Fjórir af hverjum tíu erlendum ríkisborgurum sem sest hafa að á Íslandi það sem af er árinu 2017 hafa gert það í Reykjavík. Alls hefur erlendum ríkisborgurum sem búa í höfuðborginni fjölgað um 5.580 á tæpum fimm árum. Á þessu ári einu saman fjölgaði þeim um 2.460. Því hefur tæplega helmingur þeirrar fjölgunar sem orðið hefur á erlendum íbúum Reykjavíkur átt sér stað í ár.
Önnur svæði eru einnig vinsæl á meðal nýrra íbúa landsins sem fæðst hafa í öðrum löndum. Þannig stefnir í að hlutfall erlendra íbúa í Reykjanesbæ verði um eða yfir 30 prósent á allra næstu árum.
Svo eru það sveitarfélögin þar sem útlendingarnir eru sjaldséðir. Af stórum þéttbýliskjörnum landsins sker Garðabær sig úr. Þar eru einungis fjórir af hverjum hundrað íbúum erlendir ríkisborgarar.
Þessi fréttaskýring birtist fyrst í nóvemberútgáfu Mannlífs.
Fjölgað um 60 prósent á fimm árum
Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað gífurlega á Íslandi á undanförnum árum. Sú aukning hefur verið sérstaklega mikil í ár. Á fyrstu níu mánuðum ársins jókst fjöldi þeirra um 6.310. Það er aukning á fjölda erlendra ríkisborgara á Íslandi um 21 prósent frá því sem var um síðustu áramót. Frá 2010 til septemberloka 2017 hafði erlendum ríkisborgurum fjölgað um 9.318 í 36.585, eða um 74 prósent.
Þessi hópur nýrra íbúa landsins dreifist ekki jafnt milli sveitarfélaga á landinu. Langflestir setjast að í höfuðborginni Reykjavík. Í lok árs 2012 bjuggu 9.380 erlendir ríkisborgarar í Reykjavík. Í lok september síðastliðins voru þeir orðnir 14.960 talsins. Þeim hefur því fjölgað um 60 prósent á innan við fimm árum. Langmest hefur aukningin verið þeim tíma sem liðin er af árinu 2017, en erlendum ríkisborgurum sem búa í Reykjavík hefur fjölgað um 2.460 á þeim tíma. Það þýðir að fjórir af hverjum tíu útlendingum sem flytja til landsins það sem af er ári búa í höfuðborginni.
Verða yfir 30 prósent af íbúum Suðurnesja
Utan Reykjavíkur virðist fjölgun erlendra ríkisborgara vera langmest á Suðurnesjunum. Í Reykjanesbæ, stærsta sveitarfélagi þess svæðis, hefur fjöldi útlendinga á meðal íbúa þrefaldast frá því í byrjun árs 2011 og var 3.510 í lok september. Þegar öll sveitarfélögin á Suðurnesjunum eru skoðuð saman – en þau eru Reykjanesbær, Grindavík, Sandgerði, Garður og Vogar – þá kemur í ljós að erlendum ríkisborgurum á svæðinu hefur fjölgað úr 1.920 í 4.780 frá lokum árs 2010. Þá voru útlendingar um níu prósent af íbúum Suðurnesja. Í dag eru þeir um 19 prósent þeirra.
Ástæðan er fyrst og síðast sú mikla aukning í umsvifum sem orðið hefur á Keflavíkurflugvelli sem staðsettur er á Suðurnesjum. Ferðamönnum sem heimsækja Íslands hefur endað fjölgað úr um 500 þúsund árið 2010 og í um 2,3 milljónir á þessu ári, samkvæmt spám.
Í nýlegri samantekt sem unnin var fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar um stöðu og horfur í sveitarfélaginu, var lögð fram spá um að störfum á Keflavíkurflugvelli myndi fjölga um 2.513 á næstu fjórum árum. Þau þarf að óbreyttu að manna með erlendum ríkisborgurum sem flytja hingað, annað hvort einir eða með fjölskyldum sínum, í ljósi þess að atvinnuleysi hérlendis er sáralítið og í raun ríkir skortur á vinnuafli.
Því má búast við að erlendum íbúum Reykjanesbæjar fjölgi um mörg þúsund í nánustu framtíð og verði að minnsta kosti 30 prósent íbúa sveitarfélagsins.
Garðabær sker sig úr
Það er ekki sama fjölgunin í öllum sveitarfélögum. Þvert á móti.
Á höfuðborgarsvæðinu er staðan til að mynda þannig að tólf prósent íbúa Reykjavíkur eru erlendir ríkisborgarar, 9,4 prósent íbúa Hafnarfjarðar og 8,3 prósent íbúa Kópavogs. Á Seltjarnarnesi eru þeir 6,4 prósent íbúa og í Mosfellsbæ einungis 5,9 prósent.
En það sveitarfélag höfuðborgarsvæðisins sem sker sig mest úr í þessum tölum er Garðabær. Þar búa einungis 640 erlendir ríkisborgarar og þeir eru einungis fjögur prósent íbúa sveitarfélagsins. Það þýðir að það eru 23,4 erlendir ríkisborgarar í Reykjavík fyrir hvern erlendan ríkisborgara í Garðabæ. Það búa tvö þúsund færri í Garðabæ en Reykjanesbæ alls. Samt búa 2.870 fleiri erlendir ríkisborgarar í Reykjanesbæ, sem er í um 40 mínútna akstursfjarlægð frá Garðabæ, en þar.
Fjölgun erlendra ríkisborgara í Garðabæ hefur verið mjög hæg. Á síðustu tæpu sjö árum hefur íbúum sveitarfélagsins fjölgað um 4.730. Af þeim eru einungis 290 erlendir ríkisborgarar.