samband við pólska vinnueftirlitið. Í gögnum þess stóð, svart á hvítu, að Crist Shipyard hefði haft 45 Norðurkóreska starfsmenn í vinnu við tíu verkefni. Eitt þessara verkefna var smíði skipsskrokksins NB428, danska herskipsins sem síðar fékk nafnið Lauge Koch.
Norðurkóresku starfsmennirnir voru ráðnir fyrir milligöngu vinnumiðlunarinnar Armex, sem hafði ráðið mennina til starfa gegnum Norðurkóreskt fyrirtæki Rungrado. Rungrado er undir stjórn verkamannaflokks Norður-Kóreu og er þekkt fyrir að „flytja út“ til fjölmargra landa tugþúsundir verkamanna sem vinna langan vinnudag og búa oftar en ekki í vinnubúðum sem teljast ekki mannsæmandi á vestrænan mælikvarða. Laun þessara verkamanna renna að stærstum hluta til Norðurkóreska ríkisins og eru mikilvæg gjaldeyristekjulind.
Danska sjónvarpið tekur málið upp
Snemma á þessu ári hafði DR, Danska sjónvarpið, samband við innkaupa- og eftirlitsnefnd Varnarmálaráðuneytisins og óskaði svara við sömu spurningum og blaðamaður Teknisk Ukeblad hafði borið upp við ráðuneytið.
Svörin voru þau sömu og áður: enginn Norðurkóreskur starfsmaður hafði komið nálægt smíði danska herskipsins. Það sem danska varnarmálaráðuneytið vissi ekki var að starfsmenn DR höfðu farið í Crist Shipyard skipasmíðastöðina í Gdynia. Þar höfðu margir starfsmenn staðfest að þeir hefðu unnið með Norðurkóreskum verkamönnum, meðal annars við smíði danska herskipsins. Þótt þessar upplýsingar væru lagðar fyrir Varnarmálaráðuneytið hélt ráðuneytið fast við fyrri skýringar.
Smíði skipshluta er ekki sama og smíði skips
Danska sjónvarpið sýndi fyrir nokkrum dögum þátt um „Lauge Koch málið“ eins og það er kallað. Þátturinn vakti mikla athygli og margir danskir fjölmiðlar hafa fjallað ítarlega um málið. Dagblaðið Information hafði samband við Crist Skipyard varðandi Norðurkóresku verkamennina, Crist vísaði á starfsmann áðurnefnds Armex. Sá kvaðst ekki þekkja neitt til þessa máls þrátt fyrir að nafn hans sé víða að finna í skjölum varðandi verkamennina. Þegar blaðamenn Information gengu á starfsmann eftirlitsnefndar Varnarmálaráðuneytisins með þessar upplýsingar og fleiri, sneri ráðuneytið skyndilega við blaðinu, til hálfs mætti kannski segja.
Neitaði að Norðurkóreskir verkamenn hefðu unnið að skipasmíðinni, EN hugsanlegt væri að þeir hefðu unnið að smíði „afmarkaðra skipshluta (præfabrikation) sem væri allt annað en að smíða skip. Information eftirlét lesendum að túlka þetta svar. Nú var athygli þingmanna hinsvegar vakin og þeir heimta nú skýringar.
Varnarmálaráðherrann tregur til svars
Danskir fréttamenn hafa ítrekað reynt að ná tali af Claus Hjort Frederiksen varnarmálaráðherra. Þótt hann sé venjulega fús að tjá sig hefur hann í þessu máli nánast verið þögull sem gröfin. Sendi frá sér tölvupóst þar sem hann sagði að „ef það reyndist rétt að verkamenn frá Norður-Kóreu hefðu unnið að smíði dansks herskips væri það skandall.“ Dönsku miðlarnir segja að ráðherrann þurfi ekki að vera með neitt „ef“ í þessu máli. Það liggi fyrir að Pólverjar, þar á meðal Crist Shipyard, hafi árum saman haft Norðurkóreska nauðungarverkamenn í vinnu, það hafi meðal annars Alþjóða verkamannasambandið staðfest.
Og nú hefur komið í ljós að Norðurkóresku verkamennirnir hafi auk herskipsins Lauge Koch unnið að smíði tveggja samskonar skipa fyrir danska flotann.
Þingmenn krefjast rannsóknar
Þingmenn fimm stjórnarandstöðuflokka á danska þinginu, Folketinget, hafa nú krafist þess að Varnarmálaráðuneytið rannsaki málið, til hlítar. Ráðuneytið svaraði strax, vildi fá að vita hvað nákvæmlega þingmenn vildu fá að vita og bætti svo við að það væri erfitt að rannsaka þetta mál því svo langt væri um liðið.
Þingmaður sem eitt dönsku blaðanna ræddi við sagði að svar ráðuneytisins væri dæmigert svar embættismanna, þeim væri nær að rannsaka málið en vera með einhvern undanslátt. Þótt þeir gætu sett sig á háan hest gagnvart fréttamönnum þýddi slíkt ekki þegar þingmenn ættu í hlut.