Það er staðfest...Ísland fer á HM!

Íslenska karlalandsliðið er komið á lokamót HM í Rússlandi eftir sigur á liði Kósovo í Laugardalnum í kvöld. Lið sem hefur þegar skráð sig á spjöld knattspyrnusögunnar bætti enn við þann kafla í kvöld. Með gylltu letri.

7DM_6480_raw_171009.jpg ísland landslið fótbolti knattspyrna
Auglýsing

25 mánuðum og tveimur dögum eftir að taugaveiklað jafntefli tryggði Íslendingum þann sögulega árangur að verða fámennasta þjóð nokkru sinni til að ná að komast á lokamót karlalandsliða var liðið mætt aftur með sambærilegt verkefni fyrir framan sig. Í þetta sinn lá fyrir að jafnvel tap væri nóg til að komast á HM í Rússlandi næsta sumar og um fremja eitt mesta, ef ekki mesta, afrek sem íslenskt íþróttalið hefur framkvæmt.

En það var ljóst frá því þeir tæplega tíu þúsund manns sem urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að fá miða á leik kvöldsins fóru að týnast í gegnum rigningarskúranna á Laugardalsvöllinn að tap væri ekki inn í myndinni. Ísland væri komið í þá stöðu sem liðið var komið í vegna þess að liðið er á meðal bestu liða Evrópu. Og það ætlaði ekki að láta Kósovo, botnliðið í riðlinum með eitt stig, stöðva sig í að ná hinu magnaða markmiði að komast á HM í fyrsta sinn.

Liðið, umgjörðin, áhorfendur og bara þjóðin sem knattspyrnuáhugamenn eru komin ansi langt frá þeirri stöðu sem Ísland var í þegar fyrsti möguleikinn á þátttöku á lokamóti HM varð fyrir fjórum árum síðan. Þá lék liðið umspilsleiki við Króatíu og eftir hugað jafntefli á heimavelli, þar sem hluti vallarins í Laugardalnum var samkvæmt heimildum spreyjaður grænn til að líta ekki of haustlega út í sjónvarpinu, tapaði liðið sannfærandi á útivelli. Spennustigið var augljóslega of mikið.

Auglýsing

Nú var staðan allt önnur. Liðið hafði náð að komast á EM og í raun unnið lokamótið í Frakklandi með frammistöðu sinni, þótt það hafi ekki endað í fyrsta sæti. Leikmennirnir þekkja og ráða við pressuna og eru hoknir af reynslu. Umgjörðin í kringum leikina og liðið hefur tekið algjörum stakkaskiptum. Svokallað Fan Zone blasti til að mynda við á bílastæði Laugardalsvallarins, þriðja heimaleikinn í röð. Og miðar á völlinn seldust upp á nokkrum mínútum, líkt og þeir hafa gert á nær alla heimaleiki árum saman. Áhorfendur eru vanir því að taka Víkingaklöpp, syngja með lögunum og búa til hljóðmúr sem virkar eins og tólfti og stundum þrettándi maður.

Fyrri hálfleikur

Ein breyting var gerð á liðinu frá hinum stórkostlega 0-3 sigri á Tyrkjum á föstudag. Alfreð Finnbogason fór á bekkinn og Emil Hallfreðsson, sem var í banni í Tyrkjaleiknum, kom aftur inn á miðjuna.

Blaðamannastúkan var óvenjulega þéttsetin, sérstaklega í ljósi þess að ekki var mikið um blaðamenn frá Kósovo þar að finna. Í stað þeirra voru fulltrúar nokkurra af stærstu miðlum heims að skrásetja ævintýrið. Og Stan Collymore, sem fór alla leið í upplifunarferlinu með því að hita upp á Ölveri með Tólfunni.

Íslenska liðið kom mjög einbeitt til leiks og gæðamunurinn á liðunum skein í gegn á fyrstu 15 mínútum leiksins. Það skapaði hverja hættulegu sóknarstöðuna á fætur annarri án þess þó að úr þeim kæmi alvöru færi. En liðið lokaði vel öllum svæðum og leikmenn Kósovo áttu í mestu vandræðum með að halda bolta innan síns liðs. Þeir náðu reyndar að skora úr fyrstu sókn sinni, en búið var að flagga rangstöðu löngu áður en þeir settu boltann í markið hjá Hannesi Halldórssyni, sem reyndi ekki einu sinni að verja.

Næstu mínúturnar hægðist á leiknum. Íslenska liðið var þolinmótt í leik sínum og leitaði að réttu leiðunum fram hjá varnarmúr Kósovo. Helsta vopn gestanna virtist vera að þruma fram á tæplega tveggja metra háa og örugglega yfir 100 kílóa framherjann sinn, Atdhe Nuhiu. Mjög áhugaverður leikmaður sem virtist í miklum vandræðum með að fóta sig og nýtast á blautum vellinum.

Þótt Ísland væri mun meira með boltann var samt lítið að gerast. Og á 38 mínútu áttu Kosovo-menn stórhættulegt skot sem margir í stúkunni sáu inni. En þá gerðist það sem iðulega gerist með þetta ótrúlega lið. Þeir fóru fram í sókn og innan við tveimur mínútum síðar hafði Gylfi Sigurðsson, besti leikmaður sem Ísland á, prjónað sig í gegn og skorað. Spennan liðaðist úr áhorfendum á sama tíma og þeir hreinlega sprungu úr gleði. Eins og var, þá var Ísland á leiðinni á HM. Sama hvernig aðrir leikir færu.

Þetta breytti leiknum strax. Kósovo varð að færa sig upp úr skotgröfunum og koma framar á völlinn. Augljóst var að það myndi opna á fleiri sóknarmöguleika fyrir íslenska liðið.

1-0 í hálfleik og Ísland 45 mínútum frá því að komast á HM.

Seinni hálfleikur

Stan Collymore var hress í hálfleik og gantaðist við íslenska fjölmiðlamenn. Hann vildi fá að vita hvort það yrði ekki örugglega frí hjá allri þjóðinni á morgun ef fram færi sem horfði. Og öllum Íslendingum virtist mjög létt að þurfa ekki að fara inn í seinni hálfleikinn í jafnri stöðu. Leikur Úkraínu og Króatíu var reyndar enn markalaus í hálfleik þannig að Ísland væri hvort eð er áfram í efsta sæti riðilsins sama hver staðan í okkar leik væri. En það vildi enginn þurfa að treysta á úrslit annarra leikja. Við höfðum þegar eignast þjóðhetju úr öðru landsliði í Finnanum Pyry Soiri. Það var nóg.

Kosovo-menn byrjuðu hálfleikinn betur og voru að finna svæði á vallarhelmingi Íslands sem þeir fundu ekki í fyrri hálfleik, en þó án þess að skapa mikla hættu. Spennustigið reis aftur hægt og bítandi og öllum sem á horfðu var ljóst að þetta yrði gríðarlega taugatrekkjandi ef Ísland bætti ekki við marki.

Eftir klukkutímaleik var hetjunni úr Tyrkjaleiknum, Jóni Daða Böðvarssyni, skipt út af fyrir Alfreð Finnbogason. Um svipað leyti komust Króatar yfir gegn Úkraínu og miðað við þá stöðu var ljóst að ekkert nema sigur myndi duga Íslandi. Regninu kyngdi niður og leikurinn varð þungur fyrir vikið. En mínúturnar héldu áfram að líða og liðið færðist nær markmiðinu.

Á 67 mínútu gulltryggðu Íslendingar síðan farseðilinn til Rússland. Gylfi Sigurðsson tók stórkostlega á móti sendingu, óð upp völlinn, fann Birki Bjarnason sem rendi boltanum aftur inn á teiginn á Gylfa sem galdraði sig upp að endalínu og fann Jóhann Berg Guðmundsson fyrir markinu. 2-0.

Eftir þetta var bara partý. Liðið spilaði skyndilega léttleikandi bolta og „Ísland á HM“ ómaði úr stúkunni. Markmiðinu var náð. Og það vissu það allir. Svo niðurneglt var það að Aron Einar Gunnarsson, fyrirliðinn sjálfur, var tekinn út af þegar tæpar 20 mínútur voru eftir. Ísland átti nokkur færi til að bæta við en það var óþarfi. Þetta var komið.

Það verða margir ryðgaðir í vinnunni á morgun. 

Til hamingju drengir. Til hamingju þjálfarar. Til hamingju KSÍ. Til hamingju Ísland.Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Einstök lönd geta ekki „bólusett sig út úr“ faraldrinum
Þrjú ríki heims hafa bólusett yfir 70 prósent íbúa. Ísland er eitt þeirra. Hlutfallið er undir 1,5 prósenti í Afríku. Ef ekki næst að koma því í 10 prósent bráðlega verður það „ör á samvisku okkar allra“ enda nóg til að bóluefnum, segir sérfræðingur WHO.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Fékk „bakteríuna“ eftir Söngvakeppni sjónvarpsins
„Lögin hafa orðið til á yfir 20 ára tímabili og er því nokkur breidd í þessu hjá mér; allt frá stígandi ballöðum til eins konar rokkóperu,“ segir Pétur Arnar Kristinsson sem blásið hefur til söfnunar fyrir útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Smári McCarthy er að hætta á þingi og ætlar í kjölfarið að láta reyna á sitt eigið hugvit í tengslum við loftslagsbreytingar.
„Flokkarnir voru að þvælast fyrir hvorum öðrum“ og niðurstaðan varð núll
Smára McCarthy fráfarandi þingmanni Pírata finnst sem undanfarin fjögur ár hafi litast af því að lítið ráðrúm hafi verið til þess að ræða pólitík, þar sem stjórnarflokkarnir eru ósammála um mörg grundvallarmálefni.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Það er fremur fátítt að sólarhringsúrkoma í Reykjavík mælist meira en 20 mm eða meiri að sumarlagi.
Rignir af meiri ákefð nú en áður?
Fátt bendir til þess að Ísland sleppi alfarið við aftakaúrkomu sem nágrannaríki okkar hafa upplifað á síðustu árum, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og veltir fyrir sér getu fráveitukerfa til að taka við meiriháttar vatnsflaumi.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Norska kvennaliðið í strandhandbolta að loknu Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu á dögunum.
Bikiní- og stuttbuxnadeilan
Nýafstaðið Evrópumeistaramót í strandhandbolta vakti mikla athygli víða um heim. Það var þó ekki keppnin sjálf sem dró að sér athyglina heldur deilur um klæðnað. Nánar tiltekið klæðnað norska kvennalandsliðsins.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Joe Biden forseti Bandaríkjanna tilkynnti í apríl að viðskiptaþvingunum yrði beitt á Rússland vegna njósnanna.
Brotist inn í tölvupósta bandarískra saksóknara
Óttast er að viðkvæmum gögnum hafi verið stolið er brotist var inn í tölvur tæplega þrjátíu embætta saksóknara í Bandaríkjunum á síðasta ári. Bandarísk yfirvöld telja Rússa standa að baki árásinni.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eftir helgi verða breytingar á ferðatakmörkunum til Bretlands.
Fagna ákvörðun Breta um að bólusettir sleppi við sóttkví
„Hvenær ætla Bandaríkin að svara í sömu mynt?“ spyrja Alþjóða samtök flugfélaga sem fang ákvörðun Breta um að aflétta sóttkvíarkröfum á bólusetta farþega frá Bandaríkjunum og ESB-ríkjum.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eggert Gunnarsson
Hamfarakynslóðin
Kjarninn 31. júlí 2021
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar