Íslenskur landbúnaður – hvar liggja sóknarfæri?
Mikil sóknarfæri eru til staðar þegar kemur að minnkun umhverfisáhrifa vegna íslensks landbúnaðar. Hér er fimmta greinin í greinaröð á vegum Circular Solutions um umhverfismál á Íslandi.
Íslenskur landbúnaður hefur töluverða sérstöðu á heimsvísu að mörgu leyti. Ímynd vegur þar þungt enda hefur mikil gagnrýni hefur komið fram á verksmiðjulandbúnað erlendis, þá sér í lagi innan Bandaríkjanna. Hin íslenska ímynd er minna tengd við þessa gagnrýni og er það af hinu góða.
Íslenskur landbúnaður virðist einnig vera töluvert skilvirkur enda má sjá að framleiðni í íslenskum landbúnaði er mjög góð í alþjóðlegum samanburði (1). Starfsfólk í þessum geira er því sýnilega mjög hæft og selur vöru sem aðrir eru tilbúnir að greiða hærra verð fyrir. Á mynd 1 má sjá samanburð við önnur svæði er lítur að þessum þætti. Íslenskur landbúnaður skilar töluvert meiri ábata en hjá þeim löndum sem við berum okkur saman við, fyrir hvern starfsmann innan geirans.
Í nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunnar Háskóla Íslands er bent á að útstreymi gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá sjávarútvegi hefur dregist saman um 43% á milli áranna 1990 og 2014. Í landbúnaði hefur slíkur útblástur minnkað minna og dregist saman um 4% (2). Í skýrslunni er bent á að útblástur frá landbúnaði gæti náð 500 þúsund tonnum árið 2020. Losun GHL í landbúnaði skiptist nokkuð jafnt á milli dýrahalds og túnræktar (52% og 48%). Í aðgerðaáætlun ríkisins frá 2010 er ekki gripið til ráðstafana til að minnka losun GHL vegna meðferðar úrgangs og er þar gert ráð fyrir að almenn stefna og lagasetning muni leiða til þeirrar minnkunar (2).
Landbúnaður er ábyrgur fyrir um 16% af útblæstri gróðurhúsalofttegunda Íslendinga og þess vegna er umhugsunarvert hvers vegna hið opinbera hefur ekki litið til og tekið á þeim mikla útblæstri sem hér á sér stað með markvissum hætti. Þó ber að nefna að í júní 2017 var undirritaður samningur um verkefni við mótun vegvísis um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði sem er skref í rétta átt (2).
Til samanburðar er sjávarútvegur ábyrgur fyrir 10% og úrgangur 6% af útblæstri á Íslandi. Sé litið til samanburðarins er útblástur frá landbúnaði, dreift á hvern íbúa landsins, töluvert meiri en þeirra landa sem við gjarnan berum okkur saman við. Fyrir útblástur á hvern íbúa standa Norðmenn, Finnar, Þjóðverjar, Frakkar og Bandaríkjamenn betur en Íslendingar. Sem mögulega útskýringu á slæmu kolefnisspori íslensk landbúnaðar hefur verið bent á að staðlar milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) um útblástur frá jórturdýrum geti gert það að verkum að útblástur íslenskra dýra sé ofmetinn þar sem „íslensku búfjárkynin eru nokkru minni en þau búfjárkyn sem notuð eru til viðmiðunar”. (3) Til þess að fá raunhæfari mynd af útblæstri frá íslenskum landbúnaði er þörf á nánari rannsóknum sem snúa að íslenskum dýrum og hver raun útblástur frá þeim er.
En hvað geta bændur sjálfir gert?
Það getur vel verið að IPCC sé mögulega að ofmeta útblástur frá búfénaði eða það að staðlar IPCC eigi beinlínis ekki við íslenskan búfénað. Það er þó ekki víst að hvaða marki slíkt ofmat skiptir í raun máli og hvort frammistaða Íslendinga verði betri en nágrannaþjóða þrátt fyrir að slíkir útreikningar séu leiðréttir.
Það sem þessi staða býður þó upp á er að bændur taki málin í eigin hendur og geri eitthvað í málunum. Umhverfisáhrif framleiðslu má skoða frá mörgum, misnákvæmum vísindalegum sjónarhornum. Lífferilsgreining (LCA) er til dæmis aðferðafræði sem skoðar umhverfisáhrif frá framleiðslu, en ýmsa aðra mælikvarða má nota til að skoða nýtni í landbúnaði. Orkuarðsemi (EROI) hefur verið notuð (5), en aðrir stuðla, svo sem orkunotkun á hverja framleidda einingu, má nota til að greina og bæta framleiðslu innan landbúnaðar í heild sinni en einnig innan einstakra býla (6).
Niðurstöður slíkra greininga má svo að sama skapi nota til að lágmarka umhverfisáhrif í landbúnaði annars vegar, án nauðsynlegrar aðkomu ríkis, og nýta til virðisaukningar á íslenskum landbúnaðarvörum hins vegar. Það er svo að slíkar greiningar má nota – og þess þarf gjarnan – til að öðlast leyfi til að merkja landbúnaðarvörur sem umhverfisvænar.
Einnig hefur það oft verið sýnt að neytendur eru meðvitaðir um umhverfisáhrif þeirrar vöru sem þeir versla og greiða gjarnan hærra verð fyrir slíka vöru (7). Hér er því gott tækifæri fyrir íslenskan landbúnað að minnka umhverfisáhrif sín, án aðkomu stjórnvalda, og á sama tíma auka virði sinnar vöru.
Miklir möguleikar liggja í landbúnaði. Bændur eru í eðli sínu framsýnir og þekkja sína framleiðslu best sjálfir. Framkvæmd greininga á umhverfisáhrifum frá búum getur aukið virði landbúnaðarvöru og ekki þarf þrýsting frá stjórnvöldum til að sækja þann ávinning.
Þessi grein er fimmta af sex í greinaröð um umhverfismál á Íslandi. Í næstu greinum munum við fjalla hvernig hægt er að minnka umhverfisáhrifin og um umhverfismál í sjávarútvegi, landbúnaði og svo framvegis.
Um höfunda
Heimildir
[1] World Bank. Sustainable Development Goals. (Virðisaukning í landbúnaði er mælieining á framleiðni landbúnaðar, hér mælt í 2010 dollurum á hvern starfsmann.)
[3] Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Skýrsla nr. C17:01. Ísland og loftslagsmál.
[4] Unsplash. Agence Producteurs Locaux Damien Kühn.
[5] Atlason, R. S., Kjærheim, K. M., Davíðsdóttir, B., & Ragnarsdóttir, K. V. (2015). A comparative analysis of the energy return on investment of organic and conventional Icelandic dairy farms. Icelandic Agricultural Sciences.
[6] Atlason, R. S., Lehtinen, T., Davíðsdóttir, B., Gísladóttir, G., Brocza, F., Unnþórsson, R., & Ragnarsdóttir, K. V. (2015). Energy return on investment of Austrian sugar beet: A small-scale comparison between organic and conventional production. Biomass and bioenergy
[7] Sirieix, L., Delanchy, M., Remaud, H., Zepeda, L., & Gurviez, P. (2013). Consumers' perceptions of individual and combined sustainable food labels: a UK pilot investigation. International Journal of Consumer Studies, 37(2), 143-151.
Greinaröð Circular Solutions
-
28. nóvember 2017Lágmarkar mikil hagsæld áhrif á umhverfið?
-
27. nóvember 2017Íslenskur landbúnaður – hvar liggja sóknarfæri?
-
24. nóvember 2017Loftslagsbreytingar og fiskveiðar á Íslandi
-
23. nóvember 2017Hvernig minnkum við kolefnisfótspor Íslendinga?
-
22. nóvember 2017Hvernig stöndumst við Parísarsáttmálann?
-
21. nóvember 2017Umhverfisáhrif Íslands og Íslendinga