Með auknum áhuga á umhverfismálum þykir alltaf mikilvægara og mikilvægara að stjórnvöld hafi skýra stefnu í umhverfismálum. En hverjar eru hugmyndir flokkanna sem bjóða sig fram í komandi kosningum um til dæmis friðlýsingu svæða, einkavæðingu vatns og orkustefnu?
Kjarninn tók saman helstu áherslumál í málaflokknum en allir flokkarnir nema einn hafa skilað inn stefnumálum á Betra Ísland. Hægt er að taka þátt í umræðunni á síðunni sjálfri.
Á vefsíðunni Betra Ísland er hægt að lesa um fleiri stefnumál flokkanna og taka þátt í rökræðum.
Vinstri græn
Þau vilja auka til muna innlenda matvælaframleiðslu, því mikið af mat skemmist í flutningum, og efla fræðslu um matarsóun, bæði í skólum og stofnunum. Einnig vilja þau skoða kosti þess að setja sérstök gjöld á fyrirtæki og stofnanir sem henda mikið af mat.
Hefja þarf endurskoðun raforkusamninga til stóriðju með það að markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, fækka mengandi stóriðjuverum, auka fjölbreytni í iðnaði og fjölga í hópi „grænna“ fyrirtækja sem nota raforku á Íslandi, að þeirra mati.
Vinstri græn telja að allar stærri áætlanir ríkisins, rekstur ríkisstofnana, frumvörp og þingsályktanir þurfi að meta með tilliti til umhverfissjónarmiða, losunar gróðurhúsalofttegunda og auðlindanýtingar.
Jafnframt þurfi að tryggja að gengið verði um náttúruauðlindir Íslands af ábyrgum hætti.
„Hverfum frá áformum um olíuvinnslu, skiptum jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa, bindum kolefni með mótvægisaðgerðum og strikum frekari áform um mengandi stóriðju út af borðinu,“ segir í áherslum þeirra.
Taka þurfi tafarlaust upp samskonar reglur og gilda í Norðursjó og Eystrasalti um útblástur skipa á hafsvæðinu umhverfis landið. Það þurfi að innleiða viðauka VI í MARPOL samningnum og fylgja honum eftir með skilgreiningu ECA (Emission control area) svæðis. Þá þurfi að innleiða viðauka IV í Marpol um varnir gegn skólpmengun frá skipum. Íslendingar eigi að stilla sér upp meðal fremstu þjóða við Norður Atlantshaf um að draga úr mengun af öllu tagi um allt Atlantshafið.
Þau ítreka stefnu sína gegn plastnoktun og leggja til að plastpokar verði bannaðir á Íslandi og að mun strangari reglur verði settar um notkun plastumbúða. Banna þurfi innflutning og framleiðslu á vörum sem innihalda örplast, svo sem snyrti- og hreinlætisvörum á borð við andlitsskrúbba, tannkrem og þvottaefni.
Vinstrihreyfingin telur að brýnt sé að bæta hreinsibúnað frárennslisstöðva á öllu landinu og bæta eftirfylgni reglna um förgun spilliefna. Mikilvægt sé að öllu skólpi sé fargað á þann veg að ekki sé hætta á því að upp komi sjúkdómar í fólki og dýrum. Plastagnir frá hjólbörðum séu líklega langstærstu hluti örplastsmengunar og því sé mikilvægt að bæta einnig meðhöndlun og og hreinsun ofanvatns, til dæmis með blágrænum lausnum og settjörnum til hreinsunar afrennslis af gatnakerfi þéttbýlisstaða.
Mikilvægt er, samkvæmt VG, að halda áfram að friðlýsa vistgerðir, jarðminjar, óbyggð víðerni og landslag sem og vernda líffræðilega fjölbreytni til að tryggja að sérstaða náttúru Íslands njóti verndar. Sveitarfélög móti sér stefnu um náttúruvernd og verndun líffræðileg fjölbreytni. Reykjavíkurborg samþykkti stefnu um líffræðilega fjölbreytni í janúar 2016.
VG er mótfallinn mengandi stóriðju í Helguvík og krefst þess að hún verði stöðvuð. Efla þurfi eftirlitsstofnanir sem koma að umhverfismálum. Þau segjast muni verja hagsmuni íbúa á svæðinu og tryggja öryggi og velferð þeirra með því að berjast gegn og stöðva alla mengandi stóriðju í Helguvík og um land allt.
VG telur mikilvægt að bæta verulega ívilnanir miðaðar að því að stórefla lífræna ylræktun á Íslandi. Æskilegt sé að Íslendingar nýti þá orku sem við búum yfir, bæði jarðhita og raforku, fyrir ylræktun og almennt sjálfbærari landbúnað. Auka þurfi vitund um tengsl framleiðslukerfa matvæla og þau áhrif sem þau hafa á umhverfi sitt, þar með talin hlýnunaráhrif. Þá sé mikilvægt að auka framleiðslu og neyslu á innlendu grænmeti og draga úr innflutningi á kjöti, sem hefur stórt kolefnisfótspor.
Stemma þurfi stigu við matvælasóun með því að í fyrsta lagi auka til muna innlenda matvælaframleiðslu, í öðru lagi banna stórmörkuðum að henda mat, sem hefur t.d. verið gert í Frakklandi og í þriðja lagi að efla fræðslu um matarsóun, bæði í skólum og stofnunum. „Til að tryggja möguleika okkar á framtíð hér á jörðu er mikilvægt að draga úr neyslu og hætta að nota fyrirbæri á borð við neysluvísitölu til þess að mæla velmegun.“
Draga þurfi úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að hverfa frá olíuvinnslu og hefja þegar öfluga uppbyggingu innviða til að skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum og iðnaði. Ísland eigi að beita sér fyrir því að jarðefnaeldsneyti verði ekki unnið á Norðurslóðum. Íslandi beri einnig að minnka losun frá stóriðju og að taka þátt í framsæknum orkuskiptum í flugi og siglingum. Skipulag þurfi að tryggja að almenningssamgöngur, hjólreiðar og ganga verði raunhæfir valkostir.
Tryggja þurfi fræðslu um umhverfismál á öllum skólastigum, á vettvangi frjálsra félagasamtaka og aðila á vinnumarkaði. Kjörið sé að nýta komandi kjarasamninga til að innleiða aukna umhverfisvitund, t.d. með samgöngustyrkjum og umhverfisfræðslu til starfsmanna. Vöktun og rannsóknir sem stuðla að náttúruvernd þurfi að styrkja til framtíðar. Nýta þurfi þá þekkingu og miðlun sem þegar er til staðar, hana þurfi að styrkja og auka, til dæmis með því að endurvekja Umhverfisfræðsluráð.
Samfylkingin
Samfylkingin segist ætla að skýra umboð stjórnvalda til að grípa inn í ef hætta stafar af ágangi ferðamanna, til að mynda með tímabundnum lokunum eða takmörkunum á umferð og fjölda ferðamanna inn á ákveðin svæði. Stjórnvöld verði að ákveða hvar eigi að byggja upp svæði, innviði og þjónustu og hvar ekki. Setja eigi stefnu í ferðamálum til næstu áratuga í samráði við fólk og fyrirtæki í ferðaþjónustu og bestu rannsóknir.
Flokkurinn vill taka höndum saman við sveitarfélög landsins við uppbyggingu kerfis almenningssamgangna með rútum, hraðlestum, samnýtingu bifreiðakosts, hjólastígum og göngustígum. Hefja þurfi samvinnu ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um lestarsamgöngur sem tengjast Keflavíkurflugvelli og fjármagna Borgarlínu.
Samfylkingin segist ætla að gera vöktun og rannsóknir á súrnun að forgangsverkefni sem stjórnvöld beita sér fyrir á alþjóðavettvangi. Miða þurfi allar aðgerðir við niðurstöður nýlegra rannsókna á súrnun sjávar og hætta notkun jarðefnaeldsneytis með orkuskiptum í bíla- og skipaflotanum. Binda þurfi gróðurhúsalofttegundir í gróðri og jarðvegi með ræktun, vernd og endurheimt votlendis og nýjum leiðum á borð við niðurdælingu og framleiðslu metanóls úr koltvísýringi.
Alþýðufylkingin
Alþýðufylkingin bendir á að frá landnámi til 1998 hafi vatn verið félagsleg eign. Þau segja að með breytingum á vatnalögum 1998 og 2006 hafi það verið einkavætt. Landeigandi eigi ekki að geta selt frá sér vatnsréttindin. Þau eigi að fylgja landinu. Hvort sem það er yfirborðsvatn eða grunnvatn, eigi hver sem er að hafa nýtingarrétt, til dæmis til að vökva eða brynna dýrum.
Jafnframt telja þau að þó tæknilega sé gerlegt að leggja rafmagnssæstreng til Skotlands, eins og Steingrímur J. beitti sér fyrir þegar hann var ráðherra, eigi samt ekki að gera það. „Enda mundi hann bæði þrýsta á hækkun rafmagnsverðs á innanlandsmarkaði og á meiri virkjanir til að borga niður þá 1000 milljarða sem er áætlað að hann mundi kosta.“
Framsóknarflokkurinn
Norðurslóðir eru sérstaklega viðkvæmt svæði er varðar breytingar í umhverfi þess. Framsókn segist vilja setja aukið fjármagn í rannsóknir á svæðinu og áhrifum plasts og súrnunar sjávar á lífríki. Þess skuli þá vera gætt að aukin umsvif á svæðinu standist ýtrustu umhverfiskröfur.
Þau benda einnig á að plast sé hættulegt lífríkinu og eyðist seint í náttúrunni. Því sé mikilvægt að draga úr notkun þess eins og hægt er. Framsókn segist vilja skapa hvata til notkunar umhverfisvænna umbúða, draga enn frekar úr notkun plastpoka, einnota plastáhalda og auka kröfur um endurvinnslu á plasti.
Mikilvægt sé að stjórnvöld beiti sér fyrir því að ná loftslagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins til að tryggja að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5°C. Stjórnvöld skuli setja sér skýra stefnu í þessu málum þar sem markmiðið er kolefnishlutlaust Íslands.
„Við viljum tryggja sanngjarnan arð til þjóðarinnar af sameiginlegum auðlindum og að auðlindaákvæði verði sett í stjórnarskrá,“ segir í áherslum þeirra.
Björt framtíð
Björt framtíð leggur mikla áherslu á að stjórnvöld og samfélagið allt vinni saman að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í takt við skuldbindingar Ísland í Parísarsamkomulaginu
Þau segja að það sé fullkomlega eðlilegt að hið opinbera sæki sér umtalsverðar tekjur til auðlindanotkunar sem hægt væri að nýta til dæmis til nauðsynlegrar uppbyggingar á innviðum ferðaþjónustu og byggðastyrkingar.
Einnig benda þau á að Ísland sé ríkt af auðlindum. Endurnýjanlega orkan, náttúran, víðernin og fiskurinn í sjónum eru Íslendingum gjöful. Umfram allt þurfi Íslendingar að passa upp á sjálfbærnina við nýtingu á þessum auðlindum. Fyrir umhverfið og fyrir komandi kynslóðir. Stefna Bjartrar framtíðar í auðlindamálum sé því samtengd umhverfisstefnunni.
Þau telja að ekki sé ásættanlegt að árið 2017 sé jarðvegsrof og illa farin vistkerfi eitt stærsta loftslagsmál Íslands
Björt framtíð er alfarið á móti olíuvinnslu á norðurslóðum
Þau leggja áherslu á að ferðaþjónustan dafni í sátt og samlyndi við samfélagið, náttúru landsins og atvinnulífð. Til þess þurfi skýra framtíðarsýn um sjálfbærni í nýtingu náttúrunnar, uppbyggingu innviða og rekstrarumhverfi atvinnugreinarinnar
Þau vilja tryggja fjármagn til stefnumarkandi áætlun um náttúruvernd. Björt framtíð segist styðja stofnun miðhálendisþjóðgarðs enda nauðsynlegt að varðveita náttúruverðmæti miðhálendisins sem eru einstök á heimsvísu. Þau styðja því eindregið áform umhverfis- og auðlindaráðherra um stofnun þjóðgarðastofnunar.
Björt Framtíð telur nauðsynlegt að fá fram heildstæðar upplýsingar um náttúruauðlindir Íslands og ástand þeirra til að byggja undir stefnu ríkisstjórnarinnar um að nýting auðlinda til lands og sjávar verði ætíð í jafnvægi þannig að komandi kynslóðir megi njóta sömu gæða og þær sem nú byggja landið. Þau styðja því eindregið áform umhverfis- og auðlindaráðherra um gerð hvítbókar um náttúruauðlindir landsins.
Þau benda á að andrúmsloft sé grunnur alls lífs og mikilvægt sé að vernda loftgæði með öllum tiltækum ráðum. „Við getum dregið úr þeirri loftmengun sem er af mannavöldum. Ómengað loft skiptir öllu máli,“ segja þau.
Sjálfstæðisflokkurinn
Þau segjast ætla að vera áfram í fremstu röð í umhverfismálum. Ísland sé til fyrirmyndar í umhverfismálum en þau geti gert betur. Þau ætli að fylgja eftir metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum og gæta jafnvægis milli nýtingar og náttúru.
Píratar
Píratar vilja verndum viðkvæma náttúru miðhálendisins. Miðhálendið sé ein dýrmætasta perla landsins. Þar má finna eldfjöll, jökla, vatnsmiklar ár og fossa, litrík háhitasvæði, víðfeðm hraun og svartar sandauðnir sem kallast á við viðkvæmar gróðurvinjar. Saman mynda þessi náttúrufyrirbæri stórbrotnar landslagsheildir á einum stærstu víðernum Evrópu. Þessa þjóðargersemi þurfi að vernda til framtíðar.
Þau vilja stuðla að rafbílavæðingu Íslands, meðal annars með því að huga að innviðum og með fjárhagslegum ívilnunum sem stefna að því að auka hlutfall rafbíla. Almenn orkumála- og umhverfisstefna ætti að innihalda markmið um rafbílavæðingu og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að ná þeim markmiðum.
Ísland verði leiðandi í loftslagsmálum. Ísland taki skýra afstöðu gegn frekari olíuleit og olíuvinnslu í efnahagslögsögunni. Mengandi starfsemi greiði sérstaka mengunarrentu umfram hefðbundna skatta. Hagrænir hvatar verði nýttir til þess að draga úr útstreymi mengunar í umhverfið. Ísland verði leiðandi í loftslagsmálum, grípi til aðgerða sem uppfylla skilyrði Parísarsamningsins og setji fordæmi fyrir aðrar þjóðir að gera slíkt hið sama.
Flokkur fólksins hefur ekki skilað inn stefnumálum sínum á síðuna og áherslur Dögunar, Viðreisnar og Miðflokksins vantar varðandi umhverfismál.
Tekið skal fram að þessi listi er ekki tæmandi. Á morgun mun Kjarninn einnig vera með umfjöllun um önnur mál sem snúast um dómstóla, stjórnarskrá og lýðræði.