Ferðin er lengsta utanlandsferð Trump eftir að hann var kjörinn forseti - og lengsta Asíuferð Bandaríkjaforseta síðan 1991 - og til viðbótar við Tókýó eru heimsóknir til Seoul, Pekíng, Da Nang, Hanoi og Manila á dagskránni.
Almennt séð virðist Trump hafa fá sérstök stefnumál sem hann ætlar sér að ná árangri með í Asíuferð sinni; eitt það fyrsta sem hann gerði eftir komu sína í Hvíta húsið var að fordæma og draga Bandaríkin úr Trans-Pacific Partnership (TPP)- fríverslunarviðræðunum en fjölmörg Asíuríki eiga enn aðild að viðræðunum sem enn eru í gang undir leiðsögn Japan. Þá hefur það valdið bandarísku viðskiptalífi miklum vonbrigðum hversu takmörkuð og óskilgreind markmiðin eru sem Trump hefur með sér í farteskinu í viðskiptamálum. Í stað ákveðinna krafa til stefnubreytinga hjá hinum ýmsu þjóðarleiðtogum sem hann mun heimsækja virðist Trump leggja meiri áherslu á óskýrar kröfur um hugarfarsbreytingar. Því er óvíst hvaða ávinninga ferðin mun hafa í för með sér fyrir Bandaríkin en ljóst er að leiðtogar landanna fimm hafa tiltekinna hagsmuna að gæta.
Félagarnir Donald og Shinzo
Glatt var á hjalla í Tókýo þegar Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans sem nýlega vann stórsigur í þingkosningum í landinu, tók á móti Donald Trump með sérhannaðri derhúfu þar sem á stóð "Donald & Shinzo Make Alliance Even Greater". Þeir félagar hafa þegar náð vel saman og snerust viðræður að mestu leyti um spennuna á Kóreuskaga og hvernig löndin tvö, ásamt Suður-Kóreu, gætu aukið varnarmálasamstarf sitt. Eftir því sem að viðskiptahalli á milli landanna tveggja er talsverður og vaxandi - Japan flytur út talsvert meira til Bandaríkjanna en það flytur inn - var áætlun Trump að leggja áherslu á það í viðræðum en samkvæmt Kurt Campbell, fyrrverandi yfirmanni Asíumála í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, virtist vera að Abe hafi tekist að beina athyglinni í átt að spennunni á Kóreuskaga.
Vopnasölumaðurinn í Seoul
Eðlilega var megináhersla heimsóknar Trump til forseta Suður-Kóreu, Moon Jae-in, hin aukna spenna við nágrannann Kim Jong-un til norðurs. Moon, nýbakaður forseti landsins, talaði fyrir mikilvægi þess að viðhalda þrýstingi og viðskiptaþvingunum og þannig búa til skilyrði fyrir diplómatíska lausn á deilunni og koma í veg fyrir annað Kóreustríð. Trump var samhljóma að mestu leyti og stóðst freistinguna að tala um „hernaðarlega lausn“ og „fyrirbyggjandi árás“ en það vakti athygli hversu miklu púðri hann eyddi í að hrósa bandarískum vopnaiðnaði og tilkynnti að Suður-Kórea myndi kaupa bandarísk vopn að andvirði margra milljarða bandaríkjadala sem myndi ekki bæði koma til móts við varnarmálalega þörf landsins heldur einnig sporna við miklum viðskiptahalla á milli landanna tveggja og skapa ný störf í Bandaríkjunum.
The United States has been reminded time and again in recent years that economic security is not merely RELATED to national security - economic security IS national security. It is vital to our national strength. #APEC2017 pic.twitter.com/8gKQUhit2X
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 10, 2017
Viðskiptasambandið við Kína
Meginviðfangsefni viðræðna Trump við Xi Jinping, forseta Kína, var viðskiptahallinn á milli landanna tveggja - sem nemur um þrjú hundruð milljarða bandaríkjadali á ári - og það sem frá sjónarhorni Trump er „langvinnt ójafnvægi“ sem verður að gera eitthvað í. Trump fór varlega í yfirlýsingar sínar miðað við orðræðuna sem einkenndi kosningabaráttuna sína og sagði að þó að viðskiptasambandið væri óréttlátt og einhliða þá ætti hann erfitt með að kenna Kína um það enda væru leiðtogar þess einungis að reyna að gæta hagsmuna íbúa þess. Trump og Xi undirrituðu viðskiptasamninga að andvirði tvö hundruð og fimmtíu milljarða bandaríkjadala en Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kallaði þá hins vegar tiltölulega „litla í stóra samhenginu“. Tillerson virtist þó vera nokkuð sáttur með að löndin tvö væru nokkurn veginn samstíga hvað varðar spennuna á Kóreuskaga en Xi undirstrikaði að það myndi taka tíma áður en að nýju viðskiptaþvinganirnar gegn Norður-Kóreu myndu valda streitu fyrir stjórnvöld.
Einangrunarsinni á marghliða fríverslunarfundi
Á föstudaginn var ferðinni heitið til Da Nang í Víetnam á árlegan fund efnahagssamvinnu Asíu- og Kyrrahafsríkja (APEC) - samræðuvettvangs tuttugu og eins ríkja við Kyrrahafsjaðarinn. Á fundinum komu mismunandi viðhorf Bandaríkjanna og Kína gagnvart framtíð hnattvæðingar greininlega í ljós. Xi og Trump héldu ræður hver á eftir öðrum og tilkynnti Trump að Bandaríkin myndu ekki sækjast eftir að taka þátt í fleiri marghliða fríverslunarviðræðum en ræða hans einkenndist af útlistun neikvæðra afleiðinga hnattvæðingar. Trump lagði áherslu á gagnkvæmni í fríverslun og sagði að Bandaríkin myndu einungis sækjast eftir tvíhliða fríverslunarsamningum við lönd sem virtu það skilyrði. Xi lýsti hins vegar skýrum valkosti við Bandaríkin í ræðu sinni þar sem öll lönd myndu njóta góðs af aukinni opnun og sá fyrir sér að „láta fleiri lönd ferðast með hraðlest kínverskrar þróunar.“
Trump mun einnig stoppa stutt við í Hanoi í Víetnam laugardaginn 11. nóvember og er fríverslun aftur líkleg til að vera efst á baugi, sérstaklega í ljósi ákvörðunar Trump að draga Bandaríkin úr TPP fyrr á þessu ári. TPP gegndi lykilhlutverki í alþjóðaviðskipta- og Asíustefnu Barack Obama en hann náði ekki ljúka viðræðunum á sinni forsetatíð; TPP var ætlað að binda saman 12 Kyrrhafsjaðarríki í metnaðarfullt fríverslunarsamkomulag án aðildar Kína, að minnsta kosti til að byrja með. Ákvörðun Trump kom Víetnam sérstaklega illa en Bandaríkin eru stærsti útflutningsmarkaður landsins. Einnig sækist Víetnam eftir stjórnmálalegu jafnvægi í tengslum sínum við Kína og Bandaríkin. Ríkisstjórn Víetnam mun því hafa áhuga á nýjum viðskiptasamningum og aukna samvinnu í varnar- og öryggismálum til þess að reyna að tryggja áframhaldandi bandaríska hernaðarviðveru í Asíu sem mótpól við Kína.
Mannréttindi ekki efst á baugi í Manila
Rodrigo Duterte, forseti Filipseyja, svaraði spurningu blaðamanns áður en hann hélt til APEC-fundarins í Da Nang um hvernig hann myndi bregðast við ef Trump myndi vilja ræða um mannréttindi í heimsókn sinni til Manila sunnudaginn 12. nóvember; "Lay off. That is not your business. That is my business." Duterte, sem hefur háð blóðugt stríð gegn fíkniefnum á undanförnum misserum, varð bálreiður þegar fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, lýsti yfir áhyggjum við mannréttindaástandið í landinu fyrir rúmu ári síðan. Hins vegar er ólíklegt að sama verði uppi á teningnum að þessu sinni enda hrósaði Trump Duterte fyrir góðan árangur í baráttunni gegn fíkniefnum í símtali þeirra tveggja í maí. Trump, sem mun einnig sækja leiðtogafund Samtaka ríkja í Suðaustur-Asíu (ASEAN) í heimsókn sinni til Manila, mun líklega ræða við Duterte um samvinnu í baráttunni gegn hryðjuverkum og fíkniefnum. Miðað við tengsl Duterte við Obama, sem hann reglulega hreytti fúkyrðum í á síðasta ári áður en hann tilkynnti um skilnað Filippseyja við Bandaríkin í opinberri heimsókn til Pekíng, er líklegt að hann nái betur saman við Trump.