Mynd: Birgir Þór

Glundroði, stjórnin kolfallin en stjórnarandstaðan getur myndað ríkisstjórn

Niðurstaða kosninga liggur fyrir. Átta flokkar ná inn á þing. Konum fækkar mikið og miðaldra körlum fjölgar. Framsóknarflokkurinn fær sína verstu kosningu í sögunni en stendur samt uppi með pálmann í höndunum og getur myndað stjórn í báðar áttir.

Glundroði er rétta orðið til að lýsa stöðunni í íslenskum stjórnmálum eins og hún blasir við núna. Átta flokkar munu eiga fulltrúa á næsta Alþingi, og hafa þeir aldrei verið fleiri. Stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir, Vinstri græn, Samfylking, Framsóknarflokkur og Píratar ná minnsta mögulega meirihluta þingmanna og geta myndað ríkisstjórn kjósi þeir svo. Flokkarnir eru samt sem áður ekki með meirihluta atkvæða á bak við sig, tæplega 49 prósent landsmanna kusu þá.

Sitjandi ríkisstjórn beið afhroð og tapaði tólf þingmönnum. Flokkarnir sem hana mynda höfðu 32 þingmenn en eru nú með 20. Sjálfstæðisflokkurinn tapar flestum þeirra, eða fimm, og fær sína næst verstu kosninganiðurstöðu í sögunni og jafnar sögulegt lágmark sitt í þingmannafjölda á 63 sæta Alþingi.

Í kosningamiðstöð Kjarnans má skoða niðurstöður kosninganna og raða saman mögulegum þingmeirihluta. 

Sigurvegarar kosninganna eru Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Flokkur fólksins. Þeir flokkar koma nýir inn á þing og ná samtals ellefu þingmönnum. Frjálslyndisbylgjan sem reið yfir í kosningunum í fyrra, og tryggði Viðreisn, Bjartri framtíð og Pírötum samtals 21 þingmann, er gengin til baka. Þeir flokkar hafa nú samtals tíu þingmenn og Björt framtíð þurrkast út af þingi. Miðflokkurinn og Flokkur fólksins taka þessa ellefu þingmenn sem frjálslyndu flokkarnir tapa. Báðir eru það sem mætti kalla flokkar með róttækar og að einhverju leyti þjóðernislegar áherslur í stórum málum. Þeir tefla fram risastórum kosningamálum sem erfitt verður að ná saman við aðra flokka um. Og bæði Miðflokkurinn og Flokkur fólksins eru að uppistöðu karlaflokkar. Þannig verða níu af ellefu þingmönnum flokkanna tveggja karlar.

Í raun má segja að sigurvegari kosninganna í gær séu karlar, og sérstaklega miðaldra karlar. Í fyrra náðu 30 konur kjöri til Alþingis og hlutfall kvenna á meðal þingmanna var 47,6 prósent. Samkvæmt lokatölum, sem birtar voru rétt fyrir klukkan tíu í morgun á vef RÚV, verða 24 konur á nýju alþingi en 39 karlar. Það þýðir að 38 prósent þingmanna verða konur. Hlutfall þeirra hefur ekki verið lægra eftir hrun. Hjá Sjálfstæðisflokknum, stærsta flokki landsins, er kynjahlutfall þingmanna til að mynda þannig að þar eru 12 þingmenn karlar en fjórir konur.

Úrslit Alþingiskosninganna 28. október 2017
Svona skiptust atkvæðin milli flokkanna á landsvísu.

Sögulegt afhroð en samt sigur

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og sitjandi forsætisráðherra, lýsti því yfir eftir fyrstu tölur að Sjálfstæðisflokkurinn væri að vinna þessar kosningar. Það er rétt í þeim skilningi að flokkurinn fær flest atkvæði allra en að öðru leyti er niðurstaðan sögulega slök fyrir flokkinn. Hann fékk 25,2 prósent atkvæða, tapar fimm þingmönnum frá því í fyrra og tæplega fjórum prósentustigum af fylgi. Niðurstaðan er sú næst versta í sögu flokksins á eftir eftir-hruns kosningunum árið 2009 þegar hann fékk 23,9 prósent atkvæða. Og þingmannafjöldi Sjálfstæðismanna er sá sami og þá, flokkurinn er með 16 þingmenn. Þetta eru líka fjórðu kosningarnar í röð sem Sjálfstæðisflokkurinn er með undir 30 prósent fylgi. Fyrir árið 2009 hafði það einungis gerst einu sinni í sögu flokksins að hann fengi undir 30 prósent fylgi. Það var árið 1987 þegar Borgaraflokkurinn klauf Sjálfstæðisflokkinn. Veruleiki Sjálfstæðisflokksins virðist því vera orðinn allt annar en áður var, og niðurstöðu gærdagsins verður að skoða í því ljósi.

Flokkur Katrínar Jakobsdóttur fékk sína næst bestu kosningu í sögunni. Sú niðurstaða er samt sem áður súr fyrir hana og flokkinn í ljósi þess að þau mældust með mun meira fylgi síðustu vikurnar fyrir kosningar.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Hefðbundnir sigurvegarar kosninganna verða að teljast Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Flokkur fólksins. Miðflokkurinn náði besta árangri sem nýr flokkur hefur nokkru sinni náð í fyrstu kosningum sínum, og náði rétt svo að skáka Borgaraflokknum frá árinu 1987 þar þótt litlu muni. Hann nær sjö þingmönnum og fékk fleiri atkvæði en Framsóknarflokkurinn, sem Sigmundur Davíð og fylgismenn hans klufu sig frá fyrir rúmum mánuði síðan. Samt sem áður tryggir kjördæmaskipan Framsóknarflokknum einn þingmann umfram það sem Miðflokkurinn fær. Fylgi Miðflokksins er mjög sambærilegt því sem kannanir sýndu á lokasprettinum.

Flokkur fólksins næstum tvöfaldar fylgi sitt frá kosningunum í fyrra og fær tæplega sjö prósent. Það tryggir honum fjóra þingmenn og leiðir til þess að staðan á Alþingi verður enn flóknari en áður, enda flokkarnir sem þar sitja nú orðnir átta. Nær allar skoðanakannanir vanmátu fylgi flokksins og þar af leiðandi sýndi síðasta kosningaspáin hann með 4,3 prósent og engan þingmann.

Súru sigrarnir

Samfylkingin telur sig líka hafa unnið kosningasigur. Hún rúmlega tvöfaldaði fylgi sitt milli ára og fjölgaði þingmönnum sínum úr þremur í sjö. Þrír þeirra sem koma inn fyrir flokkinn koma af höfuðborgarsvæðinu þar sem Samfylkingin átti engan þingmann eftir síðustu kosningar.

En í sögulegu samhengi þá er niðurstaðan ekkert sérstaklega góð fyrir jafnaðarmannaflokk Íslands. Þvert á móti er þetta næst versta niðurstaða Samfylkingarinnar í kosningum frá því að hún bauð fyrst fram árið 1999.

Vinstri græn gætu túlkað niðurstöðu kosninganna sem sigur og réttlætt það með vísun í að þetta sé næst besta kosning sem flokkurinn hefur nokkru sinni fengið. Einungis kosningarnar 2009, nokkrum mánuðum eftir hrunið, skiluðu þeim fleiri atkvæðum og þingmönnum. Niðurstaðan hlýtur samt sem áður að vera súr að mörgu leyti í ljósi þess að Vinstri græn mældust mun stærri í aðdraganda kosninganna og virtust í dauðafæri á að verða stærsti flokkur landsins. Svo verður ekki.

Ef einhver flokkur getur sagst hafa unnið varnarsigur þá er það Viðreisn. Hann tapar vissulega þremur þingmönnum en nær um 6,7 prósent fylgi og fjórum kjörnum þingmönnum. Fyrir um tveimur vikum mældist fylgi flokksins 3,3 prósent og allt virtist stefna í að hann myndi ekki ná inn á þing. En staða Viðreisnar, sem ætlaði sér að verða fyrirferðamikið afl í íslenskum stjórnmálum og boðberi frjálslyndra kerfisbreytingastjórnmála, er mun veikari en hún var áður. Um það er enginn vafi.

Píratar eru að skila sér í hús með nánast nákvæmlega það fylgi sem síðasta kosningaspáin spáði þeim, eða um 9,2 prósent. Þeir tapa fjórum þingmönnum og mestu fylgi allra flokka áttu fulltrúa á Alþingi, ef Björt framtíð er ekki talin með. Sá flokkur þurrkast algjörlega út og nær einungis 1,2 prósent atkvæða.

Flokkurinn sem sprengdi síðustu ríkisstjórn fær því ekkert að launum fyrir vikið annað en að verða algjörlega hafnað af kjósendum landsins.

Versta niðurstaða Framsóknar frá upphafi en með pálmann í höndunum

Sá flokkur sem stendur með pálmann í höndunum eftir þessar kosningar er Framsóknarflokkurinn. Hann fær sína verstu kosningu í sögunni með 10,6 prósent atkvæða og átta þingmenn og tapar tæpu prósentustigi fram afhroðskosningunum í fyrra, sem voru áður þær verstu í sögu flokksins. Framsókn heldur hins vegar sama þingmannafjölda og flokkurinn var með fyrir, var að glíma við klofningsframboð fyrrverandi formanns flokksins og er í algjörri oddastöðu um myndun nánast allra mögulegra meirihlutastjórna sem raunhæft væri að mynda.

Framsóknarflokkurinn gæti valið að mynda ríkisstjórn með hinum flokkunum sem hann deilir stjórnarandstöðu með í dag: Vinstri grænum, Samfylkingu og Pírötum. Heimildir Kjarnans herma að samtal um slíkar viðræður hafi þegar byrjað á síðustu dögum og ljóst á áherslum Framsóknarflokksins í kosningabaráttunni, sem snérust meðal annars um að boða hátekjuskatta og aukningu útgjalda í heilbrigðis-, mennta- og samgöngumál að flokkurinn var að máta sig við samstarf til vinstri frekar en til hægri.

Sigurður Ingi Jóhannsson og hans fólk virðast vera í lykilstöðu til að mynda næstu ríkisstjórn landsins.
mynd:Birgir Þór Harðarson

Velji Framsókn hins vegar að feta ekki þá leið getur flokkurinn snúið sér til hægri og myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og annað hvort Viðreisn eða Flokki fólksins. Slík ríkisstjórn yrði alltaf mjög flókin af fjölmörgum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að fólkið sem myndar Kjarna Miðflokksins er hópur sem yfirgaf Framsóknarflokkinn eftir blóðug innanflokksátök þar sem Sigmundur Davíð ásakaði meðal annars forystufólk að hafa það sem meginmarkmið að drepa sig pólitískt. Þá verður ekki fram hjá því litið að andað hefur köldu milli Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs frá því að sá síðarnefndi hrökklaðist úr stóli forsætisráðherra eftir Wintris-málið vorið 2016.

Til viðbótar verður að horfa á það að Viðreisn er flokkur sem er mikið í mun að skapa sér aðra ímynd en þá að vera einungis hækja fyrir Sjálfstæðisflokkinn til að ná inn í ríkisstjórn. Og forystufólk Viðreisnar er þeirrar skoðunar að enginn flokkur sé jafn fjarri þeim málefnalega og Miðflokkurinn. Þá er ótalið að Sigmundur Davíð hefur sagt að markmið Miðflokksins, sem felast meðal annars í því að láta ríkissjóð kaupa Arion banka til að gefa þjóðinni hann aftur og að nýr spítali verði byggður á nýjum stað, séu ófrávíkjanleg. Erfitt verður að sjá t.d. Viðreisn og Sjálfstæðisflokk fallast á þessi skilyrði.

Flokkur fólksins er síðan óskrifað blað sem leggur m.a. áherslu á að persónuafsláttur verði hækkaður upp í 300 þúsund krónur sem myndi að mati Samtaka atvinnulífsins kosta yfir 100 milljarða króna á ári, að verðtrygging verði afnumin og að staðgreiðsla skatta af lífeyrisgreiðslum fari fram við inngreiðslu en ekki útgreiðslu til að auka tekjur ríkissjóðs nú á kostnað tekna hans í framtíðinni. Það verður líka erfitt að sjá Sjálfstæðisflokkinn fallast á kröfur sem þessar.

Þriðji mögulegi vettvangurinn til að mynda ríkisstjórn er innan fjórflokksins svokallaða. Þ.e. að þeir flokkar sem hafa sögulega verið kjölfestan í íslenskum stjórnmálum myndi einhverskonar ríkisstjórn. Þar eru nokkrir möguleikar í stöðunni. Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Framsóknarflokkur gætu myndað ríkisstjórn með 35 þingmenn. Það væri líka hægt að skipta Framsóknarflokknum út fyrir Samfylkingu en formaður hennar hefur reyndar gefið það út að hann sjái ekki samstarfsgrundvöll með Sjálfstæðisflokki. Svo gætu auðvitað allir fjórir myndað stjórn.

Staðan í íslenskum stjórnmálum er því gífurlega flókin og hún skánaði ekkert við kosningarnar sem haldnar voru í gær. Raunar má vel draga þá ályktun að þær hafi flækt stöðuna enn meira.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar