Lágmarkar mikil hagsæld áhrif á umhverfið?
Útblástur gróðurhúsalofttegunda virðist aukast í takt við hagsæld og þess vegna er mikilvægt að stjórnvöld og hagsmunaaðilar beiti sér fyrir fjárfestingu í grænum lausnum. Hér er síðasta greinin af sex í greinaröð á vegum Circular Solutions um umhverfismál á Íslandi.
Við lifum á áhugaverðum tímum þar sem umhverfisvitund almennings og fyrirtækja hefur tekið stökkbreytingum. Í sögulegu samhengi þá er gjarnan talað um þrjár öldur umhverfisvitundar. Sú fyrsta var á sjöunda áratugnum þegar umhverfisáhrif frá framleiðslu fóru að koma ljós sem vandamál og þrýstingur fór að myndast frá almenningi. Umhverfisstofnun Bandaríkjanna (EPA) var síðar stofnuð árið 1970. Á níunda áratugnum fóru leiðbeiningar og reglugerðir að myndast, sér í lagi innan Bandaríkjanna. P2 (Pollution Prevention) var komið á laggirnar innan EPA sem gaf fyrirtækjum leiðbeinandi fyrirmæli um hvernig mætti koma í veg fyrir mengun í stað þess að lágmarka hana. Eftir árið 2000 hefur umhverfisvakning almennings verið ráðandi og fyrirtæki hafa – að einhverju leyti – tekið mið af þeirri vakningu (1).
Umhverfiskúrfa Kuznets
Ein kenning sem sett hefur verið fram tengir saman hagsæld og umhverfisáhrif þjóða. Í stuttu máli er sagt að í upphafi, þegar hagsæld er mjög lítil, sé lítill iðnaður til staðar. Þegar iðnaður fer að aukast og hagsæld eykst innan viðkomandi lands, eykst einnig mengun á hvern framleiddan dollar. Þegar ákveðnu marki er náð heldur hagsældin áfram að vaxa en umhverfisáhrif á hverja framleidda einingu byrja að minnka.
Þessa þróun má útskýra á tvennan hátt. Í fyrsta lagi þá hafa efnaðri þjóðir frekar möguleika á að fjárfesta í umhverfisvænni tækninýjungum og eru (oftast) viljugri til þess. Í öðru lagi þá eru efnaðri lönd gjörn á að úthýsa framleiðslu – til dæmis til fátækari landa – og verða í leiðinni með þjónustumiðaðri efnahag. Með þessa vitneskju að leiðarljósi ætti eina markmið okkar að vera aukin framleiðni enda munu umhverfisvænni tímar bíða takist okkur að þéna nægilega mikið. Þessi þróun er kölluð umhverfiskúrfa Kuznets (2).
Við nánari athugun sést að umhverfiskúrfa Kuznets stenst ekki skoðun að mörgu leyti (3). Í hvora áttina sem orsakasamhengið snýr þá virðist það vera svo að þróaðri ríki mengi einfaldlega meira á hverja framleidda einingu en grípi ekki frekar til umhverfisvænni tækni. Hér að neðan má sjá mynd sem tekin er saman af höfundum þessarar greinar. Á myndinni er notast við gögn frá Alþjóðabankanum varðandi útblástur gróðurhúsalofttegunda (y-ás), þjóðarframleiðslu á hvern íbúa (x-ás) og hlutfall þjóðarframleiðslu sem kemur frá framleiðslu (stærð kúlna) (4).
Á myndinni getur þú ýtt á „Play“-hnappinn og séð þróun 198 ríkja með tilliti til þessara þátta frá árinu 1990 til 2014. Standist umhverfiskúrfa Kuznets ættu þjóðirnar að ferðast yfir hól á miðjum x-ásnum.
Mynd 1 – Grafísk framsetning umhverfiskúrfu Kuznets
Hafir þú nú skoðað þróunina á myndritinu er auðséð að slíkt mynstur líkt og spáð er fyrir í umhverfiskúrfu Kuznets er ekki sjáanlegt þegar litið er til útblásturs á koldíoxíði. Þvert á móti þá virðist það svo vera að mengun á hverja framleidda einingu aukist við frekari hagsæld! Hvergi er að finna þann punkt (eða hann er mjög veikur) þegar þjóðir grípa til sterkari aðgerða til að draga úr útblæstri.
Nokkur ríki virðast þó vera undanskilin þessu, til dæmis Liechtenstein, Sviss og Lúxemborg sem þrífast að miklu leyti á fjármálamörkuðum. Almennt séð þá virðist sú hugmynd að aukin hagsæld leiði að lokum til umhverfisvænni lifnaðarhátta ekki standast skoðun.
Hvað með Ísland?
Í nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er litið til sama tímabils og skoðað er hér að ofan, 1990 til 2014 [5]. Kemur þar fram að „Útstreymi gróðurhúsalofttegunda jókst um 26% frá 1990 til 2014…“ einnig er tekið fram að „útstreymi jókst mest frá iðnaði og efnanotkun, eða um 79%. Útstreymi jókst einnig frá orkuframleiðslu (69%), úrgangi (52%) og samgöngum (39%).“
„Útstreymi gróðurhúsalofttegunda jókst um 26% frá 1990 til 2014…útstreymi jókst mest frá iðnaði og efnanotkun, eða um 79%. Útstreymi jókst einnig frá orkuframleiðslu (69%), úrgangi (52%) og samgöngum (39%).“
Almennt séð hafa Íslendingar sýnt fram á að umhverfiskúrfa Kuznets standist alls ekki. Á mestu góðærisárum okkar höfum við aukið útblástur gróðurhúsalofttegunda, ekki ólíkt flestum öðrum þjóðum, nema meira ef eitthvað er. Hefði þróun Íslands verið í takt við hugmyndina um umhverfiskúrfu Kuznets hefði dregið úr útblæstri á Íslandi á tímabilinu frá 1990. Í nánast öllum geirum hefur útstreymi gróðurhúsalofttegunda aukist.
Getur verið að þrátt fyrir mikla hagsæld hafi hinar þróuðu þjóðir einfaldlega ekki náð hápunkti umhverfiskúrfu Kuznets? Að þær eigi eftir að menga enn meira og öðlast frekari hagsæld þar til að fjárfest er í lausnum sem draga úr mengun? Lítum aftur til Íslands.
Í téðri skýrslu Hagfræðistofnunar er bent á að útblástur í sjávarútvegi hafi dregist saman um 43%. Í raun er það augljóst afhverju lágmörkun útblásturs skipa sé í eðli sínu hagkvæm enda er útblásturinn beintengdur kostnaðarsamri olíunotkun. En sé aðeins rýnt betur í aðra iðnaðargeira má einnig sjá þætti sem gefa til kynna að Ísland gæti verið á leiðinni niður hinn enda Kuznets-kúrfunnar.
Til að mynda hefur CarbFix-verkefni Orkuveitu Reykjavíkur lofað virkilega góðum niðurstöðum varðandi bindingu koldíoxíðs frá jarðvarmavirkjunum (6). Auðlindagarðurinn á Reykjanesi er einnig ágætt sýnidæmi um hvernig auka má orkunýtni með úthugsaðri staðsetningu fyrirtækja sem nýta afgangsvarma frá jarðvarmaverum. Þar má til dæmis nefna Bláa lónið, líftæknifyrirtæki og fiskeldi (í raun hafa hundruð starfa skapast í tengslum við auðlindagarðinn).
Að lokum má benda á að hið opinbera virðist ekki hafa áhuga á að færa okkur niður hægri enda umhverfiskúrfu Kuznets með beinum aðgerðum. Heldur virðist það fyrst og fremst vera einkaframtak sem drífur áfram umhverfisvæna nýsköpun og skapar störf tengd henni. Þar spilar mögulega inn í þrýstingur frá hinu opinbera og almenningi að einhverju leyti. Líkt og bent hefur verið á í fyrri greinum höfunda (sem finna má hér að neðan) er valdið í höndum fyrirtækjanna sjálfra að hámarka virði umhverfisvænni hátta, hvort sem þau eru í framleiðslu eða þjónustu.
Þessi grein er sú síðasta af sex í greinaröð um umhverfismál á Íslandi. Í næstu greinum munum við fjalla hvernig hægt er að minnka umhverfisáhrifin og um umhverfismál í sjávarútvegi, landbúnaði og svo framvegis.
Um höfunda
Heimildir
[1] Scarce, R. (2016). Eco-warriors: Understanding the radical environmental movement. Routledge.
[2] Stern, D. I., Common, M. S., & Barbier, E. B. (1996). Economic growth and environmental degradation: the environmental Kuznets curve and sustainable development. World development, 24(7), 1151-1160.
[3] HStern, D. I. (2004). The rise and fall of the environmental Kuznets curve. World development, 32(8), 1419-1439.
[4] World Bank (2017). Vefsíða. [https://data.worldbank.org/](https://data.worldbank.org/)
[5] Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Skýrsla nr. C17:01. Ísland og loftslagsmál.
[6] Matter, J. M., Stute, M., Snæbjörnsdottir, S. Ó., Oelkers, E. H., Gislason, S. R., Aradottir, E. S., ... & Axelsson, G. (2016). Rapid carbon mineralization for permanent disposal of anthropogenic carbon dioxide emissions. Science, 352(6291), 1312-1314.
Greinaröð Circular Solutions
-
28. nóvember 2017Lágmarkar mikil hagsæld áhrif á umhverfið?
-
27. nóvember 2017Íslenskur landbúnaður – hvar liggja sóknarfæri?
-
24. nóvember 2017Loftslagsbreytingar og fiskveiðar á Íslandi
-
23. nóvember 2017Hvernig minnkum við kolefnisfótspor Íslendinga?
-
22. nóvember 2017Hvernig stöndumst við Parísarsáttmálann?
-
21. nóvember 2017Umhverfisáhrif Íslands og Íslendinga