Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur synjað Kjarnanum um aðgang að upplýsingum um hvaða einstaklingar og lögaðilar nýttu sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands á þeim tíma sem hún stóð til boða.
Kjarninn óskaði eftir upplýsingunum þann 28. september síðastliðinn og gerði það á grundvelli upplýsingalaga, þar sem það var mat ritstjórnar hans að umbeðnar upplýsingar féllu ekki undir ákvæði laganna um þær upplýsingar sem væru undanþegin upplýsingarétti. Kjarninn taldi rétt að beina fyrirspurninni til ráðuneytisins í ljósi þess að það fjármála- og efnahagsráðherra hafði þegar svarað fyrirspurn frá þingmanni um fjárfestingarleiðina með ítarlegum hætti. Í fyrirspurninni var enn fremur tekið fram að það mætti færa rök fyrir því að fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands brjóti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrár íslenska lýðveldisins í ljósi þess að um er að ræða stjórnvaldsaðgerð sem stóð einungis fólki sem átti fyrst 50 þúsund evrur í lausu fé, og síðar 25 þúsund evrur í lausu fé, til boða. Hún stóð einnig einungis þeim Íslendingum sem áttu fé erlendis til boða. Og þessum aðilum stóð til boða að fá umtalsverða virðisaukningu á fé sitt í krafti þess að eiga fé erlendis.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur sig ekki geta orðið við beiðni Kjarnans um umræddar upplýsingar. Í svari þess, sem barst 4. október, segir að ráðuneytið búi ekki yfir umbeðnum upplýsingum. Þær séu hjá Seðlabankanum sem sé sjálfstæð stofnun. Ráðuneytið geti ekki „óskað eftir upplýsingum af þessum toga á grundvelli almennra eftirlitsheimilda, sbr. 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011, nema þá helst til að bregðast við grun um kerfislæga annmarka í stjórnsýsluframkvæmd. Eins og staðan er nú hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að framkvæmd Seðlabankans hafi verið slíkum annmörkum háð. Þannig hafa skattyfirvöld ekki upplýst um annmarka á framkvæmdinni, en málsmeðferð er þó ekki að fullu lokið af þeirra hálfu. Þá hafa upplýsingar sem komið hafa fram, m.a. í tengslum við svör ráðherra á Alþingi sem vísað er til í fyrirspurn Kjarnans, ekki heldur gefið tilefni til að ætla að kerfislægir annmarkar hafi verið á framkvæmdinni.“
Kjarninn hafði áður kallað eftir upplýsingum frá Seðlabanka Íslands þann 9. janúar 2017 um það hvaða tilteknu einstaklingar og lögaðilar tóku þátt í umræddum útboðum. Seðlabankinn sagði í svari sínu að hann gæti ekki „tjáð sig um þátttöku tiltekinna einstaklinga og lögaðila í útboðum bankans með vísan til þagnarskylduákvæðis 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn getur því ekki veitt umbeðnar upplýsingar um nöfn þeirra sem tóku þátt í fjárfestingarleið Seðlabankans, uppruna fjár þeirra og umfang viðskipta hvers og eins.“
Kjarninn hefur kært synjun fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Seðlabanka Íslands um aðgang að umbeðnum upplýsingum til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem hefur staðfest að kæran gegn ráðuneytinu verði tekin fyrir. Of langt er hins vegar um liðið frá því að synjun Seðlabankans um aðgengi að umbeðnum upplýsingum barst til að hægt sé að taka synjun hans til meðferðar. Fyrirspurn Kjarnans til bankans hefur því verið endurnýjuð.
Fengu virðisaukningu á fé
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingarleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Allt í allt komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar. 794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði allt að 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar.
Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna.
Í skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum, sem birt var í byrjun janúar, er fjallað um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands og því meðal annars velt upp hvort hún hafi orðið til þess að hluti af fjármagninu frá aflandssvæðum, sem orðið hafi til með ólögmætum hætti, hafi skilað sér Íslands með gengisafslætti í gegnum fjárfestingarleiðina. Sú skýrsla er gerð fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Orðrétt segir í skýrslunni: „Miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans er ekki til staðar. Sér í lagi hefur skattyfirvöldum ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða. Æskilegt má telja að samstarf væri um miðlun upplýsinga á milli þessara stofnana.“
Bankar látnir rannsaka viðskiptavini sína
Ekki virðist hafa átt sér stað nein upprunavottun af hendi opinberra aðila á því fé sem fært var til landsins í gegnum leiðina. Allir viðskiptabankarnir fjórir litu svo á að það hefði verið í þeirra verkahring að staðfesta áreiðanleika viðskiptamanna sinna sem tóku þátt í fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Þeir segjast allir hafa kannað þá fjárfesta úr viðskiptamannahópi sínum sem nýttu sér fjárfestingarleiðina með tilliti til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þrír bankanna, Íslandsbanki, Arion banki og Landsbankinn, hafa hins vegar ekki viljað svara því hvort þau hafi sent einhverjar tilkynningar til peningaþvættisskrifstofu(Financial Intelligence Unit) vegna gruns um að einhverjir úr viðskiptamannahópi þeirra hafi þvættað peninga með því að nýta sér fjárfestingarleiðina. Einn banki, Kvika banki, segist hins vegar ekki hafa sent neinar tilkynningar til peningaþvættisskrifstofu vegna þessa.
Embætti héraðssaksóknara, en peningaþvættisskrifstofan heyrir undir það, segir að eftir því sem næst verður komist þá hafi ekki borist neinar tilkynningar frá fjármálafyrirtækjum vegna fjárfesta sem nýttu sér fjárfestingarleiðina.