Þegar viðskiptaráðherrum aðildarríkja WTO mistókst að endurstaðfesta einróma stuðning við Dóha-fríverslunarviðræðurnar (oft kallaðar „Dóha-lotan“) á fundi í Naíróbí fyrir jól árið 2015 batt það í raun enda á metnaðarfullt ferli í átt að nýjum marghliða fríverslunarsamningi og endurskilgreindi hlutverk stofnunarinnar. Það var þó löngu komið í ljós að lotan myndi ekki ná markmiðum sínum; þegar viðræðurnar hófust í Dóha, höfuðborg Katar, árið 2001 voru þær skírðar Dóha-þróunardagskráin (e. Doha Development Agenda) og þeim ætlað að ljúka í síðasta lagi árið 2005. Dóha-lotan átti að kljást við mörg af erfiðustu fríverslunaratriðunum sem eftir voru, þar á meðal í landbúnaði og hugverkarétti, með það að leiðarljósi að stuðla að hagvexti og þróun í fátækum ríkjum.
Meginástæða stöðnunarinnar voru deilur um afnám tolla og viðskiptahindrana á landbúnaðarafurðum ásamt vaxandi mótþróa Bandaríkjanna við að sinna forystuhlutverki í viðræðunum – velgengni fríverslunarviðræðna áður fyrr, bæði í WTO og forvera þess, Almenns samnings um tolla og viðskipti (GATT), nutu góðs af sterkri pólitískri forystu bandarískra stjórnvalda. Í grófum dráttum var ágreiningurinn á milli þróaðra ríkja annars vegar og þróunarríkja hins vegar. Í upphafi Dóha-lotunnar sýndu þróuð ríki vilja til að lækka tolla og viðskiptahindranir án þess að krefjast gagnkvæmrar lækkunar frá þróunarríkjum en eftir því sem útflutningur hinna ört vaxandi þróunarríkja, með Kína í fararbroddi, jókst langt umfram innflutning á árunum eftir byrjun viðræðnanna byrjuðu þróuðu ríkin að krefjast gagnkvæmni, þar á meðal í lækkun á niðurgreiðslu til landbúnaðar, sem þróunarríkin sættu sig ekki við. Þessi ágreiningur varð að aðalviðfangsefni hvers fundar á fætur öðrum í Dóha-lotunni og urðu önnur mikilvæg viðfangsefni undir.
Ákvarðanataka í WTO-lotum krefst einróma samþykkis allra aðildarlanda og það reyndist erfitt í Dóha-lotunni að komast að umfangsmiklum breytingum á pólitískt viðkvæmu málefni á borð við landbúnað. Bandaríkin og Evrópusambandið (ESB) töluðu fyrir að binda enda á Dóha-lotuna og marka nýja stefnu fyrir WTO þar sem áherslan myndi vera á smærri málaflokka. Sú ákvörðun hefur ekki einungis valdið breytingum í starfsemi WTO heldur líka fært drifkraft alþjóðaviðskipta og fríverslunar úr höfuðstöðvum WTO í Genf og til höfuðborga einstakra ríkja.
Þróunarmál og skilvirkni
Fyrir utan það að WTO hafi beðið hnekki sem meginvettvangur marghliða fríverslunarviðræðna vegna úrvindu Dóha-lotunnar eru það þróunarríki, sem flokkast ekki sem ört vaxandi ríki á borð við Kína og Indland, sem líða fyrir það að ekki hafi ræst úr þróunarmarkmiðum lotunnar. WTO gaf þessum þróunarríkjum vettvang þar sem tekið var mark á hagsmunum og áherslum þeirra; mörg fátæk ríki eiga það sameiginlegt að landbúnaður stendur fyrir tiltölulega stórum hluta hagkerfisins en viðskiptahindranir í þróuðum ríkjum gerir þeim erfitt fyrir að flytja út landbúnaðarafurðir. Tvíhliða fyrirkomulagið sem nú er ráðandi í alþjóðaviðskiptum gerir samningsstöðu þeirra veikari; þróuð ríki eru ólíklegri til að semja við, og hvað þá gefa eftir í pólítiskt viðkvæmum málaflokkum, einstök þróunarríki með lítil hagkerfi. Þá setja tvíhliða fríverslunarviðræður meira álag á stjórnsýslu hvers ríkis fyrir sig eftir því að viðræðunum fjölgar, verða margþættari og krefjast eftirfylgni hver fyrir sig. Stjórnsýslur margra þróunarríkja geta átt erfitt með að sinna fleiri slíkum ferlum í einu.
Þá eru tveir höfuðvankantar á tvíhliða fríverslunarsamningum samanborið við marghliða: afvegaviðskipti og skortur á samræmi. Afvegaviðskipti (e. trade diversion) lýsa stöðu þar sem óhagkvæm viðskipti eiga sér stað sem afleiðing af fríverslunarsamningi; ríki sem er best í stakk búið til að flytja út ákveðna vöru til annars ríkis nær ekki að njóta góðs af samkeppnishæfni sinni vegna fríverslunarsamnings á milli hins ríkisins og þriðja ríkis. Niðurstaðan verður að íbúar ríkisins sem flytur inn vöruna frá landinu sem það hefur fríverslunarsamning við borga hærra verð fyrir hana en ella, og landið sem hefur ekki fríverslunarsamning getur ekki flutt vöruna út yfir höfuð. Skortur á samræmi lýsir sér þannig að fríverslunarsamningar eru mismetnaðarfullir hvað varðar ákvæði um umhverfisvernd, réttindi og kjör vinnandi fólks, og ríkisstyrki svo eitthvað sé nefnt. Þegar alþjóðaviðskipti einkennast af aragrúa af fríverslunarsamningum á milli ríkja og ríkjasambanda skortir samræmi í leikreglum og kröfum fríverslunarinnar.
Stærsti kostur tvíhliða fríverslunarsamninga samanborið við marghliða er skilvirkni en auðveldara er að komast að samkomulagi þegar fjöldi aðila er minni og umfang samningsins er undir þeim sjálfum komið hverju sinni. Fyrirkomulagið gerir ríkjum kleift að leggja áherslu á samningagerð við mikilvægustu útflutningsmarkaði sína og gefur þeim svigrúm til að halda pólitískt viðkvæma málaflokka utan samningaviðræðnanna.
„Hagsmunagæsla í síbreytilegum heimi“
Í nýlegri skýrslu stýrihóps utanríkisráðuneytisins um framtíð utanríkisþjónustunnar segir veita eigi „aukna áherslu á fríverslun og nýtingu útflutningstækifæra, bætta þjónustu við Íslendinga erlendis og aukna viðskiptaþjónustu og hagsmunagæslu á nýmörkuðum“ í starfsemi utanríkisþjónustunnar. Þessi markmið endurspegla nýjan raunveruleika alþjóðaviðskipta í kjölfar stöðnun Dóha-lotunnar þar sem hlutverk utanríkisþjónustu verður í auknum mæli fólgið í að greiða leiðina fyrir aðgang innlendra fyrirtækja að erlendum mörkuðum. Eðlilegt verður að teljast að ríki sækist eftir því að stunda fríverslunarstefnu sína að mestu utan ramma WTO þegar Dóha-lotan hefur ekki borið árangur og pólitískur vilji er ekki til staðar til að rífa umfangsmiklar marghliða fríverslunarviðræður í gang aftur.
Þó má ekki gleyma að fríverslunarsamningar gerast ekki í pólitísku tómarúmi; gerð þeirra kann að virðast að mestu tæknilegs eðlis en afleiðingar þeirra geta verið gífurlegar. Tollar og aðrar viðskiptahindranir í verslun á landbúnaðarvörum hjá þróuðum ríkjum hafa bein áhrif á útflutningsgetu þróunarríkja og fjarvera marghliða fríverslunarviðræðna fyrir landbúnaðarvörur geta dregið úr hvatningu til umbóta í landbúnaðarstefnu þróaðra ríkja og þróunarríkja. Því fer fjarri að takmarkaður útflutningur þróunarríkja á landbúnaðarafurðum til þróaðra ríkja sé einungis viðskiptahindrunum þeirra síðarnefndu að kenna; samkvæmt Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) eru það landbúnaðarumbætur innanlands í þróunarríkjum sem myndu leiða til stærstu ávinninganna. Hins vegar hefur breyting alþjóðaviðskiptakerfsins úr marghliða í tvíhliða fyrirkomulag og stöðnun Dóha-lotunnar fjarlægt mikilvægan vettvang til að stuðla að þýðingarmiklum umbótum í aðgengi þróunarríkja að mörkuðum þróaðra ríkja.