Nú líður að hrekkjavöku en hún er 31. október næstkomandi. Margir munu þó halda upp á hana fyrr, klæða sig upp, horfir á The Nightmare Before Christmas og hlusta á Tom Waits. Börn á Íslandi munu einnig ganga á milli húsa til að biðja um gott eða grikk og eru vinnustaðir farnir að halda daginn hátíðlegan.
Frankenstein er eitt þekktasta nafn innan hryllingsbókmenntanna en sá misskilningur er oft uppi að skrímslið beri nafnið. Svo er ekki því vísindamaðurinn bak við skrímslið og skapari þess heitir þessu fræga nafni.
Skáldsagan Frankenstein: eða hinn nýi Prómóþeus eða einfaldlega Frankenstein, eins og hún er venjulega kölluð, er löngu orðin klassík og hver einasta kynslóð kynnist sögunni í einhverju formi í gegnum kvikmyndir, lög, sjónvarpsþætti og poppmenninguna. Kona að nafni Mary Shelley skrifaði söguna kornung á 19. öld og átti hún vægast sagt viðburðaríkt líf.
Hver var Frankenstein?
Ekki er þó víst að allir þekki uppruna sögunnar enda hefur skrímslið sjálft öðlast eigið líf í vissum skilningi.
Sagan fjallar um ungan vísindamann að nafni Viktor Frankenstein sem skapar furðuskepnu með vægast sagt umdeildum aðferðum. Frásögnin fer fram í bréfaskriftum eins og vinsælt var í þessari tegund bókmennta en sagan um Drakúla er til að mynda skrifuð á sama formi.
Vísindamaðurinn með þráhyggjuna
Sagan hefst á því að segja frá bréfaskrifum enskra systkina, Roberts Walton og Margrétar Saville. Hann er á leið á Norðurheimskautið á skipi sínu en hún er heima á Englandi. Hann finnur mann sem er nærri dauða en lífi og er þar á ferð aðalsöguhetjan, Viktor Frankenstein. Hann segir Walton sögu sína.
Viktor byrjar að segja frá æsku sinni. Hann er fæddur í Napolí og af ríkum ættum. Hann átti tvo bræður, þá Ernest og Williams. Hann var alltaf heillaður af heimi efnafræðinnar og haldinn þráhyggju að læra gamlar úreltar kenningar sem einblína á að líkja eftir undrum náttúrunnar. Foreldrar hans ættleiða dóttur sem Viktor verður síðar ástfanginn af.
Áður en Viktor fer í háskóla í Þýskalandi deyr móðir hans sem hefur þau áhrif að hann kaffærir sig í vinnu og rannsóknir. Hann skarar fram úr í skóla og í gegnum rannsóknir sínar tekst honum að lífga dauðan líkamsvef við. Hann fær þráhyggju vegna þessa og tekst á endanum að lífga heila manneskju við. En fallegur draumur hans breytist fljótt í martröð. Til verður hræðileg skepna, rúmlega tveggja metra há, með gul augu og með skinn sem varla þekur vöðvana og æðarnar á skrímslinu.
Fólk hataði skrímslið vegna útlits þess
Í fátinu flýr Viktor áður en skrímslið vaknar. Hann leitar á náðir vinar síns en verður veikur og tekur það hann fjóra mánuði að jafna sig. Þegar hann snýr heim á ný kemst hann að því að bróðir hans William var myrtur og grunar hann skrímslið um verknaðinn. Fóstra hans er aftur á móti sakfelld fyrir morðið og Viktor getur ekkert gert til að koma í veg fyrir það.
Hann flýr upp í fjöllinn bugaður af sektarkennd og sorg þar sem skrímslið finnur hann. Það segir honum söguna af fyrstu dögum sínum á lífi. Fólk var hrætt við það og hataði vegna þess hvernig það leit út sem lét það hræðast fólkið einnig. Skrímslið lærði að tala og lesa af sjálfsdáðum og það gerði sér grein fyrir því hvernig það leit út.
Margir í valnum
Ég mun deyja og finna eigi til þess sem ég finn nú. Senn mun þessi brennandi eymd slokkna. Ég mun stíga vígreifur upp frá kumli mínu og taka kvöl grimmra loganna fagnandi. Birta þess báls mun dofna; vindarnir munu feykja ösku minni í hafið. Andi minn mun hvíla rór, en ef hann hugsar mun hann svo sannarlega ekki hugsa á þessa leið. Vertu sæll!
Til að gera langa sögu stutta þá sór skrímslið þess eið að hefna sín á skapara sínum fyrir að koma því í heim sem hataði það. Það viðurkenndi að hafa drepið bróður Viktors og komið sökinni yfir á fóstruna.
Skrímslið heimtaði að Viktor myndi búa til annað sköpunarverk, brúður fyrir það sjálft. Þau myndu hverfa út í hinn stóra heim og samþykkir Viktor bón þessa eftir að hafa verið ógnað af skrímslinu. Hann eyðileggur þó á endanum alla þá vinnu sem fór í að búa til brúðina eftir að hafa fengið efasemdir um alls saman. Á endanum, eftir að skrímslið nær að drepa ástkonu hans sem hann ætlaði að gifast, þá eltir Viktor skrímslið á norðurslóðir.
Sagan endar á bátnum hjá Walton þar sem Viktor deyr og skrímslið syrgir skapara sinn. Það hverfur síðan í sjóinn og aldrei spyrst til þess aftur.
Í næst síðustu efnisgreininni í bókinni segir skrímslið við Walton: „Ég mun deyja og finna eigi til þess sem ég finn nú. Senn mun þessi brennandi eymd slokkna. Ég mun stíga vígreifur upp frá kumli mínu og taka kvöl grimmra loganna fagnandi. Birta þess báls mun dofna; vindarnir munu feykja ösku minni í hafið. Andi minn mun hvíla rór, en ef hann hugsar mun hann svo sannarlega ekki hugsa á þessa leið. Vertu sæll!“
Með fyrstu vísindaskáldsögunum
Sagan er talin til vísindaskáldsagna og er í raun ein af þeim fyrstu. Hún hefur haft mikil áhrif á poppmenningu, hryllingsbókmenntir, kvikmyndir og fjöldinn allur af bókmenntum hefur spunnist upp í kringum söguna.
Í bókinni fær skrímslið aldrei nafn og er í staðinn kallað skepna, djöfull, skrímsli, óþokki og „það“. Það kallar sjálft sig frumburð erfiðis Viktors og talar um sig sem hinn fallna engil sem er vísun í Lúsífer.
En hefur sagan dýpri merkingu en einungis um skrímsli og skapara þess? Bókmenntafræðingar hafa leikið sér að túlkunum alla síðustu öld og enn eru skrifaðar ritgerðir og greinar um fyrirbærið. Þráhyggja Viktors til að skapa líf og leika guð hefur verið mörgum rithöfundum innblástursefni og er í raun aldagamalt sagnaminni. Hann fór skrefi of langt og hefndist hrapalega fyrir vikið.
Samdi söguna ung að árum
Höfundurinn, Mary Shelley, var einungis 18 ára gömul þegar hún byrjaði að skrifa söguna og kom hún út rúmum tveimur árum síðar. Sú útgáfa var nafnlaus og gefin út í London 1. janúar árið 1818. Sagan var endurútgefin undir hennar nafni í annarri útgáfu árið 1823 í Frakklandi.
Mary Shelley fæddist árið 1797 í Somers Town í London. Hún var dóttir femíníska heimspekingsins Mary Wollstonecraft og rithöfundarins William Godwin. Móðir hennar lést af barnsförum þegar hún fæddist og var Mary því skírð í höfuðið á henni.
Mary ferðaðist víðsvegar um Evrópu þegar hún var 17 ára gömul með viðkomu í Gernsheim í Þýskalandi, þorpi sem er rétt hjá Frankenstein-kastalanum. Í honum átti að hafa búið gullgerðarmeistari tveimur öldum áður eða svokallaður alkemisti. Sú saga er sögð hafa haft áhrif á unga Mary.
Varð ólétt en missti barnið
Hún var á ferðalagi með Percy Shelley, sem seinna varð eiginmaður hennar, Lord Byron og John Polidori þegar þau ákváðu að keppast um hver gæti samið bestu hryllingssöguna. Hugmyndin átti að hafa komið til Mary í draumi um vísindamann sem skapaði líf og hræddist síðan það sem hann bjó til.
Mary átti hamingjusama æsku en faðir hennar var þó oft skuldugur og taldi sig ekki geta alið börnin upp eins síns liðs. Hann giftist því aftur en Mary kom sérstaklega illa saman við stjúpmóður sína sem og vini föður hennar. Hún var sögð með mikið skap og sögðu margir að hún hefði haldið upp á sín eigin börn fram yfir hans.
Mary var ástkona Percy Shelley og varð hún ólétt árið 1814. Hann var þá enn giftur en voru þau ákveðin að vera saman þrátt fyrir stormasamt samband. Barnið fæddi hún fyrir tímann í byrjun árs 1815 en það lifði ekki af. Hún varð þunglynd í framhaldinu en átti síðan annað barn sitt ári seinna. Þau giftust eftir að fyrri kona Percy tók sitt eigið líf ári seinna. Þá var Mary ólétt af þriðja barni þeirra sem fæddist seinna á árinu.
Leitaði huggunar í ritstörfin
Þau Mary og Percy trúðu á frjálsar ástir og á það að búa ekki of lengi á sama staðnum. Þau lásu, skrifuðu og öfluðu sér þekkingar og umkringdu sig vinum sem þau bjuggu meðal annars með.
Bæði börn Mary dóu með árs millibili árin 1818 og 1819. Það olli henni mikilli vanlíðan eins og gefur að skilja og lagðist hún í mikið þunglyndi á ný. Eina huggun hennar voru ritstörf þangað til hún eignaðist fjórða barn sitt í nóvember 1819, Percy Florence Shelley. Þau bjuggu í fjölmörg ár á Ítalíu og leit Mary alla tíð á landið sem hálfgerða paradís.
Þremur árum síðar varð hún ólétt á ný en missti barnið og lést nærri því úr blóðmissi. Hjónin urðu alltaf fjarlægari og fjarlægari á þessum tíma og leitaði Percy æ meira til annarra kvenna. Seinna um sumarið sama ár drukknaði hann undan ströndum Livorno á Ítalíu.
Mary snéri aftur til Englands eftir andlát eiginmannsins með eina eftirlifandi son sinn og tileinkaði líf sitt ritstörfum. Þau voru mjög náin og bjó hún hjá honum og eiginkonu hans þegar hann var uppkominn. Árið 1851 lést hún en grunur er um að hún hafi verið með heilaæxli. Hún skildi eftir sig fjölda handrita, bóka, smásagna og dagbóka.