Ég var svo heppinn að fá að vera viðstaddur formlega athöfn á svæði varnarliðsins sumarið 2006, þegar Bandaríkjaher fór af landinu. Þetta var tilfinngaþrungin athöfn að mörgu leyti, og hún markaði mikil tímamót í sögu landsins.
Þessi tímamót báru bratt að og var ákvörðunin einhliða Bandaríkjanna, út frá nýju stöðumati í varnarmálum. Það var ekki talin þörf á því að vera með fasta viðveru hersins á Íslandi.
Stoðir hrundu
Þessi nýi veruleiki var efnahagslegt áfall fyrir Suðurnes og þá einkum Reykjanesbæ. Mikil þjónusta var í kringum veru hersins sem fyrirtæki í Reykjanesbæ og nágrenni sáu um að veita. Mörg hundruð störf voru beintengd hernum, og þau hurfu af sviðinu.
Eftir stóð atvinnulífið á svæðinu veikara.
Á árunum 2006 og 2007 var mikill gangur í efnahagsmálum, og gætti mikillar spennu, einkum í mannvirkjagerð. Þessi þróun náði líka til Suðurnesja, og þegar halla fór undan fæti - og síðari hluta ársins 2007 - þá var grunnurinn á Suðurnesjum veikur.
Hrunið haustið 2008, frost í byggingageiranum og uppnám í stóriðjuframkvæmdum á svæðinu, skapaði afar erfiðar aðstæður fyrir bæinn, svo ekki sé meira sagt. Atvinnuleysi fór hratt upp fyrir fimmtán prósent, fyrirtæki börðust við hættu á gjaldþroti víða og fjárhagur sveitarfélaga var erfiður, ekki síst í Reykjanesbæ.
Má segja að áfallið hafi verið tvöfalt, af fullum þunga, á rúmlega tveimur árum. Með brotthvarfi Bandaríkjahers og síðan sjálfu hruninu.
Ferðaþjónustan hefur breytt öllu
Frá því árið 2011 hefur íbúum á Suðurnesjum fjölgað um meira en fjögur þúsund, og er íbúafjöldinn nú kominn yfir 25 þúsund manns. Lykilatriði í þessari þróun hefur verið gríðarlegur vöxtur ferðaþjónustunnar og uppbyggingin á Keflavíkurflugvelli. Í Reykjanesbæ hefur íbúum fjölgað um tæplega 3.500 á sex árum.
Í ljósi þess að 99 prósent af erlendum ferðamönnum sem heimsækja landið koma í gegnum Keflavíkurflugvöll, þá hefur mikillar þenslu gætt í nærumhverfi vallarins. Árið 2010 komu 450 þúsund erlendir ferðamenn til landsins en talið er að þeir verði fleiri en 2,3 milljónir á þessu ári.
Í fyrra fjölgaði störfum á Keflavíkurflugvelli um rúmlega 1.300 og horft til framtíðar er ráð fyrir því gert að fjölgunin verði 300 til 500 störf á hverju ári. Mikil uppbygging á vellinum kallar á mikinn mannskap, en atvinnuleysi er nú lítið á Suðurnesjum, eða um 2 til 3 prósent.
Vaxtaverkir
Fátt bendir því til annars en að vöxturinn á Suðurnesjum - og þá ekki síst í Reykjanesbæ - haldi áfram á næstu árum, og raunar áratugum. Það þyrti að koma til áfall eins og á árunum 2006 til 2008, til að umbreyta því sem nú hefur gerst.
En það hefur reynst Reykjanesbæ erfitt að rétta af fjárhag bæjarins, þó loksins nú sjái fyrir endann deilum og hártogi við kröfuhafa bæjarins.
En það sem helst þarf að koma til - bæði í Reykjanesbæ og Suðurnesjum sem atvinnusvæði - er ítarleg stefnumótun og styrking innviða, meðal annars hjá hinu opinbera. Í ítarlegri úttekt á stöðu mála, sem Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson vann, kemur fram að töluvert mikið vanti upp á til að styrkja innviði svæðisins. Meðal annars á sviði löggæslu og annarra þátta opinberrar þjónustu.
Til þess að svæðið geti þróast vel og í takt við þann vöxt sem er í kortunum, þarf frekari fjárfestingar hins opinbera til viðbótar við sveitarfélögin. Þau reyna sitt, en meira þarf að koma til, að því er segir í fyrrnefndri úttekt á stöðu mála.