Hvernig stöndumst við Parísarsáttmálann?
Íslendingar munu að öllum líkindum ekki standast skuldbindingar Kyoto-bókunarinnar og mikið átak þarf að gera til þess að við getum staðist Parísarsáttmálann. Hér er önnur grein í greinaröð á vegum Circular Solutions um umhverfismál á Íslandi.
Íslendingar munu að öllum líkindum ekki standast skuldbindingar Kyoto-bókunarinnar fyrir árið 2020 og þurfa að hafa mikið fyrir því að standast Parísarsáttmálann fyrir árið 2030. Í skýrslu hagfræðistofnunar eru settar fram mótvægisaðgerðir í sjö geirum ásamt landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis (1). Geirarnir sjö eru; orkuframleiðsla, samgöngur, fiskveiðar, fiskimjölsvinnsla, landbúnaður, meðferð úrgangs og iðnaður.
Mótvægisaðgerðir fyrir Parísarsáttmálann
Í fyrstu fjórum geirunum er lagt upp með í skýrslunni að draga verulega úr notkun jarðefnaeldsneytis með því að hámarka rafvæðingu. Þetta á aðallega við um bílaflotann og fiskmjölsverksmiðjur. Einnig er lagt upp með að auka notkun eldsneytis sem unnið er úr lífmassa við fiskveiðar (1). Svo þarf að auka bindingu koltvísýrings frá jarðvarmavirkjunum. Í landbúnaði þarf að bæta fóður til þess að draga úr framleiðslu metans, loftþétta geymslu búfjáráburðar, framleiða metangas úr mykju og að auka notkun búfjáráburðar á kostnað köfnunarefnisáburðar (1). Og helstu leiðir til meðhöndlunar á úrgangi eru urðun, jarðgerð, metangasvinnsla, brennsla og endurvinnsla (1).
Það góða við þessar lausnir er það að þær eru margar hverjar tilbúnar og nokkur reynsla er komin á sum þeirra hér innanlands og erlendis. Það er til dæmis fyrir löngu orðið eðlilegt að sjá rafmagnsbíla á götum landsins og notkun búfjáráburðar er aldagömul aðferð. Svo er einnig búið að rafvæða nokkrar fiskmjölsverksmiðjur. En til þess að klára þá rafvæðingu þarf að styrkja rafmagnsflutning á ákveðnum svæðum landsins. Svo hefur metangasframleiðsla verið á Álfsnesi um þó nokkurt skeið úr urðuðu sorpi höfuðborgarsvæðisins og eru allnokkrir bílar knúnir áfram af þeirri afurð. En hvað varðar eldsneyti úr lífmassa á fiskveiðiskip vantar meiri reynslu og halda þarf áfram með rannsóknir á bindingu koltvísýrings frá jarðvarmavirkjunum.
Það sem er kannski enn skemmtilegra en að þessar lausnir eru til, er að þær tengjast hver annarri. Það er hægt að binda koltvísýring frá jarðvarmavirkjunum með því að dæla niður og binda í basalt eins og Orka náttúrunnar hefur unnið að (2). En það er líka hægt að fanga hann og búa til metanól með því að nota rafmagn til þess að rafgreina vetni úr vatni eins og Carbon Recycling hefur verið að gera (3). Metanól sem er framleitt á þennan máta má einnig kalla rafeldsneyti (e. electrofuel) og hefur verið nefnt ásamt metani frá bæði urðuðu sorpi og mykju frá landbúnaði sem framtíðarlausn fyrir Danmörku og jafnvel Evrópu í held. Þar sem metanól og metan er notað á þau farartæki sem ekki er auðvelt að rafvæða, t.d. langferðabíla, flugvélar og fiskiskip (4, 5). Þetta á að öllum líkindum við framtíð Íslands í þessum málum sömuleiðis og tengjast því allir þessir geirar saman og það þarf að skipuleggja heildstæða vinnu að þeirri framtíð með samvinnu í öllum þessum geirum.
Útblástur gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði á Íslandi kemur aðallega frá álframleiðslu, kísilverum og járnblendi. Í skýrslu hagfræðistofnunar er ekki talinn mikill möguleiki í því að minnka útblástur frá álverum fyrir árið 2030 (1). En föngun kolefnis og notkun eðalrafskauta gæti orðið fýsilegur möguleiki um og eftir árið 2030. Föngun kolefnis getur einnig orðið lausn fyrir útblástur frá járnblendiframleiðslu og kísilverum en fýsileiki þess er enn óljós og kallar á rannsóknar- og þróunarvinnu (1).
Í dag er hægt að auka notkun á timburkurli í járnblendiverksmiðjum en í byggðu kísilveri og fyrirhuguðum kísilverum stendur til að hámarka notkun lífmassa í framleiðslunni þar sem starfsleyfi eru miðuð bestu fáanlegu tækni. Þannig er ólíklegt að útstreymi frá kísilverum minnki fyrir árið 2030 miðað við áætlun. En með mikilli þróunarvinnu er fræðilega hægt að framleiða kísilmálm með rafgreiningu. Hinsvegar, ef jarðefnaeldsneyti er ekki notað í framtíðinni í samgöngum og fiskveiðum, gæti verið þörf á því kolefni sem hægt er að fanga í iðnaði til þess að búa til rafeldsneyti og tryggja þannig 100% innlenda framleiðslu. Þar sem það er ólíklegt að innlend framleiðsla á lífmassa sé nægilega mikil til þess að svara allri þörf. Þannig gæti stóriðjan orðið hluti af lausninni.
Mótvægisaðgerðirnar sem eru nefndar í skýrslu hagfræðistofnunar (1) eru ekki einskorðaðar við að minnka losun heldur er möguleiki á að auka bindingu kolefnis með landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. En þessa vinnu er líka hægt að nota til þess að styðja við mótvægisaðgerðir í öðrum geirum atvinnulífsins, til dæmis með því að auka ræktun á lífmassa sem má nota við framleiðslu á lífdísil eins og ráðgjafahópur undir forystu Jóns Bernódussonar fagstjóra rannsókna og þróunar hjá Samgöngustofu lagði til fyrir um tveimur árum (6), og/eða framleiðslu á rafeldsneyti með því að auka framboð á kolefni til þess að vinna með. Það ætti því að vera ljóst að vinna þarf sameiginlega heildstæða mynd þar sem allar þessar lausnir og mótvægisaðgerðir eru skipulagðar saman.
En með öllum þessum mótvægisaðgerðum sem nefndar hafa verið hér að ofan og miðað við núverandi áætlun í bindingu verður heildarútstreymið einungis 18 prósent lægra en árið 1990. Aftur á móti ef ráðist verður í endurheimt votlendis og umfang landgræðslu og skógrækt yrði tvöfölduð miðað við núverandi áætlun og ef aðgerðarhraði á sviði landnotkunar er fjórfaldaður er mögulegt að nettóútstreymið verði 39 prósent lægra en árið 1990 (1). Það þarf því gríðarlegar fjárfestingar og breytingar í þessum sjö grunngeirum og gríðarlega aukningu í bindingu kolefnis til þess eiga möguleika á að minnka nettóútstreymi á gróðurhúsalofttegundum fyrir árið 2030 í samræmi við Parísarsáttmálann.
Þessi grein er önnur af sex í greinaröð um umhverfismál á Íslandi. Í næstu greinum munum við fjalla hvernig hægt er að minnka umhverfisáhrifin og um umhverfismál í sjávarútvegi, landbúnaði og svo framvegis.
Um höfunda
Heimildir
[1]Hagfræðistofnun. Ísland og loftslagsmál. Skýrsla nr. C17:01
[2] Orka Náttúrunnar; https://www.on.is/koltvisyringi-breytt-i-stein-a-tveimur-arum
[3] Vísir; http://www.visir.is/g/2013130739912/mikil-soknarfaeri-i-metanoli
[4] B.V. Mathiesen, H. Lund, D. Connolly, H. Wenzel, P.A. Østergaard, B. Möller, S. Nielsen, I. Ridjan, P. Karnøe, K. Sperling, F.K. Hvelplund, Smart Energy Systems for coherent 100% renewable energy and transport solutions, In Applied Energy, Volume 145, 2015, Pages 139-154.
[5] D. Connolly, H. Lund, B.V. Mathiesen, Smart Energy Europe: The technical and economic impact of one potential 100% renewable energy scenario for the European Union, Renewable and Sustainable Energy Reviews, Volume 60, July 2016, Pages 1634-1653
[6] Vísir; http://www.visir.is/g/2015151218956
Greinaröð Circular Solutions
-
28. nóvember 2017Lágmarkar mikil hagsæld áhrif á umhverfið?
-
27. nóvember 2017Íslenskur landbúnaður – hvar liggja sóknarfæri?
-
24. nóvember 2017Loftslagsbreytingar og fiskveiðar á Íslandi
-
23. nóvember 2017Hvernig minnkum við kolefnisfótspor Íslendinga?
-
22. nóvember 2017Hvernig stöndumst við Parísarsáttmálann?
-
21. nóvember 2017Umhverfisáhrif Íslands og Íslendinga