Simbabveski herinn hefur tekið yfir valdataumana í landinu og situr Robert Mugabe, forseti landsins, í stofufangelsi. Aðgerðir hersins gerast rúma viku eftir að tilvonandi eftirmaður Mugabe, Emerson Mnangagwa, var vikið úr embætti varaforseta til að greiða leiðina fyrir tilkomu forsetafrúarinnar Grace Mugabe sem erfingja embættisins.
Heil þrjátíu og sjö ár eru síðan Robert Mugabe varð pólitískur leiðtogi landsins eftir að Lancaster House-sáttmálinn batt enda á hvíta minnihlutastjórn Ian Smith í landinu, sem þá var kallað Ródesía, eftir blóðugt fjögurra ára sjálfstæðisstríð. Mugabe var leiðtogi ZANU-skæruliðasamtakanna sem eftir stríð breyttust í stjórnmálaflokk sem hefur verið allsráðandi í landinu í stjórnartíð Mugabe.
Á þriðjudaginn hófst atburðarás sem virðist ætla að binda enda á stjórnartíð Mugabe; simbabveski herinn tók yfir skrifstofur ríkisvaldsins, þinghúsið, ríkisútvarpið og flugvöllinn í Harare, höfuðborg landsins, og sjónvarpaði yfirlýsingu þar sem tilkynnt var að aðgerðir hersins væru ekki ætlaðar sem valdarán en þeim væri beint að „glæpamönnum í kringum [Mugabe].“
Valdatafl Krókódílsins
Að því er virðist snúast atburðir vikunnar í Simbabve um baráttuna um hver það er sem mun taka við forsetaembættinu þegar hinn níutíu og þriggja ára gamli Robert Mugabe hverfur úr embætti. Á þrjátíu og sjö ára stjórnartíð sinni hefur Mugabe aldrei tilkynnt um það hvern hann sjái fyrir sér að taki við embættinu sem hefur leyst úr læðingi langvinna valdabaráttu á bakvið tjöldin.
Á síðustu árum hefur þessi valdabarátta að mestu verið á milli tveggja aðila; Emerson Mnangagwa, fyrrverandi varaforseta og einn leiðtoga ZANU-skæruliðanna í sjálfstæðisstríðinu þar sem hann ávann sér viðurnefnið „Krókódíllinn“, annars vegar og Grace Mugabe, eiginkona forsetans sem hefur lengi haft stuðning ungliðahreyfingar stjórnarflokksins.
Grace Mugabe, sem hefur hlotið viðurnefnin Gucci Grace og Disgrace af andstæðingum sínum vegna tíðra og kostnaðarsamra verslunarleiðangra, virtist vera í bílstjórasætinu til að taka við af eiginmanni sínum eftir að Mnangagwa var vikið úr embætti varaforseta fyrir um tveimur vikum síðan. Mugabe-hjónin lýstu þá yfir óánægju við Mnangagwa og stuðningsmenn hans, sem kallaðir eru „Team Lacoste“, en óhliðhollusta, vanvirðing og sviksamleg hegðun voru gefnar upp sem ástæður ákvörðunarinnar að víkja honum úr embætti.
Með atburðum síðustu viku hefur þó komið í ljós að Mnangagwa hefur haft betur; tengsl hans við herinn eru sterk og lýstu þau sér á mánduaginn síðastliðinn þegar, viku eftir að Mnangagwa var vikið úr embætti varaforseta, hershöfðinginn Constantino Chiwenga sendi frá sér tilkynningu þar sem hann varaði stjórnarflokkinn við að reyna að fjarlægja flokksmenn með „sjálfstæðisbaráttubakgrunn“ og að herinn myndi ekki hika við að grípa til aðgerða til að vernda byltinguna. Daginn eftir fór herinn úr bröggum sínum og út á götur Harare.
Sama gamla tóbakið?
Simbabveski herinn hefur gríðarleg völd í landinu og hefur litist illa á að eftirmaður Mugabe yrði ekki úr þeirra röðum. Þá hefur Simbabve ekki efni á því að verða enn frekar jaðarsett í alþjóðasamskiptum vegna þeirrar djúpu og langvinnu efnahagskreppu sem landið hefur verið í, sérstaklega í kjölfar þess að Mugabe gerði land og eignir flestra hvítra landeigenda upptæk eftir þúsaldarmótin, og kemur það í veg fyrir beina herstjórn sem valmöguleika. Mnangagwe virðist uppfylla kröfur hersins um leiðtoga borgaralegrar ríkisstjórnar; sterk tengsl hans við herinn og fortíð hans í sjálfstæðisbaráttu landsins gefur honum trúverðugleika, og hann hefur gefið í skyn vilja til að ráðast í umbætur til að sættast við Vesturlönd, meðal annars með því að veita hvítum landeigendum bætur fyrir land þeirra og eignir.
Þrátt fyrir vonir íbúa landsins um umbætur og friðsamlega yfirfærslu valds er lítil ástæða til að vænta þess að stjórnarhættir Mnangagwa verði mjög frábrugðnir stjórnarháttum Mugabe. Mnangagwa var öryggismálaráðherra í Simbabve á níunda áratugnum þegar stjórnvöld réðust í Gukurahundi-fjöldamorðin á Ndebele-ættbálknum sem var ekki álitinn treystandi vegna ágreinings Mugabe og Joshua Nkomo, leiðtoga ZAPU-flokksins sem var í samkeppni við ZANU. Þá var Mnangagwa lykilmaður í aðgerðum simbabveska hersins í Austur-Kongó á tíunda áratugnum og fyrsta áratug þessarar aldar þar sem simbabveskir hermenn rændu gríðarlegum náttúruauðlindum í landinu í skjóli átakanna.
Þá hafa orðrómar um að Mnangagwe fór í útlegð til Kína eftir að honum var vikið úr embætti varaforseta vakið mikla athygli, sérstaklega í ljósi þess að Chiwenga einnig heimsótti Kína örfáum dögum áður en valdaránið átti sér stað. Þar ræddi Chiwenga við Chang Wanquan, varnarmálaráðherra Kína, en Simbabve, sem hefur lengi verið jaðarsett af Vesturlöndum, hefur lengi haft náin tengsl við Kína og hlaut Mnangagwe sjálfur þjálfun í Pekíng í lok sjöunda áratugarins. Hvort að Pekíng hafi gefið Mnangagwe blessun sína yfir aðgerðir simbabveska hersins í vikunni er óljóst en Kína hefur umtalsverða efnahagslega hagsmuni í landinu og hefur sætt gagnrýni fyrir að styðja við bakið á harðstjórn Mugabe.
Hvort að íbúar Simbabve líti á atburðarás undanfarnar viku sem fagnaðarerindi mun eflaust fara eftir því hvers konar ríkisstjórn tekur við ef Mugabe neyðist til að segja af sér.