Undandregin skattstofn þeirra 62 skattsvikamála sem héraðssaksóknari hefur fellt niður er alls 9,7 milljarðar króna. Um er að ræða 5,7 milljarða króna í vanframtaldar tekjur og fjóra milljarða króna í vanframtaldar fjármagnstekjur.
Umfangsmesta málið snýst um vanframtaldar tekjur og fjármagnstekjur vegna greiðslna frá erlendu félagi, vaxtagreiðslna og hlutabréfaviðskipta upp á samtals um 2,2 milljónir króna. Annað stórt mál snýst um vanframtaldar tekjur upp á 876 milljónir króna vegna kaupa á hlutabréfum á lægra verði en gangverði, óheimilar úthlutunar úr lögaðila og vanframtalinna stjórnarlauna.
Þetta kemur fram í yfirliti yfir þau mál sem voru látin niður falla sem Kjarninn fékk frá embætti skattrannsóknarstjóra.
Málin voru felld niður vegna þess að málsmeðferð þeirra hjá annars vegar skattyfirvöldum og hins vegar héraðssaksóknara var ekki nægilega samtvinnuð í efni og tíma, aðallega vegna þess að þeim var slegið á frest vegna þess að beðið var niðurstöðu máls sem var til meðferðar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu.
Það rof sem varð vegna þess að málin voru sett á bið varð á endanum til þess að þau voru látin niður falla.
Líklegt að fleiri mál verði látin falla niður
Kjarninn greindi frá því í gær að málin, sem eru gegn einstaklingum sem grunaðir eru um að hafa framið skattsvik, hefðu verið látin niður falla. Á meðal þeirra mála sem felld voru niður eru mál einstaklinga sem komu fyrir í Panamaskjölunum svokölluðu. Búist er við því að enn fleiri mál tengd ætluðum skattsvikum verði felld niður á næstunni, en samtals eru 152 slík mál til meðferðar hjá embætti héraðssaksóknara. Alls er skattstofninn í öllum þeim málum yfir 30 milljarðar króna.
Íslensku sjómennirnir sleppa
Engar upplýsingar fást hjá embættum skattrannsóknarstjóra eða héraðssaksóknara um hvaða einstaklingar séu undir í þeim málum sem hafa verið látin niður falla. Samkvæmt heimildum Kjarnans eru mál íslenskra sjómanna sem störfuðu hjá íslenskum útgerðum erlendis þó á meðal þeirra mála sem felld voru niður. Hin meintu brot mannanna fólust í því að þeir greiddu ekki skatt af launum sínum á Íslandi á meðan að þeir unnu hjá íslenskum útgerðum í Afríku, þótt þeir hafi átt heimilisfesti hér. Alls eru 33 þeirra mála sem hafa verið látin niður falla vegna tekna sem urðu til vegna starfa erlendis. Um tugi milljóna króna er um að ræða í vanframtöldum tekjum í hverju tilfelli fyrir sig. Sá einstaklingur sem vanframtaldi mest af tekjum vegna starfa erlendis var samtals með 114,5 milljónir króna í tekjur.
En stóru tölurnar í málunum sem hafa verið látin niður falla eru í málum af öðrum toga. Líkt og áður sagði snúast tvö stærstu málin, sem samtals snúast um vantaldar tekjur upp á rúmlega þrjá milljarða króna, um annars vegar greiðslur frá erlendu félagi, vaxtatekjur og hlutabréfaviðskipti og hins vegar um vanframtaldar tekjur vegna kaupa á hlutabréfum á lægra verði en gangverði, óheimilar úthlutunar úr lögaðila og vanframtalinna stjórnarlauna.
Þá eru stór mál sem snúast um tekjur vegna óheimilar úthlutunar úr félögum og vegna framvirkra samninga. Þar eru vanframtaldar tekjur og fjármagnstekjur upp á mörg hundruð milljónir króna í einstökum málum.