Loftslagsbreytingar og fiskveiðar á Íslandi
Íslenskur sjávarútvegur er einn verðmætustu geira íslensks samfélags. Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja í sjávarútvegi er ekki síst mikilvæg þegar kemur að loftslagsbreytingum. Hér er fjórða greinin í greinaröð á vegum Circular Solutions um umhverfismál á Íslandi.
Breytingar á loftslagi jarðar munu hafa áhrif á fiskveiðar á heimsvísu, ekki síst hér á Íslandi. Þó virðist það vera að Íslendingar, ásamt nokkrum öðrum þjóðum, geti möguleika búist við meiri afla samhliða þessari þróun. Ástæða þessa virðist vera sú að ýmsar tegundir flytja sig frá hlýrri sjó yfir í kaldari, nær Íslandi, Grænlandi og Noregi (1, 2, 3).
Gangi þetta eftir – sem það virðist gera eins og raunin er með makríl – má gera ráð fyrir að íslensk framleiðsla á sjávarafurðum muni aukast með breyttu loftslagi og möguleikar Íslendinga á fiskmörkuðum aukast. Þetta eru jákvæð en mögulega tímabundin teikn í þeirri annars döpru sviðsmynd sem nýlegar loftslagsspár sýna fram á.
Íslenskur sjávarútvegur virðist almennt vera litinn jákvæðum augum erlendis. Samstarf Hafrannsóknastofnunar og sjávarútvegsins hefur gert það að verkum að íslenskir fiskistofnar eru að mestu sjálfbærir og nýting aflans hefur stóraukist á undanförnum árum sem er afrakstur samstarfs sjávarútvegsins, tækni- og rannsóknafyrirtækja. Sú sjálfbæra, jákvæða ímynd íslensks sjávarútvegs er mikilvæg og getur fært auknar tekjur í þjóðarbúið.
Hvernig má upplýsa neytendur?
Ein leið til þess að upplýsa neytendur um að hér sé sjálfbær vara á ferð er að merkja hana sem slíka. Sú leið er raunar þegar nýtt. Fjölmörg fyrirtæki hafa notast við merkingu Marine Stewardship Council, eða MSC, sem hefur sett regluverk saman til að meta fyrirtæki hvort þau séu verðug til þess að hljóta hið eftirsótta MSC merki. Í þessum hópi er langur listi íslenskra fyrirtækja sem af augljósum ástæðum vilja sýna neytendum að hér sé um fyrsta flokks vöru að ræða (4). Íslenskur sjávarútvegur hefur einnig stuðst við sína eigin vottun að einhverju leiti, Iceland Responsible Fisheries (IRF).
Merkin sem nefnd eru hér að ofan leggja hins vegar einvörðungu mat á hvort aflinn sem um er að ræða komi úr sjálfbært nýttum stofnum; Það er að segja hvort veiðiaðferðirnar séu sjálfbærar og hvort þau skaði vistkerfin. Þessar vottanir meta hins vegar ekki umhverfisálag veiðanna eða varanna í heild, svo sem orkunotkun, umbúðanot, útblástur og kolefnisspor, endurnýtingu og svo framvegis.
Sjávarútvegurinn á heimsvísu stendur nú ekki aðeins frammi fyrir því að nýta stofna hafsins á sjálfbæran hátt, heldur einnig að lágmarka öll þau umhverfisáhrif sem verða til við veiðar, vinnslu og flutninga. Sem sagt virðiskeðjunni allri. Sjávarútvegsfyrirtæki, eins og flest fyrirtæki í dag, vilja sýna samfélagslega- og umhverfislega ábyrgð í sínum rekstri og ættu að sækjast eftir því að greina og meta öll áhrif af sínum rekstri og draga úr þeim. Það er ljóst að fyrirtækin sjálf bera skyldu til þess að segja neytendum frá umhverfisáhrifum vörunnar sem þeir versla.
Hvaða leiðir eru í boði?
Greining á umhverfisáhrifum vöru má gera með lífferilsgreiningu (e. Life cycle assessment, LCA). Slíkar greiningar eru ISO staðlaðar (ISO 14040) og því gjarnan samanburðarhæfar. LCA hefur verið notað síðan á áttunda áratugnum af mörgum af stærstu fyrirtækjum heims með nákvæmlega þetta að markmiði; Að útskýra fyrir neytendum hver umhverfisáhrifin eru af þeirra vöru. Toyota, Coca-Cola, Nestlé og fjölmörg önnur fyrirtæki stóla á lífferilsgreiningu við slíka útreikninga.
Í tilviki fiskveiða tekur LCA ekki einungis tillit til útblásturs fiskiskipa við veiðarnar sjálfar heldur greinir líka vinnslu fisksins, flutning og geymslu. Lífferilsgreining gengur því mun lengra en flest þau umhverfismerki sem eru í boði í dag og veitir dýpri innsýn í möguleg umhverfisáhrif fiskveiða heldur en mælingar sem skoða einungis beinan útblástur skipa. Niðurstöður LCA greininga má líka setja fram á skiljanlegan máta, svo neytendur skilji hver umhverfisáhrif vörunnar eru.
Íslendingar hafa þegar hafist handa við að greina umhverfisáhrif í sjávarútvegi með notkun lífferilsgreininga (5, 6, 7). Hjá Matís til að mynda hefur slík vinna verið unnin, ásamt því að þróun á staðli við útreikninga á umhverfisáhrifum frá fiskframleiðslu hefur átt sér stað innan fyrirtækisins. Í verkefni Matís sem styrkt var af AVS kom til dæmis í ljós að þegar fiskur frá Íslandi er fluttur til Evrópu með flugi er heildar kolefnisspor vörunnar margfalt hærra en þegar varan er flutt með skipi.
Með gagnrýni á þær helstu vottanir sem notaðar eru í dag og með aukinni umhverfisvitund neytenda og kaupenda verða sjávarútvegsfyrirtæki að sýna fram á umhverfisáhrif vöru sinnar sjálf. Þetta eru í raun jákvæðar fréttir því á Íslandi má finna mikla sérfræðiþekkingu á aðferðafræði og framkvæmd lífsferilsgreininga, bæði innan ráðgjafafyrirtækja en einnig innan ýmissa fyrirtækja sem eru beintengd sjávarútvegi. Lítil fyrirstaða er því fyrir íslensk fyrirtæki að sýna það svart á hvítu hvað það þýðir fyrir neytendur að versla íslenskar fiskafurðir.
Þessi grein er fjórða af sex í greinaröð um umhverfismál á Íslandi. Í næstu greinum munum við fjalla hvernig hægt er að minnka umhverfisáhrifin og um umhverfismál í sjávarútvegi, landbúnaði og svo framvegis.
Um höfunda
Heimildir
[1] Cheung, W. W., Lam, V. W., Sarmiento, J. L., Kearney, K., Watson, R. E. G., Zeller, D., & Pauly, D. (2010). Large‐scale redistribution of maximum fisheries catch potential in the global ocean under climate change. Global Change Biology, 16(1), 24-35.
[2] Daw, T., Adger, W. N., Brown, K., & Badjeck, M. C. (2009). Climate change and capture fisheries: potential impacts, adaptation and mitigation. Climate change implications for fisheries and aquaculture: overview of current scientific knowledge. FAO Fisheries and Aquaculture Technical Paper, 530, 107-150.
[3] Shelton, C. (2014). Climate change adaptation in fisheries and aquaculture. FAO Fisheries and Aquaculture Circular (FAO) eng no. 1088.
[4] Icelandic Sustainable Fisheries, Partners. http://www.icelandsustainable.is/isf-partners.html
[5] Guttormsdóttir, A. B. (2009). Life cycle assessment on Icelandic cod product based on two different fishing methods. University of Iceland.
[6] Smárason, B. Ö., Ögmundarson, Ó., Árnason, J., Björnsdóttir, R., & Davíðsdóttir, B. (2017). Life Cycle Assessment of Icelandic Arctic Char Fed Three Different Feed Types. Turkish Journal of Fisheries and Aquatic Sciences, 17(1), 79-90.
[7] Smárason, B. Ö., Viðarsson, J, R., Þórðarson, G., Magnúsdóttir, L. (2014). Life Cycle Assessment on fresh Icelandic cod loins. Matís skýrsla 25-14, ISSN: 1670-7192.
Greinaröð Circular Solutions
-
28. nóvember 2017Lágmarkar mikil hagsæld áhrif á umhverfið?
-
27. nóvember 2017Íslenskur landbúnaður – hvar liggja sóknarfæri?
-
24. nóvember 2017Loftslagsbreytingar og fiskveiðar á Íslandi
-
23. nóvember 2017Hvernig minnkum við kolefnisfótspor Íslendinga?
-
22. nóvember 2017Hvernig stöndumst við Parísarsáttmálann?
-
21. nóvember 2017Umhverfisáhrif Íslands og Íslendinga