Heilir fjórtán mánuðir voru eftir af kjörtímabili Abe þegar hann ákvað að efna til þingkosninga. Abe, sem hefur gegnt embætti forsætisráðherra frá lok 2012, hefur gefið upp tvær meginástæður fyrir því að rjúfa þing: annars vegar til þess að sækjast eftir staðfestingu á stuðningi almennings við viðbrögð ríkisstjórnar hans við aukinni spennu á Kóreuskaga og hins vegar til að meta stuðning almennings við áform hans um hvernig eigi að verja auknum tekjum ríkissjóðs sem afleiðing af aukningu í söluskatti í landinu.
Abe brást harkalega við þegar norður-kóresk stjórnvöld skutu upp tveimur eldflaugum sem flugu yfir Hokkaido-eyju í Norður-Japan og lentu í sjónum um 2200 kílómetrum austan við eyjuna. Hann sagði að „þörf væri á því að láta Norðu-Kóreu fatta að ef það heldur uppteknum hætti mun landið ekki eiga bjarta framtíð“ og hvatti til herðingu viðskiptabannsins við Norður-Kóreu. Abe, sem er leiðtogi hægriflokksins Liberal Democratic Party (LDP), er hlynntur breytingum á japönsku stjórnarskránni sem setur skýr takmörk á stærð og aðgerðir japanska hersins og ekki er ólíklegt að spennan á Kóreuskaga muni gera honum kleift að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar á næsta kjörtímabili.
Þá stendur til að hækka söluskatt í Japan úr 8% í 10% árið 2019 sem samkvæmt spám mun leiða til 45 milljarða Bandaríkjadala til viðbótar í ríkissjóð. Þær tekjur áttu að fara til að greiða niður hluta af skuldum japanska ríkisins en Abe hefur lagt til að tæplega helmingur fari til menntamála. Abe segist vilja bera þessa ákvörðun undir þjóðina í þingkosningunum.
Stjórnarandstaðan ekki eins sundruð og við fyrstu sýn
Þrátt fyrir ástæðurnar sem Abe gaf upp fyrir að rjúfa þing eru aðrir þættir sem mögulega útskýra ákvörðunina betur. Eftir að hafa séð stuðning við ríkisstjórn sína hrynja í sumar vegna ítrekaðra skandala, sem snúast að mestu um persónu Abe en upp hefur komist um ýmsa greiða og fyrirgreiðslur til félaga sinna sem hann hefur staðið fyrir á síðustu misserum, jókst stuðningurinn við Abe aftur í kjölfar aðgerða Kim Jong-un á Kóreuskaga. Þá gekk stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Democratic Party (DP), í gegnum mikla lægð í skoðanakönnunum og mældist undir 10%, og hefur Abe séð sér leik á borði að tryggja heilt nýtt kjörtímabil sem forsætisráðherra eftir að hafa komið í gegn breytingum í LDP-flokki sínum fyrr á árinu sem leyfa honum að leiða flokkinn fram að árinu 2021. Leiðin virðist því vera tiltölulega greið fyrir Abe; ríkisstjórnin hans hefur nú þegar tvo þriðju meirihluta þingsæta og líklegt þykir að þingkosningarnar 22. október muni að minnsta kosti veita honum meirihluta.
Þó er einn óvissuþáttur sem gæti skemmt fyrir Abe. Hinn vinsæli borgarstjóri Tókýo, Yuriko Koike, tilkynnti stofnun nýs stjórnmálaflokks sama dag og Abe boðaði til nýrra kosninga. Skömmu síðar tilkynnti DP að flokkurinn myndi í raun leysast upp og hvöttu leiðtogar flokksins frambjóðendur sína að ganga til liðs við Koike og bjóða sig fram undir formerkjum nýs flokks hennar, Party of Hope. Koike, sem er fyrrverandi ráðherra í fyrstu, og skammlífustu, ríkisstjórn Abe á milli 2006 og 2007, hefur skilgreint sig sem íhaldssaman pópulista og hefur þegar sýnt getu sína til að bjóða sig fram gegn LDP bæði með sigri í borgarstjórnarkosningum Tókýó-borgar og velgengni í sveitastjórnarkosningum í sömu borg síðastliðið sumar. Stefnur flokks Koike eru ekki fjarri því að samræmast stefnum LDP-flokks Abe en þó hefur Koike gagnrýnt Abe fyrir sýna ekki aðhald í ríkisfjármálum ásamt því að heita því að binda enda á áform Abe um að endurræsa kjarnorkuver landsins eftir að þeim var lokað í kjölfar Fukushima-hamfaranna árið 2011. Fyrst og fremst auglýsir flokkur Koike sig sem valmöguleika við þá spillingu sem einkennt hefur hluta af stjórnartíð Abe-ríkisstjórnarinnar. Til þess að Koike gæti átt möguleika á forsætisráðherrastólnum yrði hún að segja af sér stöðu borgarstjóra og formlega skrá sig í framboð fyrir þingsæti en hingað til hefur hún ekki viljað gera það.
Með því að rjúfa þing og boða til þingkosninga er Abe að taka áhættu; annað hvort tekst honum að tryggja sér nýtt kjörtímabil sem forsætisráðherra eftir erfitt kjörtímabil þar sem stuðningur við ríkisstjórnina hefur sveiflast til og frá, eða þá mun hann bíða óvæntan ósigur vegna þreytu almennings á stjórnarháttum hans. Þá er framboð Koike einnig áhætta fyrir hana; ef hún telur að sigur í kosningunum sé innan seilingar, segir af sér sem borgarstjóri Tókýó, og bíður síðan ósigur þá er stjórnmálaferill hennar í hættu. Að öllum líkindum mun Abe ná að tryggja sér fjögur ný ár en ljóst er að kosningabaráttan verður snúnari en búist var við fyrir nokkrum vikum síðan.